Fréttablaðið - 16.11.2022, Qupperneq 18
Útgefandi: Torg ehf. Veffang: frettabladid.isÁbyrgðarmaður: Jón Þórisson Sölumaður auglýsinga: Ruth Bergsdóttir, ruth@frettabladid.is, s. 694 4103.
elin@frettabladid.is
Guðrún segir að Árnastofnun sé
nú að undirbúa flutninga í nýtt
Hús íslenskunnar og það séu algjör
forréttindi að fá að leggja grunn
að starfi á nýjum stað, sameina
starfsemi stofnunarinnar sem er
nú á þremur stöðum, opna hand-
ritasýningu og efla miðlunarstarf.
„Við erum í raun að búa til nýja
stofnun, setja allt okkar starf í nýtt
samhengi, ekki aðeins hér innan-
lands, heldur verður húsið sýnileg
miðstöð íslenskunnar og íslenskra
fræða í alþjóðlegu samhengi. Og þá
opnast alveg ný tækifæri. Það eru
því mjög spennandi tímar fram
undan og við erum þakklát fyrir
þá framsýni sem felst í þessari nýju
byggingu,“ segir hún.
Guðrún bætir við að á þessum
degi íslenskrar tungu þyki henni
alltaf sérstaklega vænt um verð-
laun Jónasar Hallgrímssonar sem
veitt eru til þeirra sem hafa unnið
íslenskunni sérstakt gagn, en
einnig um viðurkenningar sem
hafa verið veittar til einstaklinga,
félagasamtaka og hópa í samfélag-
inu sem hafa vakið sérstaka eftir-
tekt. „Svo er þetta afmælisdagur
Jónasar Hallgrímssonar og það
þykir öllum vænt um að tengjast
nafni hans, ljóðum og minningu.
Það er gaman að nú í haust kom
einmitt út bók þar sem fjallað er
svo skemmtilega um orðsmíði
hans,“ segir hún.
Eftirvænting fyrir deginum
„Þessi dagur er einn af hátíðis-
dögum ársins á stofnuninni. Við
komum að því að skipuleggja
daginn með ráðuneytinu og það er
alltaf eftirvænting í kringum hann.
Í þetta skipti er eiginlega öll vikan
lögð undir, og hófst með málþingi
forsætisráðherra um íslenska
tungu á mánudaginn. Ég fagna
mjög stofnun ráðherranefndar um
íslenska tungu og vænti mikils af
henni. Stofnun Árna Magnússonar
í íslenskum fræðum mun gera allt
sem í hennar valdi stendur til að
styðja við hin brýnu verkefni sem
fram undan eru. Í gær fögnuðum
við líka 25 ára afmæli Íðorðabank-
ans, sem geymir orðasöfn meira en
60 orðanefnda sem starfa um allt
samfélagið. Sú nýsköpun er mjög í
anda Jónasar, þar sem nýsmíði og
hugkvæmni er þar höfð í hávegum.
Allan nóvember höfum við verið
með innslög á samfélagsmiðlum úr
orðasöfnunum. Það má fletta upp
í Íðorðabankanum með því að fara
inn á malid.is.“
Efla þarf kennslu í íslensku
Guðrún segist vera bjartsýn að
eðlisfari þegar hún er spurð hvort
íslensk tunga sé í hættu og hvort
hún hafi áhyggjur af málinu. „Ég
trúi á styrk íslenskunnar, en myndi
orða það svo að ég hef áhyggjur ef
ekki verður hægt að nota íslensku
alls staðar og við erum komin
á þann stað núna. Íslenskan er
þjóðtunga okkar og á að vera í
fyrsta sæti. Við finnum greinilega
fyrir auknum áhyggjum í sam-
félaginu yfir stöðu íslenskunnar og
nauðsyn þess að hún sé notuð alls
staðar, og að þau sem hingað flytja
til lengri eða skemmri dvalar fái
tækifæri til að öðlast færni í mál-
inu. Það er algjört lykilatriði að við
eflum kennslu í íslensku sem öðru
máli, og það verður ekki aðeins
gert með því að auðvelda aðgengi
að kennslu í íslensku og setja meira
fé í þann málaflokk, sem er algjör-
lega nauðsynlegt, heldur verðum
við öll sem tölum málið að styðja
þau sem eru að læra íslenskuna,
tala við þau og hvetja áfram – og
muna að við sjálf tölum ekki aðrar
tungur fullkomlega eða hreim-
laust,“ svarar hún og bætir við:
„En að sama skapi þurfa
vinnuveitendur að gera erlendu
starfsfólki kleift að læra málið,
allavegana upp að því að marki
að læra einfaldar setningar ef
störfin krefjast samskipta. Nokkur
fyrirtæki eru að ganga á undan
með góðu fordæmi og tryggja
íslenskukennslu í vinnutíma. Við
stöndum líka frammi fyrir þeirri
staðreynd að enskan tekur sér æ
stærra rými í málheimi þeirra sem
yngri eru – og jafnvel fullorðinna
líka – sem mun jafnvel breyta
þeirri tungu sem við sem eldri eru
ólumst upp við. Hvað þýða þessar
breytingar? Við verðum líka að
hlusta á raddir unglinganna, hvað
vilja þau? Þau vilja nefnilega tala
íslensku. Það var mjög áhugavert
að heyra ákall unglinga í Haga-
skóla á málþingi forsætisráðherra
um að það vanti afþreyingarefni
og hreinlega aðgengi að íslenskum
bókum, ekki aðeins prentuðum
bókum, heldur rafbókum og
hljóðbókum á sem ódýrasta hátt,
jafnvel ókeypis. Ef við viljum að
þau lesi og þroski málkennd sína
þá blasir við að aðgengið að efni
á íslensku verður að vera ríkulegt
og gott, annars leita þau eðlilega
í efni á öðrum tungumálum. Þau
auka orðaforðann með því að lesa
bækur og einnig að leika sér með
tungumálið, og því ættum við líka
að búa til stórt pláss fyrir skapandi
skrif í skólum eins og bent var á á
þinginu.“
Miklar breytingar á næsta ári
Guðrún tók við stöðu sem for-
stöðumaður Árnastofnunar árið
2009. „Tíminn hefur sannarlega
flogið því að þetta er einstaklega
gefandi og skemmtilegt starf. Ári
áður en ég kom til starfa hafði
verið haldin samkeppni um nýtt
hús, og síðan kom hrunið. Sem
betur fer var ákveðið að halda
áfram með hönnun byggingar-
innar, en hún tafðist miklu lengur
en mig hefði grunað á þeim tíma-
punkti. En nú sjáum við fram á
flutning á næsta ári, sem mun ekki
aðeins gerbreyta starfi stofnunar-
innar og íslenskudeildar Háskóla
Íslands, sem mun einnig flytja í
húsið, heldur fáum við tækifæri til
að stórefla miðlun og almenningur
fær einnig miklu greiðari aðgang
að söfnunum,“ segir hún.
Þegar Guðrún er spurð hvort
eitthvað komi á óvart í starfi
hennar hjá svo rótgróinni stofnun,
svarar hún: „Kjarnastarf okkar
felst í rannsóknum og nýsköpun
þekkingar, og þá koma niður-
stöður alltaf á óvart. Það er alltaf
eitthvað nýtt að gerast. Það hefur
verið ótrúlega spennandi að
fylgjast með rannsóknarstarfi
stofnunarinnar og eflingu gagna-
grunna okkar sem tengjast ekki
síst íslensku máli sem við miðlum
nú í gáttinni málið.is. Við höfum
einnig stóreflt miðlun á handrita-
og þjóðfræðisafni. Viðfangsefnin
spanna vítt svið íslenskra fræða,
allt frá handritunum, sem eru
á varðveisluskrá UNESCO sem
leggur sérstakar skyldur á herðar
okkur Íslendingum að miðla þeim,
og bókmenntum okkar frá þeim
elstu til seinni alda, þjóðfræða,
nafnfræði og alls þess sem snertir
íslenska tungu.“
Hreifst af miðaldabókmenntum
„Orðabók Háskólans, sem var
ein þeirra fimm stofnana á sviði
íslenskra fræða sem sameinuðust í
nýrri stofnun árið 2006, var frum-
kvöðull hér á landi í máltækni,
og við höfum alla tíð lagt mikla
áherslu á þróun máltæknitóla.
Það var gríðarlega stór áfangi
þegar ráðist var loksins í undir-
búning máltækniáætlunar árið
2016, og hefur gríðarlegur árangur
náðst á síðustu árum í samstarfi
milli stofnana, háskóla og fyrir-
tækja.
Risamálheildin sem er ein af
grundvallartólum íslenskrar mál-
tækni og gervigreindar hefur til
dæmis vaxið með undraverðum
hraða og ný gerð var opnuð fyrir
nokkrum dögum sem geymir 2,4
milljarða lesorða og er miðlað í
opnum aðgangi eins og öðrum
máltækniafurðum á clarin.is, sem
er í umsjón Árnastofnunar. Og nú
bíðum við spennt eftir að taka til
hendinni í þeirri næstu.“
Varst þú alltaf ákveðin í að læra
íslensk fræði?
„Ég hafði mikinn áhuga á
íslensku og íslenskum bókmennt-
um í skóla og las alltaf mikið, en í
menntaskóla stefndi ég reyndar
á læknisfræði. En svo snerist ég á
síðasta ári í menntaskóla og ákvað
að fylgja hjartanu. Bókmenntir
snerta djúpan streng í sjálfri mér:
og þar vildi ég vera. Ég hélt að ég
myndi einbeita mér að nútíma-
bókmenntum, en svo hreifst ég æ
meir af miðaldabókmenntunum
og hef helgað mig kennslu og rann-
sóknum á þeim.
Ég reyni sjálf að fylgjast með
nýjum bókmenntum, íslenskum
og erlendum, eins og ég get, en ég
hef líka mikinn áhuga á menning-
ar- og sagnfræði og rannsóknum á
þeim miklu samfélagsbreytingum
sem við lifum. Ég skrifaði bókina
Skiptidaga fyrir nokkrum árum
þar sem ég reyndi að setja sögu
okkar og bókmenntir í samhengi
við samtímann, rekja þræðina sem
tengja okkur saman, og tengja líka
við þær áskoranir sem við lifum
í dag,“ greinir Guðrún frá en hún
hefur jafnframt mikla reynslu
af menningu og listum og hefur
komið víða við.
„Já, ég hef bæði starfað á sviði
menningarinnar, en umfram allt
á sviði vísinda. Ég var um níu ára
skeið formaður vísindanefndar
Vísinda- og tækniráðs og formaður
stjórnar Rannsóknasjóðs og ég
hafði unun af því að vinna að fram-
gangi rannsókna og nýsköpunar
og vinna að framtíðarstefnumótun
fyrir landið, og kynnast um leið
því þróttmikla starfi sem unnið
er hér á landi, en ekki síður þeim
tækifærum sem felast í alþjóðlegu
samstarfi.
Við megum alls ekki skera fjár-
festingu í rannsóknum né listum
við nögl, því að við fáum þær
fjárfestingar margfalt til baka eins
og dæmin sanna, ekki aðeins fjár-
hagslega heldur í öllu tilliti,“ segir
Guðrún og hlakkar til þegar Hús
íslenskunnar verður opnað. n
Undirbúningur flutnings í nýtt Hús íslenskunnar er hafinn og Guðrún hlakkar til. Hún segir að það séu forréttindi að
fá að leggja grunn að starfi á nýjum stað, sameina starfsemi stofnunarinnar sem er nú á þremur stöðum, opna hand-
ritasýningu og efla miðlunarstarf. FRÉTTABLAÐIÐ/EYÞÓR
Það er algjört
lykilatriði að við
eflum kennslu í íslensku
sem öðru máli, og það
verður ekki aðeins gert
með því að auðvelda
aðgengi að kennslu í
íslensku og setja meira fé
í þann málaflokk, sem er
algjörlega nauðsynlegt,
heldur verðum við öll
sem tölum málið að
styðja þau sem eru að
læra íslenskuna, tala við
þau og hvetja áfram.
2 kynningarblað 16. nóvember 2022 MIÐVIKUDAGURDAGUR ÍSLENSKR AR TUNGU