Saga - 2013, Síða 71
lega lýsingu á lakri samfélagslegri stöðu kvenna og vísaði í Sáttmála
Sameinuðu þjóðanna sem Íslendingar gerðust aðilar að 1946. Beitti
hann jafnræðisrökum og fullyrti eftirfarandi:
Af þeirri reynslu, sem þegar er fyrir hendi, verður ekki annað sagt en
að konur hafi reynzt jafnokar karlmanna yfirleitt um gáfur, skyldu-
rækni, ábyrgðartilfinningu, reglusemi o.s.frv. Og vissulega hafa allir
skólamenn fyrir löngu sannfærzt um, að stúlkur eru síður en svo eftir-
bátar pilta í samkeppninni við þá við nám og störf í skólanum.40
Meirihluti alþingismanna taldi að ekki lægju fyrir neinar rannsóknir
sem sýndu með óyggjandi hætti að á Íslandi ríkti ekki jafnrétti. Í
Melkorku árið 1949 fór Svafa Þórleifsdóttir, fv. skólastjóri á Bíldudal,
ofan í saumana á umræðunni og varpar umfjöllun hennar ljósi á
togstreituna milli sérstöðu og jafnræðis. Svafa hrakti þá fullyrðingu
að hér ríkti jafnrétti með tilvísun í tölfræðileg gögn. Athygli vekur
að Hannibal notar eingöngu jafnræðisrök en Svafa grípur í senn til
jafnræðis- og sérstöðuraka og reyndar var niðurstaða hennar sú að
kynin bættu hvort annað upp. Þannig undirstrikaði hún sérstaklega,
eins og Ingibjörg H. Bjarnason, að konur ætluðu sér ekki forréttindi
fram yfir karla. „Krafa kvenna er ekki krafa um yfirráð […] Krafa
kvenna er í stuttu máli: Jafnrétti.“41 Óhætt er að segja að jafnræðis-
rökin hafi brugðist og frumvarp Hannibals var fellt. Hann endur-
flutti þann hluta frumvarpsins sem laut að launajafnrétti árin 1953
og 1954, og árið 1960 fluttu þingmenn Alþýðubandalagsins frum-
varpið enn á ný en án árangurs.42
Þegar leið á 8. áratuginn tók andrúmsloftið að breytast og eru
fyrstu jafnréttislögin sem sett voru á Íslandi, árið 1976, til marks um
það; nýir tímar gengu í garð á sviði jafnréttismála. Samfélag eftir-
stríðsáranna var ólíkt því samfélagi sem áður var; þjóðfélagsleg
þátttaka kvenna hafði stóraukist og kvennahreyfingin hafði haft
víðtæk áhrif í samfélaginu.43 Kvennafrídagurinn 24. október 1975
„færar konur“ 69
40 „Verða sett ný lög um réttindi kvenna?“
41 Svafa Þórleifsdóttir, „Alþingi og réttindi kvenna“, Melkorka 5. árg. 1. tbl. (1949),
bls. 17.
42 Vef. Alþingi. Frumvarp til laga um sömu laun kvenna og karla. [102. mál],
http://www.althingi.is/altext/81/s/pdf/0114.pdf, 21. jan. 2013.
43 Kristín Jónsdóttir, „Hlustaðu á þína innri rödd“. Kvennaframboð í Reykjavík og
Kvennalisti 1982–1987 (Reykjavík: Sögufélag 2007), bls. 22; Sigríður Matthías -
dóttir, „Nýja kvennahreyfingin á Norðurlöndum á áttunda áratug 20. aldar“,
Stjórnmál & stjórnsýsla XIII (2012), bls. 197.
Saga vor 2013 NOTA_Saga haust 2004 - NOTA 8.5.2013 12:22 Page 69