Borgfirðingabók - 01.12.2015, Blaðsíða 156
156
B O R G F I R Ð I N G A B Ó K 2015
og ákváðu þeir því að hætta siglingum í Staumfjörð. En þegar verslun á
Íslandi var svo gefin frjáls komu kaupskip aftur af og til í Straumfjörð
og svo fór að staðurinn varð löggiltur fyrir verslun árið 1863, eða fjórum
árum áður en verslunarstaður við Brákarpoll varð löggiltur og fékk síðan
nafnið Borgarnes. En menn hafa líklega séð að framtíð kaupstaðar hlyti
að byggjast á mun greiðari samgöngum en mögulegt var að gætu orðið
í Straumfirði. Á annan veg var torfarin sjávarleið og hinsvegar foráttu
mýrlendi á báða bóga þegar í land var komið. Verslunin fjaraði því út
og síðasti kaupmaður þar skömmu fyrir aldamótin 1900 var Ásgeir
Eyþórsson, faðir Ásgeirs sem síðar varð forseti Íslands. Hann verslaði fyrst
í Kóranesi handan við Straumfjarðarröstina en tók sig upp með börn og
bú og flytur sig yfir til Straumfjarðar og byggir þar upp verslunarhús að
nýju, en sú starfsemi stóð ekki lengi því hann hættir allri verslun þar
árið 1901. Árið eftir voru svo hús Ásgeirs tekin niður og flutt að Borg á
Mýrum og byggt prestssetur úr efniviðnum, sem svo 60 árum síðar varð
eldi að bráð þegar prestssetrið á Borg brann til kaldra kola árið 1962.
SAMGÖNGUR, HÚS OG KIRKJA ÞJÓNUÐU SJÓFARENDUM
Eins og alþekkt er þá er sjóleiðin utan við Mýrarnar og þar með talin
siglingaleiðin inn Straumfjörðinn ein hættulegasta sjóleið við strendur
Íslands. Íbúðarhúsið í Straumfirði var byggt á árunum 1900 – 1904 og
flutt í það árið 1906. Þá bjó í Straumfirði Guðjón Sigurðsson, ættaður
frá Miðhúsum í sömu sveit ásamt konu sinni, Þórdísi Jónasdóttur sem
fædd var og uppalin í Straumfirði. Húsið er geysistórt á þess tíma mæli-
kvarða, eða 503 m3 að stærð, kjallari og tvær hæðir, byggt úr timbri,
væntanlega að einhverju leyti úr rekaviði og líka úr innfluttu timbri,
en húsið var allt panilklætt að innan. Pabbi steypti síðan utan á húsið
árið 1947. Kirkjan á Álftanesi, sú sem nú stendur var byggð árið 1904.
Kirkjunni var valinn staður með tilliti til staðsetningar íbúðarhússins
í Straumfirði sem þá var enn í byggingu, með þeim hætti að þessi tvö
mannvirki voru notuð til leiðbeiningar um siglingu á Straumfjörð. Þegar
skip siglir meðfram Þormóðsskeri að norðanverðu skal það taka stefnu
beint á Álftaneskirkju þangað til húsið í Straumfirði ber í ákveðinn klett
neðarlega á eyjunni, þá má beygja og taka stefnu inn á fjörðinn. Mjög
merkilega að málum staðið, en þarna var á sama tíma verið að reisa tvö
miklu háreistari hús en áður höfðu verið byggð á þessum slóðum og
þá notuðu menn tækifærið og staðsettu húsin með þeim hætti að þau