Norræn jól : ársrit Norræna félagsins - 01.12.1952, Side 52
Norrœn jól
höfundar og skáld þessara þjóða standa okkur nær en höfundar annarra þjóða.
Úr engum bókum fundum við meiri ilm á æskuárum en bændasögum Björnsons.
Við kunnum meira af kvæðum eftir Bellmann en nokkurt af okkar eigin 18.
aldar skáldum, við kyrjum Glunta, eins og Wennerberg hefði verið einn af okkur.
I bílasöngnum blandast Enginn grætur . . . og Det var en lördag aften . . .
Kennslubækur miðskóla og menntaskóla eru flestar hverjar stældar eða þýddar
úr skandínavísku málunum, ef þær eru ekki beinlínis lesnar á þessum málum.
Þegar sannir íslendingar koma upp skemmtigarði í höfuðborg sinni, skírðu þeir
hann auðvitað Tívólí.
Og saga okkar er samtvinnuð sögu þessara þjóða, samtvinnaðri en svo, að
sundur verði rakið. Við vorum heimagangar í Noregi í margar aldir. íslenzkir
biskupar hafa kropið á kné í dómkirkju Lundar. Þótt Kongens Köbenhavn sé
vissulega dönsk borg, er hún einnig íslenzka borgin Höfn. Ekki eingöngu vegna
þess, að þar hafa einhver stórhýsi verið byggð fyrir íslenzkt fé og götur verið lýstar
með íslenzkum grút, heldur vegna þess fyrst og fremst, að hún var öldum saman
okkar höfuðstaður og háskólaborg. Það væri hægt að teikna kort af þeirri íslenzku
borg Höfn, þar sem nær hver gata, hvert torg og fjöldi húsa ber íslenzk nöfn.
Regensen þeirra er Garður okkar, helgaður af minningum um miklu fleiri merka
Islendinga, en nokkur bygging í okkar eigin landi. Linditréð stóra í Garðsgarði
man Eggert, Jónas og Jón Sigurðsson. Vafamál, hvort okkar höfuðstaður verður
nokkurn tíma íslenzkari en sú íslenzka Höfn.
Við eigum heima í hópi Norðurlandaþjóða. Það finnum við hvert sinn, er
við heimsækjum einhverja þessara þjóða. Satt er að vísu, að móðurmál okkar skilja
fáir frænda vorra nema Færeyingar, og þeir raunar ekki nema við lestur þess,
en á hinn bóginn er það staðreynd, að íslendingur, sem hefur lært sæmilega eitt
skandínavísku málanna, á mun hægara með að skilja aðra Norðurlandabúa en
þeir Skandínavar, sem aðeins kunna sitt móðurmál. íslendingur, sem lært hefur
dönsku sæmilega, á hægar með að skilja og tala sænsku en Dani, og dönskuna
talar hann þannig, að Svíar og Norðmenn skilja hann betur en Dana. Norska
landsmálið skilur hann miklu betur en Danir en Svíar, jafnvel betur en sumir
Norðmenn. Einnig á hann auðveldara með að skilja ýmsar mállýzkur en þeir
Skandínavar, sem tala ríkismál sitt eingöngu. Finnsku og lappnesku skilur hann
að vísu ekki neitt, en íslenzkan auðveldar honum mjög framburð þessara mála.
Þeir vita, sem reynt hafa, að Islendingur getur fyrirstöðulaust lesið upphátt úr
50