Sjómannablaðið Víkingur - 01.02.2012, Page 26
26 – Sjómannablaðið Víkingur
Tímabilið frá 1914 og fram til loka
síðari heimsstyrjaldar árið 1945 var
tímamótaskeið í sögu íslenskrar kaup-
skipaútgerðar. Farskipin, sem Íslending-
ar gerðu út á 19. öld og fyrsta áratug
20. aldar og sagt var frá í fyrri grein,
voru öll í eigu einstakra verslana eða
einstaklinga og önnuðust siglingar á
þeirra vegum. Á tímabilinu, sem hér er
um fjallað, komu á hinn bóginn fram á
sjónarsviðið eiginleg útgerðarfélög, sem
höfðu það hlutverk eitt að eiga og gera
út kaupskip er sigldu á milli Íslands og
annarra landa og héldu uppi strandferð-
um hér við land. Eimskipafélag Íslands
var elst og stærst þessara fyrirtækja en
þrátt fyrir að það yxi hratt á 3. áratugn-
um, tókst því ekki að anna sívaxandi
eftirspurn eftir siglingum og flutning-
um. Af þeim sökum voru stofnuð
fleiri skipafélög hér á landi á árunum
milli stríða, auk þess sem fyrirtæki í
eigu ríkisins annaðist strandsiglingar og
samvinnuhreyfingin hóf kaupskipaút-
gerð. Á þessu skeiði
komu Íslendingar sér
upp myndarlegum
kaupskipaflota, sem í
æ ríkari mæli annað-
ist vöru- og farþega-
flutninga til og frá
landinu. Hér á eftir
verður saga kaup-
skipaútgerðarinnar á
tímabilinu 1914-1945
rakin í stórum drátt-
um og víkur sögunni
fyrst að stofnun og
starfsemi Eimskipa-
félags Íslands á þessu
skeiði.
Stofnun
Eimskipafélags
Íslands
Laugardagurinn 17. janúar 1914 má með
sanni kallast merkisdagur í íslenskri
samgöngu- og siglingasögu. Þann dag
hófst í Reykjavík stofnfundur Eimskipa-
félags Íslands og var fram haldið fimm
dögum síðar, 22. janúar. Á fundinum var
Eimskipafélagið formlega stofnað og 17.
janúar hefur jafnan verið talinn stofn-
dagur þess. Undirbúningur að félags-
stofnuninni hafði hins vegar staðið frá
1912, og sýnir það ef til vill best, að vel
var vandað til verka.
Stofnun Eimskipafélagsins var tví-
mælalaust eitt mesta fyrirtæki, sem Ís-
lendingar höfðu ráðist í, og mátti hafa
það til vitnis um vaxandi framtak og
sjálfstraust þjóðarinnar. Hlutafé var safn-
að um allt land og meðal Íslendinga í
Vesturheimi og söfnuðust nærfellt fimm
hundruð þúsund krónur, sem var geipifé
á Íslandi í þann tíð. Fólk í öllum lands-
hlutum og af öllum stéttum sýndi stofn-
un félagsins áhuga og skráði sig fyrir
hlutafé. Í blöðum var félagið nefnt
„Óskabarn þjóðarinnar“ og stofndagur-
inn var sannkallaður hátíðisdagur í
Reykjavík. Morgunblaðið lýsti stemmn-
ingunni í bænum þannig daginn eftir:
Jón Þ. Þór
Þættir úr sögu
íslenskrar
kaupskipaútgerðar
II. Tímabilið 1914–1945
Iðnaðarmannahúsið í Reykjavík er til hægri á uppfyllingu í Tjörninni. Fyrir
ofan það er Menntaskólinn í Reykjavík en til vinstri eru Góðtemplarahúsið
(Gúttó), dómkirkjan og Alþingi. Stofnfundur Eimskipafélagsins var haldinn í
Iðnaðarmannahúsinu en vegna þrengsla varð að flytja hann yfir í Fríkirkj-
una en þar gerðist líka þröngt um fundargesti.
Mynd: Frederick W.W. Howell/Cornell University Library.
Fjallfoss á Eyjafirði 1947. Eigandi: Árni E. Valdimarsson