Saga - 2013, Blaðsíða 188
Þetta er ekki síst bagalegt í ljósi þess sem umfjöllun höfundar fer á mis
við fyrir vikið. Það er einhver merkilegasta þversögn líberalismans að þar
eru samtímis færð rök fyrir því að samfélaginu farnist best á eins konar
sjálfstýringu í samræmi við lögmál náttúrunnar, án nokkurra afskipta ríkis-
valdsins, og svo nauðsyn þess að ríkisvaldið standi dyggan vörð um eignar -
réttinn (sem telst samkvæmt kenningunni til náttúrulegra réttinda). Sú þver-
sögn verður enn meira áberandi þegar litið er til þess að bæði hugmynda-
fræði og framkvæmd líberalismans helst í hendur við gríðarlegan vöxt og
aukin umsvif ríkisvaldsins á nítjándu öld. Inn á þetta kemur höfundur
aðeins stuttlega þegar hann ræðir kenningar Adams Smith (bls. 257) en gef-
ur því annars lítinn gaum. Forvitnilegt hefði verið að sjá ítarlegri greiningu
á þessari þversögn. En slík umfjöllun hefði aðeins verið möguleg með því
að fjalla um líberalismann sem heild en skipta honum ekki í tvær aðskildar
hugmyndastefnur líkt og höfundur gerir.
Annað gagnrýnisvert atriði er það misræmi í fræðilegum vinnubrögð -
um sem einkennir verkið. Á köflum beitir höfundur vinnubrögðum fræði -
mannsins á fimlegan hátt með beittri og nákvæmri heimildarýni og vand -
aðri umfjöllun um álitamál meðal fræðimanna. En á köflum gleymast þessi
vinnu brögð alfarið. Sem dæmi má nefna umfjöllun hans um ástand Man -
chesterborgar á fyrri hluta nítjándu aldar þar sem nánast eingöngu er notast
við tvær heimildir. Það er annars vegar frægt rit Friedrichs Engels um
ástand verkalýðsins á Englandi og hins vegar skáldsögur umbótasinnans
Elizabeth Gaskell. Líkt og aðrar heimildir eru þessar ýmsum vandkvæðum
háðar, en ólíkt öðrum köflum bókarinnar gerir höfundurinn í þetta sinn
enga tilraun til að ræða eðli þessara heimilda né vísar hann til andstæðra
sjónarmiða eða rannsókna seinni tíma sagnfræðinga. Kaflinn, sem er afar
grafískur í lýsingum á eymdarástandi lágstétta borgarinnar, er því líkari
áróðri en fræðimennsku. Hér er ekki verið að óska eftir hlutlægari umfjöllun,
enda slíkt hvorki mögulegt né æskilegt í sagnritun af þessu tagi. En það er
munur á því að taka afgerandi og gagnrýna afstöðu gagnvart umfjöllunar-
efninu og þeim skefjalausa áróðri sem hér og hvar skýtur upp kollinum í
Örlagaborginni.
Þessu til stuðnings má nefna vafasamar þýðingar höfundar á sumum
þeirra texta sem hann styðst við, þýðingar sem breyta töluvert merkingu
þeirra. Þannig er textabrot úr gagnrýni Herberts Spencer á forræðishyggju,
sem á frummálinu er „the intrusion of family ethics into the ethics of the
state“, endursagt á íslensku sem „þau lögmál sem gilda innan fjölskyld-
unnar eigi einnig að gilda úti í samfélagi fullorðinna manna“ (bls. 440). En
ríkisvald og samfélag fullorðinna manna eru ekki samheiti. Raunar hafa
hugtökin gjörólíka merkingu og skapa ólík hughrif í hugum lesenda, og það
er undirrituðum óskiljanlegt hví höfundur hefur valið að þýða orð Spencers
á þennan veg, nema ef vera skyldi í þeim tilgangi að skapa villandi hughrif
í áróðursskyni.
ritdómar186
Saga vor 2013 NOTA_Saga haust 2004 - NOTA 8.5.2013 12:23 Page 186