Saga - 2013, Page 96
Saga LI:1 (2013), bls. 94–128.
helgi þorláksson
Ódrjúgshálsar og sæbrautir
Um samgöngur og völd við Breiðafjörð á fyrri tíð
Í greininni er sýnt fram á að byggðir við Breiðafjörð hafi myndað landræna
heild vegna samgangna á sjó og að íbúar svæðisins hafi einnig myndað eins
konar félagslega heild, samfélag fólks sem átti náin samskipti og fann til
samstöðu vegna þeirra. Þá er rætt um atriði sem benda til þess að við
Breiða fjörð hafi um og upp úr 1200 verið að rísa pólitísk eining, héraðsríki,
undir forystu eins goða og hefði getað orðið varanleg stjórnsýsluleg eining,
ef þróunin hefði orðið svipuð því sem varð annars staðar þar sem goðorð
voru sameinuð og héraðsríki mynduðust og síðar sýslur. Spurt er hvað olli
einkum að stefndi í þessa átt við Breiðafjörð. Goðorð voru þá sameinuð við
fjörðinn, sem annars staðar, en ekki varð til varanlegt héraðsríki sem síðan
yrði ein sýsla, eins og t.d. Rangárþing undir stjórn Oddaverja, sem síðar
varð Rangárvallasýsla. Vikið er að hugsanlegum skýringum þessa.
Þar sem eyjabúskapur var undirstaða mannlífs og sjórinn gjöfull,
eins og við Breiðafjörð, voru bátar ómissandi. Hverjar voru póli-
tískar afleiðingar tíðra bátsferða undir lok þjóðveldistíma (930-1262),
þegar þróun var sem áköfust frá valddreifingu til valdasameiningar?
Fram komu svonefndir stórgoðar og kváðu á um endimörk yfir -
ráðasvæða sinna, sem nefnast héraðsríki, og lýstu því að þeir réðu
einir innan þeirra. Höfundur hefur rökstutt annars staðar að greiðar
samgöngur hafi oft stuðlað að þessari þróun og spyr hér hvort tíðar
ferðir á bátum um Breiðafjörð hafi ekki ýtt undir að svæðið lyti for-
ystu eins stórgoða.1
Samgöngur á sjó gerðu Breiðafjörð að heild í vissum skilningi.
Hrafn Sveinbjarnarson var höfðingi á Eyri í Arnarfirði um 1200. Um
hann segir:
1 Samantektin sem hér birtist er hluti af svonefndu Breiðafjarðarverkefni en
nokkrar meginhugmyndir sem þar eru nýttar, og spurningar sem spurt er, má
finna í grein Sverris Jakobssonar, Braudel í Breiðafirði, sem birtist 2002. Í rann-
sóknum sínum á Miðjarðarhafssvæðinu fjallaði Fernand Braudel um samspil
umhverfis og stjórnmála. Sjá Sverrir Jakobsson, „Braudel í Breiðafirði? Breiða -
fjörðurinn og hinn breiðfirski heimur á öld Sturlunga“, Saga XL:1 (2002), bls.
151–179, einkum 152–154.
Saga vor 2013 NOTA_Saga haust 2004 - NOTA 8.5.2013 12:22 Page 94