Faxi

Árgangur

Faxi - 01.12.2021, Blaðsíða 3

Faxi - 01.12.2021, Blaðsíða 3
FAXI 3 Fram og aftur – aðallega aftur – og Faxi 80 ára (+1) Þá og þar... Árið 1991 vorum við félagar tvítugir – eða þar um bil. Þrjátíu árum fyrr – árið 1961 – varð John F. Kennedy forseti Bandaríkjanna og bæði Víetnamstríðið og kapphlaupið til tunglsins voru um það bil að hefjast. Byrjað var að byggja Berlínarmúrinn og Breakfast at Tiffanies og Catch-22 komu út. Hipparnir voru ekki til, pönkið var ekki til, glysrokkið var ekki til, nýrómantíkin var ekki til, nu-metal var ekki til, death metal var ekki til o.s.frv. Já, og Barbie eignaðist kærasta að nafni Ken. Núna, þrjátíu árum eftir að við vorum tvítugir hefur eitt og annað gerst. Ýmsir for- setar og aðrir stjórnmálamenn hafa komið og farið, dot com bólan, hrunið, stjórn- arskrármálið, Klausturmálið, Besti flokk- urinn, #MeToo byltingin, COVID o.s.frv. Í pop kúltúr höfum við fengið gruggið, The Matrix, Lion King, Harry Potter, Justin Timberlake, Justin Bieber, Justin Trudeau o.s.frv. Þrjátíu ár eru langur tími – en samt svo stuttur. Tíminn er svo afstæður eins og maður skilur svo áþreifanlega eftir því sem maður eldist. Fyrir þrjátíu árum vorum við að ljúka menntaskólanámi við Fjölbrautaskóla Suðurnesja og sátum saman í íslensku- tíma hjá Þorvaldi Sigurðssyni, kennara og brúarsmið. Einhverju sinni kom Þorvald- ur að máli við Pétur Gauta og bað hann um að skrifa grein í Faxa sem átti að bera yfirskriftina „Faxi og unga kynslóðin.“ Tímaritið var að halda upp á 50 ára afmæli og vildi fá upplifun og álit unga fólksins á Faxa. Sigurður hafði þá nýlokið við að halda fyrirlestur í tíma um Ástu Sigurðardóttur skáld, en þar sem heimildir voru nánast engar til hafði Sigurður að mestu skáldað fyrirlesturinn. Pétri fannst því upplagt að fá Sigurð til liðs við sig við greinarskrifin og varð það úr. Þótti okkur nokkur heiður af því að vera treyst fyrir verkinu. Greinin bar þess merki að þar voru menntaskólapiltar að verki en var ætlað að vera gamansöm lofgjörð um Faxa – og um leið vorum við að gera grín að Faxa, á góðlátlegan máta. Erfitt er að segja til um hversu vel við vorum áttaðir á þessu ætlun- arverki en við lestur greinarinnar þrjátíu árum seinna virðast undirtónarnir hljóma þar. Þótt erfitt sé að segja að greinin eða smá- sagan sem hún inniheldur rísi hátt í menn- ingarlegum skilningi skemmtu höfundar sér konunglega við verkið. Áhrif FS eru einnig skýr en aðalpersónur sögunnar taka nöfn sín greinilega frá starfsfólki skólans. Þannig eru vondu karlarnir Hjalli skósóli og Æsi vígtönn augljóslega nafnar þáverandi skólameistara og aðstoðarskólameistara Hjálmars Árnasonar og Ægis Sigurðssonar. Góði drengurinn, Þolli litli, fær nafn sitt frá áðurnefndum Þorvaldi íslenskukennara. Persónurnar í sögunni taka þó fátt annað frá nöfnum sínum en nöfnin. Allt voru þetta - og eru - mætir menn og ljóst má vera að nöfn þeirra eru notuð í sögunni þeim til heiðurs. Þetta var virðingarvottur þó reynt hafi verið að klæða söguna og persónur hennar í ýktan og gamansaman búning. Persónusköpun sögunnar er samt sem áður veikasti þáttur hennar þar sem vondu strákarnir eru almennt vondir og góði drengurinn almennt góður og fátt sem greinir þá frá öðrum vondum og góðum strákum. Þetta eru því kunnuglegar ster- íótýpur en margt er enn á huldu um þeirra bakgrunn og hver leið þeirra í gegnum lífið var eftir þessa örlagastund í íshúsinu. Við treystum því að við verðum beðnir um að skrifa grein um það allt í 110 ára afmælisrit Faxa eftir önnur 30 ár. Í tilefni þessara skrifa höfum við aðeins verið að velta örlögum þessara þremenn- inga fyrir okkur. Er Þolli orðinn ritstjóri Faxa eða las hann einfaldlega yfir sig og er geymdur á byggðasafni? Hafði þetta kvöld djúpstæð áhrif á hann? Er hann skemmdur á líkama og sál? Hvað með kvalara hans? Hvernig ná þeir að takast á við áskoranir lífsins? Sleppa þeir óskaddaðir í gegnum táningsárin og síkvikar gleðinnar dyr? Náðu þeir að beisla þessa orku og beina í farveg sem er samfélaginu þóknanlegur? Eru þeir orðnir stórbúkkar í verslun og viðskiptum og kaupa heilsíðuauglýsingu í hverju tölu- blaði af Faxa? Eða skjálfa þeir í húsasundum í gömlum kraftgöllum og hugsa um næsta fix? Svörin við þessum spurningum – sem án efa brenna á lesendum – munu vonandi fást á 110 ára afmælinu. Dvölin í FS er ákaflega ljúf í minn- ingunni. Vissulega að einhverju leyti ljúfsár en þannig er víst lífið. Sumir halda því fram að fólk sé ekki orðið fullorðið fyrr en um 28 ára aldur. Það er áhugaverð pæling og hefði kannski verið betra að maður hefði áttað sig á því á þessum árum. Á þessum tíma var Reykjanesbær ekki enn til, en mikið líf í gangi í kringum FS enda komu krakkar þangað af öllum Suðurnesjum (og víðar). Við vorum með eigin stjórnmála- flokk - Öfgasinnaða jafnaðarmenn - mikið tónlistarlíf, Vox Arena á góðu flugi, öflugt ræðulið o.s.frv. – og svo auðvitað endalaust skemmtanalíf. Hvað sem því öllu líður er ljóst að menntaskólaárin voru tími mikilla og stórra uppgötvana. Uppgötvana sem vörðuðu leið okkar út í lífið. Við búum að þeim og yljum okkur við minningar æskuáranna eftir því sem árin fjúka hjá eitt af öðru - án allrar tillitsemi við okkur sem sjáum nú lengra aftur en fram. Sigurður Eyberg Jóhannesson og Pétur Gauti Valgeirsson

x

Faxi

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Faxi
https://timarit.is/publication/678

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.