Saga - 2013, Page 111
miklir í eyjunum. Höfðingi sem réð yfir Vestureyjum hefur því talið
mikilvægt að hafa taumhald á meginlandinu og eiga þar trausta
fylgismenn.40
För Sturlu 1230 sýnir að venjulegir og eðlilegir ferðahættir á
friðartímum muni hafa verið að fara á bátum milli Saurbæjar og
Gufufjarðar. Þangað var greið leið úr Vatnsfirði um Vatnsfjarðardal
og síðan trúlega um Gervidal upp á Kollafjarðarheiði.
Hestar voru ekki einungis fluttir á bátum milli Tjaldaness og
Reykhóla, heldur munu þeir ósjaldan hafa verið fluttir lengra, alveg
í Skálanes.
Fiskur, býli og völd fyrir vestan Reykhóla
Tveir „staðir“ í gleymdri þjóðbraut
Í Gufudal mataðist Sturla Sighvatsson 1229 og væntanlega menn
hans með honum og árið eftir gat hann notið svipaðrar fyrirgreiðslu
í Gufudal. Þarna réð fyrir séra Jón krókur, sonur Þorleifs skeifu og
Þuríðar, dóttur Hvamm-Sturlu, vel tengdur prestur. Þessar lýsing-
ar á ferðum að Skálanesi og um Gufudal og Gufudalsháls varpa ljósi
á það að kirkjan í Gufudal neðri kunni að hafa verið mikilvæg fyrir
samgöngur og völd. Á 14. öld var staður, í kirkjulegri merkingu, í
Gufudal neðri, eins konar sjálfseignarstofnun, og eru rök til að halda
að Gufudalur hafi verið staður þegar á 12. öld. Til staðar gæti m.a.
bent að Sturla taldi sig geta ráðskast nokkuð með tekjur í Gufudal,
að Jóni frænda sínum látnum, en hann dó 1229.
Á þessum slóðum er annað mikilvægt býli, Staður á Reykjanesi,
og hefur jafnan staðið í skugga Reykhóla en var stórbýli um aldir með
miklum hlunnindum, svo sem selveiði og æðarvarpi.41 Vigfús Gunn -
steinsson bjó á Stað 1253 og faðir hans dvaldist þar með honum. Telst
Gunnsteinn hafa farið með hið forna goðorð Reyknesinga og Þorgils
Oddasonar en Vigfús tók við því af honum 1244 eða fyrr.42 Árið 1253
ódrjúgshálsar og sæbrautir 109
40 Sjór kallaði á skip til ferða og það er ein af helstu ábendingum Braudels að þau
hafi gert viðskipti kleif við Miðjarðarhafið þar sem var ójafnvægi í framleiðslu,
skipti urðu milli svæða á varningi sem skorti. Þetta skapaði náin tengsl og
síðan sameiningu Miðjarðarhafssvæðisins, sem varð þó engan veginn sjálf-
krafa. Sjá Les Memoires de la Méditerranée, sbr. The Mediterranean in the Ancient
World (London: Penguin Books 2002), bls. xxi og 306.
41 Jóhann Skaptason, Árbók MCMLIX. Barðastrandarsýsla, bls. 41–42.
42 Lúðvík Ingvarsson, Goðorð og goðorðsmenn 3 (Egilsstöðum: Á kostnað höfund-
ar 1987), bls. 212–213.
Saga vor 2013 NOTA_Saga haust 2004 - NOTA 8.5.2013 12:23 Page 109