Bændablaðið - 09.06.2022, Blaðsíða 46
46 Bændablaðið | Fimmtudagur 9. júní 2022
Árið er 2020. Kristbjörg Kjeld
hlýtur Grímuna sem leikkona
ársins í aukahlutverki. Þjóðin
verður öll svo uppnumin að flestir
ganga með grímu henni til heiðurs
næstu árin.
Svo mikið æði rann yfir þjóðina,
að sjá mátti einnota grímur liggjandi
á götum hér og þar. Vafalítið verið
kastað upp í loft með táknrænum
hætti í fagnaðarlátum.
Fram að þessu höfðu slíkar
grímur helst verið notaðar af
þeim sem ráðast á neglur kvenna
með slípirokk eða hafa áhyggjur
af öndunarfærunum. Í garðvinnu
væri oft óvitlaust að klæðast
slíkri andlitsskýlu, en þó er það
sjaldgæf sjón að sjá okkur vesenast
í garðinum falin bak við grímu.
Hönskunum munum við oft eftir,
en af hverju ekki grímum? Hugmynd
svo maður ofkæli sig nú ekki á degi
nakta garðyrkjumannsins: hylja
öndunarfærin.
Eru þetta grímulausir
garðar, Garðar?
Nafnið Grímur bera fleiri en
kokkurinn með plokkarann. Það
finnst jú meðal íslenskra plöntuheita
og vísar oftast til tegunda innan
ættkvíslarinnar Penstemon.
Hátt í 300 tegundir finnast af
grímublómum auk mikils fjölda
blendinga og því um þó nokkra
fjölbreytni að ræða. Þær geta verið
frá örfáum sentimetrum að hæð upp
í nokkra metra. Á ensku kallast þær
„beardtongues“, eða lauslega þýtt:
skeggtungur. Nafnið vísar til þess
að það er líkt og hver blómklukka sé
með tungu og sú tunga er oft hárug.
Ættkvíslarheitið Penstemon
vísar svo til þess að blómin bera
fimm fræfla.
Akurgríma (P. digitalis),
runnagríma (P. fruticosus),
kampagríma (P. whippleanus)
og rósagríma (P. rupicola) eru
meðal þeirra sem sést hafa hér á
landi. Skyldleiki er ekki mikill
við ættkvíslina Parthenocissus,
annars væri ég löngu búinn að
rækta blending af ráðhúsvíni
(Parthenocissus tricuspidata)
og kampagrímu (Penstemon
whippleanus) til þess eins að geta
nefnt hann kampavín.
Meiri er þó skyldleiki þeirra með
fingurbjargarblómum (Digitalis)
og ljónsmunna (Antirrhinum)
og má því stundum finna viss
líkindi með blómstrum þeirra og
grímanna. Fjöldi grímuplantna í
görðum á Íslandi virðist þó einungis
agnarsmátt brot af þeim fjölda sem
finnst af hinum tveimur.
Hin lágvöxnu munu erfa landið!
Ekki eru allar grímur skapaðar
jafnar, sem getur skýrt fæð þeirra
í íslenskum görðum. Þótt um sé að
ræða fjölærar plöntur, eru ýmsar
þeirra svo viðkvæmar að þær henta
best sem forræktuð sumarblóm.
Ellegar blómstra þær í besta falli í
lok sumars og rótin drepst svo strax
í fyrstu frostum. Þumalputtareglan er
að flokka þær eftir stærð. Hávaxnar
grímur þurfa almennt sem mesta sól,
hlýju, þurran og oft næringarríkari
jarðveg. Þær lágvaxnari standa sig
betur þar sem hitasumman er lægri og
jarðvegur örlítið rakari. Þarna skiptir
kyn orða máli, því jarðvegurinn er
svo sannarlega ekki örlítill rakari,
snyrtandi hárin á skeggtungum.
Frjósemi er þó ekki eins mikilvæg
fyrir hina lágvöxnu. Túlki það hver
með sínum hætti.
Margar grímur eiga það líka til
að vera dyntóttar og skammlífar. Þó
þær lágvaxnari séu harðari af sér, fer
íslenska vetrarvætan oft illa í þær.
Hér hentar því best að bjóða þeim
upp á léttan, vel drenandi jarðveg,
ekki verra ef hann er mjög söndugur.
Akurgríma þolir t.d. frost
ágætlega ef rótin er ekki rennblaut
allan veturinn og frostið fer ekki
ítrekað niður fyrir 10 stig. Skammlífi
plantnanna fer nefnilega oft eftir því
hversu harður, sem og hversu blautur,
veturinn var. Fjallagríma (P. alpinus)
og dýjagríma (P. serrulatus) þola hins
vegar nær 20 stiga frost. Það er því
afar mikilvægt að velja vel, þegar
grímu er bætt í garðinn.
Ullað í grímuna
Sums staðar eru grímur gróðursettar
sérstaklega til að laða að kólibrífugla,
þessa sætu, sérstöku, nettu litlu fugla.
Slíkt þýðir þó lítið hér á landi, ef marka
má mína reynslu hingað til, en vekur
eina hugsun: Þessi ætt fugla „ullar“
víst 13 sinnum á sekúndu þegar hún
sækir sér hunangslög úr blómum.
Hversu margir sem gengu framhjá
okkur með grímu, voru kannski að
gera slíkt hið sama, án þess að við
tækjum nokkurn tímann eftir því? Er
kannski öruggast að ulla bara alltaf á
alla sem við sjáum, svo við verðum nú
ekki undir í ullinu?
Sjálfur er ég með handfylli af
grímuplöntum í garðinum og reyni
að ulla á sem flesta. Grasagarður
Reykjavíkur gerir betur og er með
hálfgert grímuball fagurra Penstemon-
tegunda, en starfsfólkið hef ég ekki enn
séð ulla. Með stöku undantekningum.
Fleiri grímur í garðinn?
Hvað gerist í framtíðinni? Íslendingar
búa við eitt minnsta magn svifryks í
heimi, en samt koma dagar þar sem við
sláum öll met í hina áttina og sumar
grímur geta hjálpað til þar. Kannski
verðum við duglegri að nýta grímurnar
þegar við umpottum og gróðursetjum?
Réttar grímur gætu forðað okkur frá
moldarryki, sveppgróum, varnarefnum
o.fl. sem fylgt geta plöntum,
blómlaukum og jarðvegi. Svo ekki
sé minnst á eldfjallaösku sem blæs
yfir byggðir frá gróðurlitlum svæðum.
Landið fýkur burt, en sem betur fer
náum við að grípa eitthvað af því
með hárinu, fötunum, húsveggjum
og jafnvel grímum.
Smáa letrið – viðvörun!
Íslensk sviðslistaverðlaun eru
engin sérstök vörn gegn ryki eða
veikindum. Andlitsgrímur sinna
því hlutverki betur. Hins vegar geta
grímublómin hjálpað til í baráttunni
gegn hversdagsleikanum og lyft upp
munnvikum svo á manni myndast
bros. Að brosa alla leið frá hjartanu og
fram í andlit gerir oft daginn töluvert
betri og hjálpar hið minnsta andlegu
heilsunni. Sama hvort brosið er falið
bak við andlitsgrímu eður ei.
Kristján Friðbertsson.
KORNHORN
Hveiti er ræktað hér á landi í
fáum hekturum. En talsverðir
möguleikar eru á ræktun þess
hér á landi og kornið getur verið
mikils virði í fóðureiningum
fyrir ýmsar skepnur, svo ekki sé
minnst á mögulegan virðisauka
til manneldis.
Hveiti, eins og margar aðrar
korntegundir, skiptist í tvo
flokka, vetrar- og vorafbrigði.
Vetrarhveiti er sáð síðsumars,
það spírar og ætti að mynda
nokkurn svörð, svo yfirvetrar
það, en skríður og myndar korn
árið eftir. Vorafbrigði skríða á
sáðárinu. Lifi vetrarhveitið af
íslenskan vetur mun það alla
jafna þroska korn, en vorhveitið
ekki nema í allra bestu árum.
Ræktun vetrarhveitis tekur því tvö
ræktunartímabil en hafi bændur
jarðnæði er það ekki þröskuldur.
Auk þess er það hentugt að plægja
upp tún eftir slátt um mitt sumar
þegar jarðvegurinn er sannarlega
tilbúinn og háannatími vorsins
liðinn.
Niðurstöður rannsókna hér á
landi sýna að vetrarhveiti getur
skilað mikilli uppskeru, og af
talsverðum gæðum. En það á til
að verða hávaxið og leggjast flatt
við jörð þegar kemur að því að
þreskja. Að auki getur það misst
korn úr axi í haustlægðum.
Eigi ræktun vetrarhveitis að
vera möguleg á Íslandi, þurfa
bændum að standa til boða yrki
sem standa af sér haustveður, sem
og lifa af hin ýmsu vetrarskilyrði.
Að stytta strá korntegunda
í alþjóðlegu kynbótastarfi
var liður í að auka nýtingu
næringarefna, þ.e. að plantan
verji uppteknum áburðararefnum
og ljóstillífunarafurðum sínum
í kornið en ekki í stráið. Það
er einnig ljóst að á Íslandi er
styttra og sterkara strá ekki
síður mikilvægt til að tryggja að
uppskera hverfi ekki í jörðu fyrir
þreskingu að hausti, og á því sviði
má gera enn betur.
Alþjóðlegar kynbætur á yrkjum
vetrarhveitis hafa víða tekið mið af
frostþoli sem lykilþátt í vetrarlifun
yrkjanna. Erfðamengisrannsóknir
hafa greint frá genum sem tengjast
frostþoli sem hefur sýnt sterka
fylgni við þurrkþol hveitis, og
hefur verið talið stjórnað af sömu
erfðavísum. Enda hvoru tveggja
aðstæður sem hafa veruleg áhrif á
vatnsbúskap plantna. Svellkal, sem
er einn stærsti vetrarskaðvaldurinn
hér á landi, virðist hins vegar hafa
setið á hakanum þegar kemur
að alþjóðlegum rannsóknum á
vetrarlifun vetrarhveitis, enda
verður svellkal til við afar
sértækar ræktunaraðstæður; þar
sem skiptast ört á frost og þíða,
líkt og þekkist á norðlægum
strandsvæðum. Þol gagnvart
svellkali hefur ekki reiknast með
fylgni við aðra vetrarþolsþætti í
nytjajurtum, enda raskar svellkalið
mun fremur loftskiptum plantna
heldur en vatnsbúskap. Leiðir það
svo til, að þol gagnvart svellkali
ætti að gefa sérstakan gaum við
yrkjakynbætur vetrarhveitis, en
slík áhersla gæti gefið íslensku
rannsóknarstarfi á sviðum
plöntukynbóta þónokkra sérstöðu.
Umhleypingasamir vetur geta
einnig farið illa með vetrarlifun
hveitisins. Það getur farið af
stað of snemma í hlýjum köflum
síðvetrar. Frostlyfting getur einnig
grandað plöntum ef þær rótaslitna.
Þegar kemur að kornþroska,
standa Íslendingar jafnan frammi
fyrir óhefðbundnum aðstæðum
ef litið er til nágrannaþjóða.
Vegna haustveðra og svalara
vaxtartímabils, vilja íslenskir
bændur sjá fljótþroska yrki, sem
tilbúin eru til þreskingar sem
fyrst, en víða erlendis er tímabilið
sem plantan fyllir kornið hlýrra,
og því ekki sérstök áhersla á að
stytta kornfyllingartímabilið, en
rannsóknir hafa sýnt fram á að
lengra kornfyllingartímabil geti
skilað sér í auknu próteininnihaldi
hveitis, upp að vissu marki. Það
eru því ærin verkefni hérlendis
til að kynbæta yrki sem ná fljótt
þroska, án þess að það komi niður
á gæðum afurðarinnar. Það er ekki
eftir neinu að bíða en að hefjast
strax handa.
Anna Guðrún Þórðardóttir,
mastersnemi í kynbótum &
Hrannar Smári Hilmarsson,
tilraunastjóri í jarðrækt
Hveitirækt og kynbætur
Myndirnar sýna hveiti á Hvanneyri haustið 2021, vorhveiti enn þá grænt
og farið er að snjóa.
LESENDARÝNI
Penstemon hartwegii er dæmi um
þær grímur sem heppilegar eru sem
sumarblóm. Lögun blómanna svipar
um margt til ættingjanna innan
ættkvíslar fingurbjargarblóma.
Grímulaus í sumar?
Kristján Friðbertsson.
Í Grasagarði Reykjavíkur eru sérstakir bekkir til að tylla sér og fylgjast með
grímublómunum. Fyrir vikið flokka ég þau með íslensku sviðslistafólki.
Lögun grímublóma er oft mjög
skemmtileg. Hér sjáum við blóm
af Penstemon lyallii í Grasagarði
Reykjavíkur.
Lely Center Ísland
Reykjavík: Krókháls 5f – Sími 414 0000 – www.LCI.is
Akureyri: Óðinsnes 2 – Sími 464 8600
SÍUR Í
DRÁTTARVÉLAR
Vetrarhveitið þroskað og upp-
skorið tímanlega.