Bændablaðið - 25.05.2022, Blaðsíða 38
Bændablaðið | Miðvikudagur 25. maí 202238
LÍF&STARF
Félag eldri borgara á Húsavík og nágrenni lagði land undir fót:
Suðurland gerði stormandi lukku hjá Húsvíkingum
Félag eldri borgara á Húsavík fór í
fjögurra daga ferð um Suðurland
dagana 26.–29. apríl. Alls tóku 52
eldri borgarar þátt í ferðinni.
„Þetta var frábær ferð og mikil
ánægja með hana hjá öllum. Við
fengum dásamlegt veður alla
dagana, fórum í skemmtilegar
heimsóknir, nutum góðra veitinga
og gistingar á Hótel Selfossi og
komum öll alsæl heim,“ segir Lilja
Skarphéðinsdóttir, formaður Félags
eldri borgara á Húsavík og nágrenni.
Meðal staða sem voru heimsóttir
voru Sólheimar í Grímsnesi
og Grímsborgir, sem eru líka í
Grímsnesi. Þá var Tré og list í
Flóahreppi heimsótt og Brugghúsið í
Ölvisholti, sem er einnig í Flóanum.
Sérstök skoðunarferð var farin
um nýja miðbæinn á Selfossi. Guðni
Ágústsson fór með gamanmál á
hótelinu eitt kvöldið fyrir hópinn
og þá dansaði danshópur línudans
fyrir hópinn líka á hótelinu.
Þá var fólk duglegt að ganga
um á Selfossi, skoða inn í verslanir
og njóta þess
að vera til. Ekki
gleyma því að
stjórn Félags
eldri borgara á
Selfossi tók á móti
hópnum fyrsta
daginn og sýndi
þeim aðstöðuna
sem félagið hefur
í Grænumörkinni
og kynnti þeim
starfsemi félag-
sins í máli og
myndum. Einnig
var nýja 60 manna
hjúkrunarheimilið,
sem á að fara að opna á Selfossi,
kynnt hópnum. /MHH
Formennirnir tveir, Lilja Skarphéðinsdóttir, formaður Félags eldri borgara
á Húsavík og nágrenni, og Þorgrímur Óli Sigurðsson, formaður félagsins á
Selfossi. Nýja hjúkrunarheimilið er í baksýn.
Kolbrún Karlsdóttir hjá Bergmáli á Sólheimum kynnti starfsemi félagsins,
sem er líknar- og vinafélag. Hún bauð hópnum upp á dýrindis kjötsúpu og
rjómapönnukökur og kaffi.
Hópurinn stillti sér upp í myndatöku í góða veðrinu í nýja miðbænum á Selfossi. Myndir / MHH
Hópurinn hafði gaman af því að hitta Reyni Pétur á
Sólheimum en hann sagði nokkrar skemmtilegar sögur
og spilaði á munnhörpuna sína.
Ólafur Sigurjónsson hjá Tré og list
í Forsæti í Flóahreppi tók á móti
hópnum og sýndi safnið sitt, sem
hann og Bergþóra Guðbergsdóttir,
eiginkona hans, hafa byggt upp á
síðustu árum. Sjón er sögu ríkari.
Börn úr Grunnskólanum á Þórshöfn vöktu nýverið athygli vegfarenda á umhverfismálum og héldu á skiltum fyrir utan Kjörbúðina á Þórshöfn. Þar mátti sjá til að mynda hvatningu til bifreiðaeigenda
um að drepa á vélum bíla fyrir utan verslunina og áminningu um að endurvinna og endurnýta. „Unga kynslóðin er greinilega að taka af skarið í umhverfismálum og hvetja til minni mengunar
enda er þetta kynslóðin sem mun erfa landið og vill fá það í hendur ómengað eins og við sem eldri erum tókum við því,“ segir á vefsíðu Langanesbyggðar þar sem þetta kemur fram. /MÞÞ
Börn úr Grunnskólanum á Þórshöfn
vöktu athygli á umhverfismálum