Saga - 2013, Page 97
Alla menn lét hann flytja yfir Arnarfjörð, þá er fara vildu. Hann átti og
skip á Barðaströnd. Það höfðu allir þeir, er þurftu yfir Breiðafjörð. Og
af slíkri rausn Hrafns var sem brú væri á hvorum tveggja firðinum fyrir
hverjum er fara vildi.2
Þetta hefur þótt tortryggilegt og talið líklegt að lýsingin sé liður í
áróðri í Hrafnssögu fyrir Hrafni og ágæti hans. En fyrir liggur að
kirkja Hrafns á Eyri átti fært skip eða bát sem hefur mátt hafa í
ferðum á Arnarfirði.3 Og varla er báturinn á Barðaströnd algjör upp-
spuni og líklegt að Hrafn hafi siglt þaðan á eigin báti og getað notið
fyrirgreiðslu systur sinnar á Geirröðareyri (nú Narfeyri), handan
fjarðar, og t.d. fengið þar hesta að láni til að ferðast áfram, enda eru
til dæmi um hestlán þar á bæ.4 (Sjá 1. mynd). Um ferðir yfir fjörðinn
að Geirröðareyri, eða öfugt, er getið nokkrum sinnum í Sturlungu
og tvisvar um ferðir milli Vaðils og Öndurðareyrar (nú Hallbjarnar -
eyrar), sunnan fjarðar. Vaðill eða Vaðall er býli við Hagavaðal en
hann dregur aftur nafn af stórbýlinu Haga á Barðaströnd.5 Reyndar
er líka getið tvisvar um ferðir manna milli Öndurðareyrar og Haga,
árin 1234 og 1236, án þess að bátar séu nefndir, en þá mun engu að
síður átt við að mennirnir hafi farið á báti.6
Má strax draga þá ályktun að ferðir um Breiðafjörð, milli Barða -
strandar og miðbiks Snæfellsness að norðan, hafi verið tamar mönn-
um. Er sýnt að Öndurðarareyri, Þórsnes og Geirröðareyri hafa verið
kjörnir áfangastaðir og Flatey hentugur viðkomustaður. Hefur verið
bent á að ekki hafi verið fátítt að bændur við Breiðafjörð ættu tein-
æringa sem gátu borið um 25 manns. Hækka mátti borð á slíkum
bátum og átt- og tólfæringum líka og breyta í byrðinga eða farma-
skip svonefnd. Við Breiðafjörð voru bátar kallaðir skip ef þeir voru
áttrónir eða stærri.7 Sterk vísbending um að ferðir yfir fjörðinn hafi
ódrjúgshálsar og sæbrautir 95
2 Hrafns saga Sveinbjarnarsonar in sérstaka. Útg. Guðni Jónsson. Sturlunga saga I.
([Reykjavík]: Íslendingasagnaútgáfan, Haukadalsútgáfan 1953), bls. 383–384.
3 Sama heimild, bls. 440 (ferja).
4 Sturlunga saga I–II. Útg. Jón Jóhannesson, Magnús Finnbogason og Kristján
Eldjárn (Reykjavík: Sturlunguútgáfan: 1946), hér I, bls. 273. [Hér eftir nefnd
Sturlunga saga]
5 Helgi Þorláksson, Gamlar götur og goðavald. Um fornar leiðir og völd Oddaverja í
Rangárþingi. Ritsafn Sagnfræðistofnunar 25. Ritstj. Jón Guðnason (Reykjavík:
Sagnfræðistofnun Háskóla Íslands 1989), bls. 72–5. Sbr. Sturlunga saga I, bls. 306.
6 Sturlunga saga I, bls. 377 og 386.
7 Lúðvík Kristjánsson, Grænlenzki landnemaflotinn og breiðfirzki báturinn, Árbók
Hins íslenzka fornleifafélags 1964, einkum bls. 38–50 og 54.
Saga vor 2013 NOTA_Saga haust 2004 - NOTA 8.5.2013 12:22 Page 95