Saga - 2018, Síða 157
sagt að þau mörk hafi verið til í raunveruleikanum.20 Síðustu ára -
tugi hafa margir erlendir sagnfræðingar rannsakað hvernig mat-
reiðslubækur voru liður í að hanna og viðhalda hugmyndum um
konur sem húsmæður fyrst og fremst.21
Rannsóknir bandaríska sagnfræðingsins Jessamyn Neuhaus kall-
ast á við rannsókn Gold að því leyti að báðar telja þær að þróun
millistéttarinnar, og í kjölfarið þrengra athafnasvið kvenna, hafi haft
áhrif á það sem var ritað í matreiðslubækur. Neuhaus segir að
tvenns konar félags- og efnahagslegar breytingar hafi haft hvað mest
áhrif á bandarískar matreiðslubækur á nítjándu öld. Á fyrri helm -
ingi aldarinnar hafi það verið þróun millistéttarinnar og útbreiðsla
kenninga um sérstakt svið kvenna en síðar hafi það verið breytingar
í matreiðslu, nútímavæðing eldhústækja og útbreiðsla matreiðslu-
skóla. Í bandarískum matreiðslubókum, sem gefnar voru út á öðr -
um og þriðja áratug tuttugustu aldar, var reynt að skapa þá ímynd
af matreiðslu að hún væri skemmtileg og kjarninn í hlutverki hvítrar
konu úr borgarastétt. Þannig viðhéldu bækurnar þeirri hugmynd að
húsmóðurhlutkverkið lægi í eðli kvenna.22
Í doktorsritgerð sinni, Danske trykte kogebøger 1900–1970, rann-
sakaði Caroline Nyvang matreiðslubækur út frá þremur þáttum:
mat, matargerð og matmálstíma. Hún flokkaði bækurnar í fjórar
bylgjur: kennslumatreiðslubækur, læknamatreiðslubækur, ráðgjafa-
matreiðslubækur og matarfræðilegar matreiðslubækur. Í síðasta
flokknum var matreiðsl an orðin að áhugamáli, ferli sem átti að
njóta, og bækurnar ætlaðar körlum sem konum.23 Þótt sjá megi
sömu þemu í íslensku matreiðslubókunum er ekki hægt að greina
sömu bylgjur og í rannsókn Nyvang. Þróun matseldar frá vinnu til
áhugamáls er þó eitthvað sem kemur skýrt fram, en sumir fræði -
menn tengja það við að nú voru karlmenn farnir að elda. Til að
mynda segja sænsku fræði mennirnir Nicklas Neumann og Christina
Fjellström að fínni matargerðarlist í Svíþjóð nútímans hafi yfirleitt
karlmann í lykilhlutverki og sé tengd hugmyndum um tómstundir.
„fallega framreiddur matur“ 155
20 Gold, Danish Cookbooks, bls. 176.
21 Kgl. Bibl. Kbh. Nyvang, Danske trykte kogebøger, bls. 19.
22 Jessamyn Neuhaus, Manly Meals and Mom’s Home Cooking: Cookbooks and
Gender in Modern America (Baltimore: Johns Hopkins University Press 2003),
bls. 2 og 12.
23 Kgl.Bibl. Kbh. Nyvang, Danske trykte kogebøger, bls. 24–25 og 152–154.
Saga vor 2018.qxp_Saga haust 2004 - NOTA 30.4.2018 12:12 Page 155