Norræn jól : ársrit Norræna félagsins - 01.12.1941, Blaðsíða 7
HIÐ sameiginlega ársrit Norrænu félaganna, Nordens Kalender, hefur nú í
tvö undanfarin ár ekki getað komið út sökum ófriðarins og allra þeirra
hindrana, sem af hcnum leiða í samskiptum þjóðanna og öllum eru kunnar.
Til þess að bæta nokkuð úr, ákvað stjórn Norræna félagsins í fyrra að kaupa
bókina „Svíþjóð á vorum dögum“, eftir Cuðl. Rósinkranz, handa félagsmönnum
það árið, en í ár hefur hún ákveðið að gefa út rit það er hér kemur fyrir almenn-
ingssjónir í fyrsta sinn, og kallast „NORRÆN JÓL“. Tilætlunin er að rit þetta haldi
siðan áfram að koma út í framtíðinni þótt Nordens Kalender komi aftur sem
sameiginlegt félagsrit, þegar í eðlilegt horf er komið í heiminum. — Ritstjórn
hefur ritara félagsins, Cuðlaugi Rósinkranz, verið falin.
Vér væntum þess, að rit þetta megi verði lesendunum til gleði, bera þeim
hlýjar kveðjur bræðraþjóðanna og minna þá jafnframt á, að vér erum hluti hinnar
ncrrænu lífsheildar, sem tengd er aldagömlum skyldleika- og menningarböndum,
böndum, sem vér getum ei rofið án þess að bíða af því varanlega hnekki eða algert
skipbrot sem norræn menningarþjóð. „Norrænum jólum“ er ætlað að verða einn
þátturinn í vináttu- og menningartengslum vorum við bræðraþjóðirnar á Norður-
löndum. í þeirri von að hlutverk þetta megi vel takast hefja „Norræn jól“
göngu sína.