Saga - 2013, Page 110
þjóðvegur er á okkar tíð.35 Má jafnvel vera að ferðamenn hafi alls
ekki farið þar að öllum jafnaði. Sturla mun hafa viljað að ekki bærist
njósn til Vatnsfirðinga og hefur varla farið Kollafjarðarheiði á enda
og síðan alla leið að Laugarbóli, eins og algengt mun hafa verið,
heldur sveigt af heiðinni niður í Gervidal.36
Vorið 1230 var Sturla aftur á ferðinni og var ákveðinn fundur
með honum og Vatnsfirðingum á Skálanesi. Um förina segir: „Reið
Sturla til Saurbæjar og tók þar skip. Fór Sturla vestur til Skálaness
með tuttugu og fimm manna“.37 Helsti lendingarstaður á þessum
slóðum er Melanes í landi Skálaness og er nærri mynni Gufufjarðar.
Hið eðlilega framhald ferða á þessum slóðum frá Melanesi yfir til
Ísafjarðardjúps hefur svo verið för með hesta um Gufudalsháls.
Sturla hélt áfram vestur og kom á hestum að Holti í Önundarfirði.
Hér kemur skýrt fram hvernig ferðast var með hvoru tveggja, skipi
(skipum) og hestum, og líklegt að Sturla hafi haft með sér hesta á
skipi (skipum) frá Saurbæ en það er ekki tekið fram. Þegar Sturla og
Órækja komu að vestan með mönnum sínum og hestum 1236 og
skildu í Tjaldanesi, eins og fyrr var nefnt, hafa þeir væntanlega farið
síðasta spölinn með skipum frá Skálanesi.
Sturla réð fyrir Skáleyjum38 og átti því vafalaust oft för á þessar
slóðir við Gufufjörð. (Sjá 2. mynd). Kostir til sauðfjárhalds voru
alltaf takmarkaðir í Vestureyjunum, þar með Skáleyjum, og þurfti
að koma sauðfé á beit í landi. Þá sóttust eyjaskeggjar eftir kaupum
við landmenn, seldu þeim fiskifang, fiður, fugl, hákarl, skráp og
smíðisgripi og fínan vefnað en fengu í staðinn smjör, sauðkindur,
kindafóður og skinnavöru.39 Þannig var háttað um 1840 en líklegt
að þetta hafi verið í megindráttum eins á miðöldum enda kvikfjár-
rækt alltaf aðalatriðið í fjörðunum en kostir sauðfjárræktar ekki
helgi þorláksson108
35 Jóhann Skaptason, Árbók MCMLIX. Barðastrandarsýsla ([ Reykjavík]: Ferðafélag
Íslands 1959), bls. 51.
36 Þorgeir Hávarsson og Butraldi ætluðu þjóðleið úr Gervidal yfir heiði; það hef-
ur varla verið Skálmardalsheiði, heldur Kollafjarðarheiði, því að annar ætlaði
að Reykhólum, hinn í Borgarfjörð, sbr. Fóstbrœðra saga, Vestfirðinga sǫgur, bls.
142–147, og einkum P.E. Kristian Kålund, Bidrag I, bls. 600–601. Sjá og um
Einar sem fór úr Kollafirði að Vogum, vafalítið um Gervidal, Sturlunga saga I,
bls. 339.
37 Sturlunga saga I, bls. 340.
38 Sama heimild, bls. 447.
39 Ólafur Sivertsen, „Lýsing Flateyjarp[re] stakalls“, Sóknalýsingar Vestfjarða I, bls.
182 og 184.
Saga vor 2013 NOTA_Saga haust 2004 - NOTA 8.5.2013 12:23 Page 108