Norræn jól : ársrit Norræna félagsins - 01.12.1941, Blaðsíða 72
FÁLÁT og köld rís foldin mót nýjum degi
og framandi á þessum hnefti dagurinn vaknar.
Hann horfir á jörðina kvíðinn, eins og hann eigi
þar einskis framar að vænta af því, er hann saknar.
Því höfin seilast óraveg eftir þeim skeljum,
sem áður voru leikföng glaðværra barna,
og austan um heiðar fer haustið grátt fyrir jeljum,
og himininn sortnar að baki fjarlægra stjarna.
Og stálgráir drekar af stálgráu hafi snúa.
— Það er stormur í lofti og framandi véladynur.
Og óttaslegnir himinsins fuglar fljúga,
en fölt til moldar laufskrúð garðanna hrynur.
Og jörðin sjálf er gripin geigvænum ótta,
sem gangi henni örlög lífsins til hjarta.
Hún flýgur áfram á einmanalegum flótta,
án athvarfs og hvildar, sinn veg út í nóttina svarta.
Svo týnist í fyrnsku, sem helgisögn, horfin í móðu,
sá heimur, sem eitt sinn var leikvöllur sólskins og blóma.
Þó lögðum við þaðan upp, og álengdar stóðu
ungir, prúðbúnir dagar í heillandi Ijóma.
En smátt varð allt, er við fengum úr býtum borið
á borð við mikilleik þess, er sál okkar dreymdi,
er lögðum við ungir leið okkar út í vorið,
og lífið tærast og ferskast um hjörtun streymdi.
Og hugurinn spyr: Hvort vorum það við, sem brugðumst
þeim vængjuðu draumum, sem aldrei flugu til baka?
Svo fátt er eftir til vitnis um verk, er við hugðumst
að vinna, Guði til dýrðar. En hvern er að saka?
Vor bernska tók við heimi, sem var að hrynja,
og hennar framtið skein í blóði og tárum.
Og bráðum eignast önnur kynslóð til minja
um æsku sína, veröld flakandi’ í sárum.