Saga - 2018, Side 222
Á því leikur enginn vafi að höfundur tekur nokkuð einarða afstöðu með
söguhetjunni, sérstaklega í umfjöllun um frelsi og ófrelsi. Þetta sést m.a. í III.
kafla þegar segir: „Íslendingahópurinn hefur lagt að baki ófrelsið á Íslandi
sem Jón Halldórsson talaði um“ og síðar „Meðvitundin um frelsið er að
byrja að komast inn í fólkið“ (bls. 85). Þá er athyglisvert að sjá hvernig kapp
er lagt á að aðgreina Jón Halldórsson, hugmyndafræðilega séð, frá megin -
þorra íslenskra innflytjenda í Norður-Ameríku, einkum þeim sem fluttu til
kanada. Þannig er gefið í skyn að með því að hafa sest að annars staðar en
í íslenskri nýlendu hafi Jón öðlast tveggja heima sýn, þurft að læra ensku,
verklag og venjur Nýja heimsins (bls. 175), nokkuð sem innflytjendur í hin-
um skipulögðu nýlendum þurftu ekki síður að glíma við. Þá segir jafnframt
að Jón hafi ekki þurft að leita í vikublaðið Framfara, útgefið í Nýja-Íslandi,
þar sem frelsishugmyndir „var þegar að finna í bréfum hans“ (bls. 122). Á
sama hátt er látið að því liggja að Jón hafi verið skrefi á undan löndum
sínum í kröfum um sjálfræði einstaklingsins (bls. 187). Að mörgu leyti er
dregin upp alþýðleg mynd af Jóni, sem hafi blátt áfram staðið andspænis
ófrelsisöflum gamla og nýja heimsins, eins og sagt er um flutning hans til
Nebraska, en með honum hafi hann „brotist undan forsjárvaldi annarra,
hvort sem það var húsbóndi hans, klerkurinn, hreppstjórinn, sveitarorðróm-
urinn í heimahéraði eða sjálfskipaðir leiðtoga [svo] meðal Vestur-Íslend -
inga“ (bls. 220–221).
Frelsi, menning, framför er í senn skemmtileg, lifandi og ögrandi bók um
sögu íslenskra vesturfara. Það má ekki síst þakka karakternum sjálfum, Jóni
Halldórssyni, sem var óragur að tjá skoðanir sínar um málefni gamla og
nýja heimalandsins. Gagnrýnni nálgun að texta og hugmyndum viðfangs-
efnisins hefði verið fróðleg og heillandi þó að hún hefði sjálfsagt ekki dregið
úr meginniðurstöðum rannsóknarinnar, þ.e. að hugmyndir Jóns Halldórs -
sonar hafi verið mótaðar af tveggja heima sýn og að hann hafi markvisst
reynt að nýta frelsið til að koma upplýsingum og skoðunum á framfæri (bls.
255–256).
Ólafur Arnar Sveinsson
ritdómar220
Saga vor 2018.qxp_Saga haust 2004 - NOTA 30.4.2018 12:12 Page 220