Saga - 2018, Side 174
Að halda góða veislu og öðlast virðingu af henni var list. Það var ekki
nóg að eiga troðna pyngju til að halda góða veislu, það þurfti hugvit og
smekkvísi. Maturinn skyldi vera betri frekar en meiri, húsakynnin feg-
urri frekar en rúmmeiri, gjafirnar fágætari og virðulegri frekar en
dýrari.102
Menningarlegt auðmagn húsmóðurinnar skipti því jafnvel jafn -
miklu máli og efnahagslegt auðmagn heimilisins þegar kom að
veisluhöldum. Þó að Viðar fjalli hér um miðaldir krafðist það ennþá
kunnáttu að halda góða veislu á tuttugstu öld — og til þess þurfti
húsmóðirin að vita hver væri hinn rétti smekkur hverju sinni.
Gestrisni
Að áliti Helgu Sigurðardóttur var það fyrsta sem húsmóðir átti að
gera, þegar halda skyldi veislu, „að ákveða, hverjum bjóða skuli, og
er þá oft boðið skriflega 10–14 dögum áður.“ Hér gat húsmóðirin
sýnt hið félagslega auðmagn sem hún bjó að og jafnvel styrkt sam-
bönd, ekki einungis sín eigin heldur líka eiginmannsins og jafnvel
annarra gesta. Félagslegt hlutverk konunnar sem gestgjafa var um
þetta leyti frekar nýtt af nálinni. Ætlast var til þess að húsmóðirin
tæki þátt í veisluhöldum en bæri ekki fram matinn: „Athugið, að
húsmóðirin geti setið kyrr við borðið ásamt öðrum, meðan á máltíð -
inni stend ur.“ Hlutverk hennar fólst þannig í því að fylgjast með að
allt gengi vel og að sjá um gestina. Í kaflanum „Gestrisni“ styrktist
ímynd og hlutverk húsmóðurinnar sem „félagslegs“ gestgjafa:
Hið mikilverðasta er sá andi og sú glaðværð sem ríkir. Þar hvílir
ábyrgðin á gestgjöfunum. Forðist slúðursögur og allt það, sem getur
sært þá, sem viðstaddir eru, eða getur verið þeim til leiðinda. Reynið
að gera umræðurnar lifandi, skemmtilegar og fræðandi. Grípið til
söngs og hljóðfærasláttar, ef mögulegt er.103
Það gefur augaleið að til þess að geta farið eftir slíkum leiðbeining-
um þurfti húsmóðirin að sitja á auðmagni. Hún varð að fylgjast með
þjóðfélagsumræðunni og vita hverjir tengdust hverjum til að vera
viss um að það sem sagt yrði særði engan og, ef mögulegt var, kunna
að syngja og spila á hljóðfæri — auk þess að sitja á því táknræna
auðmagni sem var að eiga hljóðfæri.
sigurbjörg elín hólmarsdóttir172
102 Viðar Pálsson, „Var engi höfðingi slíkr sem Snorri“, bls. 78.
103 Helga Sigurðardóttir, Matur og drykkur, bls. 455 og 462–463.
Saga vor 2018.qxp_Saga haust 2004 - NOTA 30.4.2018 12:12 Page 172