Borgfirðingabók - 01.12.2015, Blaðsíða 30
30
B O R G F I R Ð I N G A B Ó K 2015
til endanna svo saumaðar við netið með baðmullargarni. Netin voru
20 faðma löng og venjulega bundin saman fjögur í trossu um leið og
lagt var í vatnið. Á steinateininn voru svo kappmellaðir smásteinar sem
voru tíndir saman um nálæg holt. Á báðum endum trossunnar var dufl
úr tré og stjóri úr hellusteini. Alltaf var lagt undan vindi, en vitjað um
og tekið upp í vindinn. Þegar einn vitjaði um dró hann bátinn öfugan
upp í vindinn, en ef tveir voru var annar undir árum og snéri stafni upp
í vindinn. Ef einn lagði lét hann bátinn reka meðan hann fleygði út
netunum og í logni ýmist réri hann eða fleygði út netum.
Netin voru ekki mjög sterk og rifnuðu alltaf nokkuð. Við vorum
svo heppin á Húsafelli að Þorsteinn Jakobsson, frændi okkar og vinur,
kom alltaf seinni part vetrar og gerði við netin, hengdi þau upp á þil
og stoppaði í götin með netanál. Baðmullargarnsnetin veiddu best á
nóttunni en eftir að nælonnet fóru að koma fór að muna minnu á nóttu
og degi hvað þau veiddu.
Veiðarnar voru stundaðar vor og haust. Á vorin var farið þegar vötnin
voru komin af ís, venjulega snemma í júní. Reynt var að giska á hvenær
það var, snjórinn í fjöllunum gat verið vísbending, Fellaflóatjörn er í flóa
austan við Bæjarfell og er í 470 metra hæð yfir sjávarmáli, Sesseljuvík er
í 540 metra hæð og Úlfsvatn í 434 metra hæð svo að það var vísbending
um að vötnin væru komin af ís ef Fellaflóatjörnin var það. Erfitt var að
hemja hestana við vötnin áður en fór að koma gróður og það varð líka
að taka tillit til þess. Oftast var þó litið til þess hvort tíð væri góð og svo
farið í Herrans nafni einn góðan veðurdag. Haustferðin var venjulega
farin eftir slátt nálægt fyrstu heiðarleit í tuttugustu og fyrstu viku sumars.
Á vorin voru farnar 3 ferðir. Í fyrstu ferðinni voru 2 eða 3 hestar
undir reiðingi. Haldið var af stað snemma morguns og farinn lestagang-
ur. Ekki var hægt að láta hesta í lest brokka. Næsta vatn sem hugsanlegt
var að veiða í var Stóralón, þangað var 5 tíma lestagangur, í Úlfsvatn 6
tímar, í Reykjavatn 7 tímar og í Sesseljuvík 9 tímar. Þegar komið var að
vatni voru hestar heftir, tjaldað og matast og svo voru netin lögð og það
var nokkurra klukkutíma verk. Svo var sofið. Hestarnir voru órólegir,
sérstaklega á vorin og þurftu menn alltaf að hafa á sér andvara og standa
upp við og við til að gá að þeim. Ef til vill þurfti að sinna þeim tvisvar á
nóttu. Vitjað var um netin að morgni og kveldi og farið ofan þegar búið
var að veiða upp á hestana. Það hét að fara ofan þegar haldið var heim af
heiði. Silungurinn var slægður undir eins og komið var að landi og hann
byrgður í holu og breitt vel ofan á hann. Sjaldan var stráð í hann salti.