Bændablaðið - 09.06.2022, Blaðsíða 50
50 Bændablaðið | Fimmtudagur 9. júní 2022
Ársfundur Lífeyrissjóðs bænda 2022:
Raunávöxtun 9,4% 2021
Stjórn og framkvæmdastjóri LSB. F.v.: Erna Bjarnadóttir, Guðrún Lárusdóttir
varaformaður, Ólafur K. Ólafs framkvæmdastjóri, Guðbjörg Jónsdóttir og
Skúli Bjarnason formaður. Mynd / Halldóra Ólafs
Grafalvarleg staða
kjötframleiðslu
Margt fellur með íslenskri
kjötframleiðslu, landgæði, vatn,
skilningur neytenda á hreinleika og
heilnæmi vörunnar og metnaður
þeirra sem framleiðsluna stunda.
Það eru hins vegar í núverandi
umhverfi verulega ógnanir
við þennan grunnatvinnuveg
þjóðarinnar, landbúnað. Þessar
ógnanir eru ekki bara ógn við
landbúnaðinn sem atvinnugrein
heldur ógn við fæðuöryggi
þjóðarinnar og sjálfbærni.
Hækkanir á aðföngum hafa verið
fordæmalausar á sama tíma og
vaxtastig er í íþyngjandi hæðum. Nú
er svo komið að róttækar breytingar
verða að eiga sér stað svo bændur
geti haldið áfram sinni starfsemi.
Fram hefur komið opinberlega,
m.a. í skýrslum Ráðgjafarmiðstöðvar
landbúnaðarins (RML), að
framleiðslukostnaður hefur verið
umfram tekjur af framleiðslunni
að teknu tilliti til stuðnings í
gegnum búvörusamninga. Varðandi
nautakjöt kemur fram í skýrslu frá
því í júní 2021 að meðal EBITDA
framleiðenda dugði ekki fyrir meðal
afskriftum og fjármagnsliðum árið
2019 og staðan nú er enn alvarlegri
þar sem afurðaverðshækkanir hafa
ekki fylgt aðfangahækkunum.
Sauðfjárræktin hefur átt við
mikla erfiðleika að etja undanfarin
ár og útreikningar bæði RML og
Bændasamtaka Íslands, sem meðal
annars hafa verið kynntir á opnum
fundum og skýrslum (RML 2021),
leiða fram að afkoman var ósjálfbær
fyrir þær kostnaðarverðshækkanir
sem nú ríða yfir. Sama gildir um
svínakjötsframleiðslu og alifugla þar
sem fóðurkostnaður er langstærsti
kostnaðarliðurinn, þar hefur hallað
mjög á ógæfuhliðina samhliða
aðfangahækkunum undanfarin
misseri.
Staða kjötgreinanna er alvarleg
og auka verður tekjur bænda ef
forsvaranlegt á að vera að halda
framleiðslu áfram og tryggja
þannig fæðuöryggi, byggðafestu
og lágmarksafkomu framleiðenda.
Þær hækkanir sem nauðsynlegar eru
til að mæta brýnni þörf eru taldar í
tugum prósenta í öllum kjötgreinum.
Afkoma afurðastöðva hefur verið
með þeim hætti undanfarin ár, eins
og sést meðal annars í skýrslum
sem unnar hafa verið fyrir ráðuneyti
landbúnaðarmála, sú nýjasta unnin
af Deloitte og gefin út 6. apríl 2021,
að þar er af litlu að taka. Það blasir
því við að eigi bændur að geta haldið
framleiðslu áfram mun það skila sér
að óbreyttu í verulegum hækkunum
á kjötafurðum til neytenda.
Á undanförnum árum,
þegar eitthvað hefur bjátað á í
landbúnaði, t.d. hrun á erlendum
mörkuðum fyrir bæði kjöt og
aukaafurðir, heimsfaraldur,
áburðarverðshækkanir og fleira,
hefur ríkið komið að málum með
einskiptis aðgerðum til handa
bændum. Það er góðra gjalda vert
en það er áríðandi að búa þannig
um hnúta til framtíðar að greininni
sé gert kleift að starfa og keppa við
eðlilegar og sanngjarnar aðstæður.
Samkvæmt fyrrnefndri skýrslu
unninni af Deloitte kemur
fram að skýrsluhöfundar meta
rekstrarhagræði af því að ráðast í
aukna hagræðingu í slátrun á sauðfé
og stórgripum vera á bilinu 0,9-1,5
milljarða króna og auk þess myndi
fjárbinding greinarinnar lækka um
0,9-1,8 milljarða króna og draga úr
fjárfestingarþörf til framtíðar. Þetta
tækifæri blasir við.
Með auknum heimildum til
hagræðingar væri unnt að hækka
verð verulega til bænda án þess að
það hefði sambærileg áhrif á verð til
neytenda með tilheyrandi áhrifum
á framfærslukostnað og vísitölu
neysluverðs.
Til að þetta megi verða þarf
lagabreytingu en stjórnvöld og
starfshópar á þeirra vegum hljóta
að horfa til þessa atriðis við vinnu
sína á næstu vikum.
Ágúst Torfi Hauksson,
forstjóri Kjarnafæði
Norðlenska
LESENDARÝNI
Ágúst Torfi Hauksson.
Á ársfundi Lífeyrissjóðs bænda
3. júní 2022 var lögð fram árs
skýrsla sjóðsins fyrir liðið ár og
ársreikningur sjóðsins kynntur.
Fram kom í skýrslu stjórnar að
heimsfaraldurinn Covid-19 hefur
um tveggja ára skeið haft veruleg
samfélags- og efnahagsleg áhrif
á heimsvísu.
Áhrif heimsfaraldursins á rekstur,
efnahag og sjóðstreymi Lífeyrissjóðs
bænda á árinu 2021 reyndust hins
vegar óveruleg. Þrátt fyrir neikvæð
áhrif á efnahags- og markaðsaðstæður,
hefur ávöxtun Lífeyrissjóðs bænda
undanfarin tvö ár verið ein sú hæsta í
sögu sjóðsins.
Stöðugur vöxtur á hreinni eign
til greiðslu lífeyris
Hrein eign til greiðslu lífeyris nam 45,1
milljarði króna í árslok 2021, hækkaði
um 4,7 milljarða króna frá fyrra ári eða
um 11,7%. Hreinar fjárfestingartekjur
námu sex milljörðum króna á móti
4,2 milljörðum króna árið áður.
Rekstrarkostnaður lífeyrissjóðsins
nam 139 m.kr. og er það nær óbreyttur
kostnaður frá fyrra ári.
Hrein nafnávöxtun, þ.e. ávöxtun
þegar rekstrarkostnaður hefur verið
dreginn frá hreinum fjárfestingar-
tekjum, var 14,7% sem samsvarar
9,4% raunávöxtun. Sambærilegar
tölur fyrra árs voru 11,2% og 8,3%.
Hrein árleg raunávöxtun síðustu fimm
ára var 8,0% og síðustu 10 ára 5,9%
Lífeyrisgreiðslur námu
1.925 milljónum króna
Á árinu 2021 voru virkir sjóðfélagar
1.989, þ.e. þeir sem að jafnaði greiða
iðgjöld með reglubundnum hætti
í hverjum mánuði. Samanlagðar
iðgjaldagreiðslur námu 790 m.kr. á
móti 837 m.kr. árið 2020, lækkuðu um
5,6%. Fjöldi þeirra sem eiga réttindi
í sjóðnum var 10.829 í lok árs 2021
á móti 10.945 árið áður.
Á árinu fengu 4.494 lífeyrisþegar
greiddan lífeyri. Meðaltal fjölda
lífeyrisþega, sem fékk greiddan lífeyri
á árinu, var 4.039 á móti 4.005 árið
áður. Heildarlífeyrisgreiðslur námu
1.925 m.kr. á árinu 2021 á móti 1.804
m.kr. árið áður, sem er 6,7% hækkun
frá fyrra ári.
Auknar skuldbindingar
með nýju reiknilíkani
Fjármála- og efnahagsráðuneytið
tilkynnti í desember 2021 að
lífeyrissjóðum bæri að taka mið
af nýju reiknilíkani FÍT (Félags
íslenskra tryggingastærðfræðinga)
um lækkun aldursbundinnar
dánartíðni þegar horft er til fram-
tíðar, annaðhvort við uppgjör í lok
árs 2021 eða 2022.
Stjórn Lífeyrissjóðs bænda
ákvað að taka strax upp nýja
reiknilíkanið miðað við uppgjör
tryggingafræðilegrar stöðu í lok árs
2021.
Við mat á lífeyrisskuldbindingum
verður því horft til væntrar þróunar
lífaldurs í framtíðinni í stað þess
að miða við reynslu liðinna ára.
Umtalsverð hækkun verður á mati
skuldbindinga hjá lífeyrissjóðum
við notkun á nýju reiknilíkani fyrir
lífslíkur þar sem gert er ráð fyrir
lengri lífaldri frá því sem verið hefði
með fyrri forsendum.
Tryggingafræðileg staða batnar
Metin hækkun áfallinna skuld-
bindinga hjá lífeyrissjóðum við
upptöku nýs reiknilíkans er áætluð
allt að 10% þar sem gert er ráð fyrir
hærri lífaldri til framtíðar.
Mjög góð ávöxtun Lífeyrissjóðs
bænda á árinu 2021 veldur því að
þrátt fyrir forsendubreytingarnar
með nýjum reiknigrunni, batnar
tryggingafræðileg staða sjóðsins
lítillega frá fyrra ári.
Heildarskuldbinding sjóðsins
reiknast 3,2% umfram eignir og
áfallin staða er jákvæð um 0,8%
af skuldbindingum. Að óbreyttum
forsendum hefði heildarstaða
Lífeyrissjóðs bænda verið metin
jákvæð um 3,4% af skuldbindingum
og áfallin staða jákvæð um 7%.
Á ársfundinum voru kynntar
mótvægisaðgerðir vegna nýja
reiknilíkansins. Áunninn réttur
verður óbreyttur.
Frjáls aðild að
Lífeyrissjóði bænda
Lífeyrissjóður bænda er starfs-
greinasjóður bænda.
Með niðurfellingu sérlaga um
Lífeyrissjóð bænda 2018, geta allir
launþegar gerst sjóðfélagar í sjóðnum
og því er öllum launagreiðendum
heimilt að greiða lífeyrisiðgjöld fyrir
starfsmenn sína til sjóðsins.
Ólafur K. Ólafs.,
framkvæmdastjóri
Lífeyrissjóðs bænda
Lely Center Ísland
Reykjavík: Krókhálsi 5f – Sími 414 0000
Akureyri: Óðinsnesi 2 – Sími 464 8600
Hestagerði
Fjórar slár
Staðlað efni
Allt galvaniserað
Sérhannað fyrir hesta
lci.is
Samstaðan aldrei mikilvægari –
Stendur þú með þér, kæri bóndi?
Nú hafa verið sendir út
greiðsluseðlar til félagsmanna
Bændasamtaka Íslands fyrir
félagsgjöldum ársins 2022.
Greiðsluseðlarnir ættu að vera
komnir í heimabanka félags-
manna. Greiðsla þessara seðla
er lykilforsenda fyrir því að
Bændasamtökin geti haldið úti starfi
sínu.
Og til hvers, spyrja sumir,
hvað gera Bændasamtök Íslands
í raun og sann? Svarið er einfalt;
Bændasamtökin sinna öflugri
hagsmunagæslu fyrir bændur og
hefur sú hagsmunagæsla sjaldan ef
nokkurn tíma verið eins mikilvæg!
Þeir fordæmalausu tímar þar
sem sjálfbærni um fæðuöryggi
þjóðar hefur aldrei skipt jafn miklu
máli og nú, sýna enn og aftur fram
á mikilvægi og nauðsyn þess að
Bændasamtökin geti sinnt starfi
sínu.
Varið hag bænda og kjör, leitt
gerð búvörusamninga, talað fyrir
auknum stuðningi, gætt þess að
reglugerðir og aðrar lagasetningar
íþyngi ekki bændum, gætt hagsmuna
bænda í óteljandi fjölda nefnda og
ráða, kynnt og talað fyrir gæðum
landbúnaðar innanlands og erlendis
og gefið út eitt mest lesna dagblað
landsins, sem dreift er frítt um
land allt, hvar þú ert einmitt
að lesa þessa grein. En styrkur
samtakanna endurspeglast í getu
Bændasamtakanna til að halda úti
starfsemi sinni.
Aðild að Bændasamtökunum og
greiðsla félagsgjaldanna er þannig
beinn stuðningur við hagsmuni
félagsmanna. Stendur þú ekki
örugglega með þér sjálfum, kæri
bóndi?
Athygli er vakin á því að ekki
leggst innheimtukostnaður á kröfuna.
Þeir sem vilja skipta greiðslunni geta
gert það í heimabanka eða í gegnum
þjónustufulltrúa í bankanum.
Guðrún Birna Brynjarsdóttir,
sérfræðingur hjá
Bændasamtökum Íslands
Guðrún Birna Brynjarsdóttir.
Smáauglýsingar 56-30-300