Verktækni - 2019, Blaðsíða 25
25
Breytur og mælingar
Breyturnar sem notaðar eru í þessari rannsókn eru einkunnir á lokaprófi, einkunnir þeirra sem ná ekki
lágmarkseinkunn og niðurstöður árlegs námskeiðsmats sem nemendur tóku þátt í. Lokaprófið var þriggja
tíma skriflegt próf sem gildir 40% af lokaeinkunn og nemendur verða að ná prófinu til að standast
námskeiðið. Uppbygging lokaprófsins var eins í 16 ár þar sem lykilhugtök og aðferðir voru prófaðar með
sjálfstæðum viðfangsefnum sem hvert var um 20% af prófinu. Heimaverkefni annarinnar voru samansett
af eldri prófdæmum og lágmarkseinkunn til að ná námskeiðinu var 5.0. Samanburðurinn sem
framkvæmdur er í þessari rannsókn styðst einungis við einkunn á lokaprófi og er reiknað meðaltal fyrir
hvert ár. Í gegnum árin var aldrei átt við prófeinkunnir; þ.e., þær voru aldrei skalaðar né hliðrað til að
uppfylla ákv. „dreifnihugleiðingar“. Færni og þekking nemenda á teiknihugbúnaðinum sem notaður var í
námskeiðinu var ekki metin á lokaprófinu. Vikuleg heimaverkefni og lokaverkefni námskeiðsins voru
notuð til að meta þá færni og þekkingu.
Ánægja nemenda var metinn út frá árlegu mati nemenda á námskeiðinu. Spurningarnar í
námskeiðsmatinu breyttust á tímabilinu þannig að til að fá sambærilegar mælingar fyrir öll 12 árin voru
fjórir þættir úr matinu notaðir og vigtaðir saman. Þeir fjórir þættir sem voru til staðar í námskeiðsmati
allra áranna voru: kennsla, skipulag námskeiðs, gagnsemi námskeiðs og fræðileg hvatning. Þættirnir eru
gerðir úr nokkrum spurningum sem hver var metin á Likert kvarða (frá 1 til 5). Gögnin sem rannsóknin
byggir á eru meðaltöl hverrar spurningar fyrir hvert ár.
Forsendur
Niðurstöður þessarar rannsóknar byggja á nokkrum forsendum. Gert er ráð fyrir að lokapróf mæli
kunnáttu nemenda á viðeigandi hátt og gert ráð fyrir að niðurstöður kennslukannanna sé hægt að nota
sem stika á gæði námskeiða. Í Háskólanum er það valkvætt að svara kennslukönnunum. Þannig
aðferðafræði við söfnun gagna getur vart talist viðunandi þegar spurningar eru lagðar fyrir hóp sem á að
standa fyrir heildina. Hins vegar sýndu Felder og Brent (2008) að þrátt fyrir gallana sé vel hægt að nota
kennslukannanir sem mat á gæði námskeiða. Þessu til viðbótar er gert ráð fyrir að þeir fjórir þættir úr
námskeiðsmatinu sem vigtaðir voru saman gefi rétta mynd af ánægju nemenda.
Staða þekkingar
Leitarniðurstöður í Web of Science gáfu 53 ritrýndar greinar sem taka á vendikennslu. Greinarnar voru
frá mismunandi sviðum og fjölluðu um mismunandi efni. Greinarnar komu frá heilbrigðisþjónustu (H -
26), verkfræði (Verk - 9), vísindum (Vís - 11), menntun (M – 2), viðskiptum (Við – 3), félagsvísindum (F –
1) og óþekkt (1). Flestar greinanna fjölluðu um ánægju nemenda (e. satisfaction) eða frammistöðu þeirra
(Tafla 2).