Saga - 2018, Blaðsíða 60
Skömmu eftir þessar samræður um fegurð pilta skrifar Ólafur að
hann hafi farið í heimsókn til Hraungerðisbræðra og þeir séu „mikið
viðkunnanlegir piltar.“32 Síðan kemur hlé á dagbókarskrifum Ólafs
en þá um veturinn urðu þeir Hraungerðisbræður svo nánir að Ólafur
kom „opt til þeirra um það leiti, sem þeir eru að borða kvöldmat“,
en „Geir Sæmundsson kemur til mín á hverjum degi og stund um
opt … en jeg get þess ekki í hvert skipti nema þegar viðræða vor
hefur verið sjerlega merkileg, eða e-ð sjerstakt hefur komið fyrir
okkur.“33 Geir og Ólafur voru að lokum svo mikið saman að þeir
þurftu að gera með sér samning um hversu lengi þeir mættu njóta
félagsskapar hvor annars, svo Ólafur gæti lesið fyrir próf.34
Ólafur tók aftur upp dagbókarskrif í mars 1882 og er hægt að
rekja sambandsþróun þeirra Geirs þaðan. Ólafur skrifar um fyllirí
þeirra Hraungerðisbræðra 23. mars, þar sem Ólafur Sæmundsson
endar á að fara heim sökum ölvunar en Ólafur Davíðsson og Geir
halda áfram drykkju. Ólafur fylgir svo Geir heim, „því hann er ekki
laus við myrkfælni“.35 Tveimur dögum síðar skrifar Ólafur sína
fyrstu færslu um ást sína á Geir. Upp úr sjö um kvöldið kemur Geir
í heimsókn til Ólafs í kvennaskólann við Austurvöll. Ólafur skrifar:
Skelfing þykir mjer vænt um Geir. Hann er líka allra laglegasti piltur og
virðist vera vel viti borinn. Hann er unnustan mín. Jeg kyssi hann og læt
dátt að honum hreint eins og hann væri ungmey. Hann hefur líka tengt
okkur Gísla Guðmundsson [bekkjarfélaga Ólafs] saman. Hann er líka
unnusta Gísla. (Jeg þori reyndar ekki að ábirgjast það). Við gengum opt
með unnustum vorum og með því vjer áttum báðir sömu unnustu, þá
urðum vjer að ganga saman. Við það komumst við í kunningsskap og
kunningsskap Gísla met jeg mikils. Ja, við vorum annars kunningjar áður,
eins og flestir bekkjarbræður eru, en nú erum við held jeg orðnir vinir.36
Meðan hlé var á dagbókarskrifunum hefur Geir ekki aðeins orðið
„unnusta“ Ólafs heldur einnig annars skólapilts — bekkjarbróður
Ólafs Gísla Guðmundssonar.37 Hann varð síðar einn nánasti vinur
þorsteinn vilhjálmsson58
32 Lbs. 2686 8vo, bls. 13.
33 Sama heimild, bls. 98 (14. og 15. apríl 1882).
34 Sama heimild, bls. 71–72 (10. apríl 1882).
35 Sama heimild, bls. 26–28.
36 Sama heimild, bls. 29–30.
37 Bók Þorsteins Antonssonar, Örlagasaga, safnar saman öllum helstu heimildum
um ævi Gísla. Hann fór til kaupmannahafnar í málfræðinám, samtíða Ólafi,
en fyrirfór sér árið 1884.
Saga vor 2018.qxp_Saga haust 2004 - NOTA 30.4.2018 12:11 Page 58