Saga - 2018, Blaðsíða 168
notumst ómeðvitað við þá siði sem við ólumst upp við.73 Þannig
geta aðrir dæmt samfélagsstöðu okkar út frá borðsiðum. Hér lætur
Elín þess getið að húsmóðirin hafi borið ábyrgð á að kenna öðru
heimilisfólki rétta borðsiði, en að kunna borðsiði gat aukið virðingu
viðkomandi þegar gesti bar að garði.
Skreytingar
Árið 1915 var bók Jóninnu Sigurðardóttur, Ný matreiðslubók fyrir
fátæka og ríka, gefin út í fyrsta skipti. Bókin kom út í fimm útgáfum,
sú síðasta árið 1945, og í viðtali við Jóninnu sama ár, kemur fram að
15.000 eintök af bókinni hafi selst.74 Fröken Jóninna, en svo var hún
yfirleitt kölluð, var fædd 1879, dóttir Sigurðar Jónssonar og Helgu
Sigurðardóttur. Jóninna fór fyrst til náms við kvennaskóla Akur -
eyrar en hélt síðar til Noregs og dvaldi þar í hálft ár. Þaðan fór hún
til Danmerkur í áframhaldandi hússtjórnarnám — fyrst til Vælle -
gård Husholdningsskole í Sorø, en síðar í tveggja ára nám í Statens
Lærerhøjskole í kaupmannahöfn. Þegar Jóninna sneri aftur heim
hóf hún „umferðarkennslu“ í matreiðslu um allt Norðurland og hélt
henni úti í þrjá vetur, ferðaðist um sveitirnar, með öll áhöld til
kennslunnar á klyfjahestum, og kenndi húsmæðrum.75 kennslan
var byggð á danskri fyrirmynd en forstöðukona Vællegård hafði
stofnað farandhúsmæðraskóla árið 1900 og hvatti Jóninnu til að gera
slíkt hið sama.76 Jóninna stofnaði fastan skóla hjá Ræktunarfélagi
Norðurlands, réð sig síðar sem ráðskonu við sjúkrahúsið Gudmanns
Minde og stofnaði svo og rak Hótel Goðafoss. Hún var ein þeirra
kvenna sem börðust ötullega fyrir stofnun Húsmæðraskóla Akur -
eyrar. Hann tók til starfa árið 1945 og var Jóninna formaður skóla-
nefndar. Því starfi sinnti hún til dauðdags 1962.77
Jóninna varð fyrst íslenskra matreiðslubókahöfunda til að skipta
uppskriftum í hversdagsrétti og „[s]unnudaga-, tækifæris- og há -
sigurbjörg elín hólmarsdóttir166
73 Pierre Bourdieu, Language and symbolic power (Oxford: Polity Press 1991), bls.
12–13.
74 VSV, „Húsmæðraskóli Akureyrar. Viðtal við Jóninnu Sigurðardóttur form.
skólanefndarinnar“, Alþýðublaðið 22. ágúst 1945, bls. 4.
75 Sigríður L. Árnadóttir, „Aldarminning: Jóninna Sigurðardóttir“, Dagur 10. maí
1979, bls. 4–5 og 7, einkum bls. 4.
76 Guðjón Friðriksson og Jón Þ. Þór, Kaupmannahöfn sem höfuðborg Íslands, bls. 405.
77 Sigríður L. Árnadóttir, „Aldarminning: Jóninna Sigurðardóttir“, bls. 4–5.
Saga vor 2018.qxp_Saga haust 2004 - NOTA 30.4.2018 12:12 Page 166