Saga - 2018, Page 64
sér hita.51 Þessi sveitasiður breytti þó um merkingu í höfuðstaðnum
Reykjavík og sérstaklega í Lærða skólanum þegar á leið öldina.
Þetta var í samræmi við viðlíka þróun erlendis eins og sést vel af
ferðasögu ensks ferðalangs til landsins. Árið 1834 kom maður að
nafni John Barrow í heimsókn í híbýli latínuskólans á Bessastöðum
— forvera Lærða skólans — og fékk að skoða skólabygginguna.
Hann var hneykslaður á svefnaðstöðunni:
Ég varð forviða og hlýddi á með viðbjóði að tveir drengir hvíli í hverj-
um bás eða klefa, og að þar til nýlega hafi hvert rúmstæði hýst þrjá
unga menn. Þetta kann að vera léttvægt mál á Íslandi, rétt eins og í
Noregi, að því er ég tel, en fyrir okkur [Englendingum] er þetta bar-
barískur siður … Mér skilst annars að [menntakerfið á Bessastöðum]
njóti almennt minni virðingar á Íslandi en einkakennsla í heima hús -
um, enda er ekki jafn líklegt að siðgæði ungmennanna spillist þar og
á stað þar sem fjörutíu unglingum er hrúgað saman án þess að neinar
teljandi hömlur hvíli á þeim. Þar geta einn eða tveir óheillakarakterar
[indiffer ent characters] sýkt [infect] alla hina. Þessar mótbárur eru
nokkuð eðlilegar á Íslandi, þar sem bændur og klerkar eru, eftir minni
eftirgrennslan, saklaust, einfalt og siðhreint fólk, en þær gilda sömu-
leiðis um flesta heimavistarskóla [public schools], og spurningunni um
hvort teljist betra [heimakennsla eða heimavistarskóli] er enn ósvar -
að.52
Hneykslun Barrows og samanburður hans á aðstæðunum í Bessa -
staða skóla og breskum heimavistarskólum er mjög áhugaverð.
þorsteinn vilhjálmsson62
51 Jónas Jónasson, Íslenzkir þjóðhættir (Reykjavík: Opna 2011), bls. 9–12. Einnig
kemur þar fram að flestir hafi sofið naktir, en erfitt er að segja til um hvort það
hafi átt við Ólaf og Geir í Reykjavík 1882; færsla Ólafs 10. september 1882 (Lbs.
2686 8vo, bls. 309–310) bendir til annars, þar sem Ólafur þarf að þrífa upp
fyllerí sælu sína með náttskyrtu sinni og verður því að sofa „skansanakinn“.
Ólafur vekti varla athygli á því nema þetta væri óvenjulegt. Sömuleiðis segir
Ólafur frá eftirfarandi, kominn út til kaupmannahafnar (sama heimild, bls.
290–291 (30. ágúst 1882)): „Þá er við Jón Stefánsson [herbergisfélagi Ólafs] vor-
um komnir úr fötunum fórum við að skoða á okkur skrokkana og fetta þá og
bretta á ýmsa vegu. Það var nógu gaman. Það er svo sjaldan, sem maður sjer
bera líkami. Við sáum svo vel hvernig vöðvarnir sullu við hreifingarnar,
hvernig þeir þrútnuðu og teygðust.“ Þetta bendir ekki til þess að Ólafur hafi
séð mikið af nöktum líkama Geirs.
52 John Barrow, A Visit to Iceland, by way of Tronyem, in the “Flower of Yarrow” Yacht,
in the Summer of 1834 (London: John Murray 1835), bls. 228–229, 231. Þýðingin
er mín.
Saga vor 2018.qxp_Saga haust 2004 - NOTA 30.4.2018 12:11 Page 62