Saga - 2018, Síða 53
skólinn, Prestaskólinn, Læknaskólinn og fleiri stofnanir drógu fólk
frá öllu landinu til Reykjavíkur þar sem það gekk inn í ný hlutverk.
Undir þessum kringumstæðum fæddist sá möguleiki að einhvers-
konar hinsegin rými yrði til hérlendis svipað og hafði gerst í Evrópu
og Ameríku.
En hvað er átt við með „hinsegin rými“? Rannsóknir á rými
(e. space, fr. espace) á vettvangi hug- og félagsvísinda hófust fyrir
alvöru á sjöunda áratug tuttugustu aldar. Þær rekja rætur sínar til
frönsku póststrúktúralistanna en meðal margvíslegra áhrifa þeirra
var að snúa athygli fræðimanna frá hinni hefðbundnu áherslu á
tíma yfir á rými.5 Meðal þessara fræðimanna var franski heimspek-
ingurinn Michel Foucault, sem hafði rými sjaldnast sem sína aðal -
áherslu en er engu að síður afar áhrifamikill í rýmisrannsóknum.
Þar gegnir fyrirlestur hans „Um önnur rými“ (fr. Des espaces autres)
frá árinu 1967 til dæmis mikilvægu hlutverki.6 Í honum beinir
Foucault sjónum sínum að „þeim sérkennilegu rýmum sem standa
með einhverjum hætti í senn utan og innan samfélags okkar og
koma róti á hefðbundna formgerð þess og markalínur“.7 Landfræð -
ingar hafa síðan unnið áfram með þessar hugmyndir Foucaults og
teiknað upp margs konar „landfræði andspyrnunnar“ (e. geography
of resistance), staði þar sem ríkjandi viðmiðum er storkað og rými
gefst til annarlegra athafna.8
Ein áhugaverðasta notkunin á þessum kenningum póststrúkt-
úralista og póstmódernískra landfræðinga hefur átt sér stað innan
hinsegin fræða, þar sem þróast hefur hugtakið „hinsegin rými“
(e. queer space): rými þar sem hefðbundin formgerð samfélagsins í
kynferðismálum truflast eða sveigist til. Eins og fræðimaðurinn Jack
Halberstam orðar það: „Hinsegin notkun á tíma og rúmi þróast … í
andstöðu við stofnanir fjölskyldunnar, gagnkynhneigðar og æxlun -
ar. Hún þróast einnig samkvæmt öðruvísi hugsun um staðsetningu,
hreyfingu og samsvörun.“9 Á Íslandi er hugtakið hinsegin oft notað
„að hafa svo mikið upp úr lífinu …“ 51
5 Ágætt yfirlit má finna hjá Jon Murdoch, Post-Structuralist Geography. A Guide to
Relational Space (London: Sage 2006), bls. 1–25.
6 Frumtextann má finna í Michel Foucault, Dits et écrits 1954–1988 V. 1980–1988
(París: Gallimard 1994), bls. 752–765. Hann var fyrst prentaður og gefinn út árið
1984.
7 Sjá inngang Benedikts Hjartarsonar að þýðingu sinni á grein Michel Foucault,
„Um önnur rými“, Ritið 2:1 (2002), bls. 131–142, hér bls. 131.
8 Jon Murdoch, Post-Structuralist Geography, bls. 13–15.
9 Jack [áður Judith] Halberstam, In a Queer Time and Place. Transgender Bodies,
Saga vor 2018.qxp_Saga haust 2004 - NOTA 30.4.2018 12:11 Page 51