Verktækni - 2019, Blaðsíða 54
54
Endurgreiðslutími fyrstu verkefna í núverandi umhverfi er líklegur til að vera langur á svæðum sem hafa
aðgang að ódýrri raforku frá vatnsafls- og jarðvarmavirkjunum. Til þess að hámarka nýtnina er best að
selja umframorku inn á sameiginlegt rafmagnskerfi. . Það er ekki aðlaðandi fyrir örvirkjanir að tengjast
netinu vegna kostnaðar og ekki sjálfsagt að netið vilji fá mikið inn af litlum, „óstöðugum“, orkugjöfum og
rekstrarumhverfi örvirkjanna takmarkað.
Tækifæri fyrir húseigendur og atvinnurekendur
Fyrir venjulegt heimili sem notar um 10-12 kWh á dag þyrftu alltaf að koma til rafgeymar eða tenging við
dreifikerfið svo heimilið yrði ekki rafmagnslaust yfir vetrartímann. Yfir sumarmánuðina gæti 3 kW kerfi
þjónustað heimili yfir daginn. Þau svæði sem eru sérstaklega áhugaverð til uppsetningar á sólarsellum
eru köld svæði (þar sem jarðvarma nýtur ekki við) og einangruð svæði (sem ekki eru tengd við dreifikerfi
raforkunnar). Á köldum svæðum fer upphitun húsa fram með raforku og á einangruðum svæðum er
orkugjafinn jarðefnaeldsneyti sem ekki telst æskilegt.
Til þess að þetta gangi eru rafgeymar eða tenging við dreifikerfið nauðsynleg til að anna
rafmagnseftirspurn á nóttunni, þegar safnkerfi framleiða ekki orku. Þó svo að sólarsellur nái líklegast
ekki að uppfylla alla orkuþörf heimilis yfir veturinn er vel hægt að hugsa sér að sólarsellur sjái um hluta
orkuöflunar og geti reynst vel í að minnka álag á dreifikerfi raforkunnar. Áhugavert væri að skoða
möguleikann á því að tengja sólarsellukerfi við dreifikerfi raforkunnar, þá væri framleiðsla umfram
notkun seld út á dreifikerfið og ef þörf væri á orku yrði hún aðkeypt. Áhugavert væri einnig að skoða
möguleikann á því að setja upp sólarsellukerfi sem myndi hlaða beint inn á rafmagnsbíla á meðan þeir
standa utan við vinnustað fólks á vinnutíma.
Tækifæri fyrir stjórnvöld
Erlendis eru víða í boði styrkir eða aðrir hvatar fyrir aðila sem vilja framleiða orku sem einkum er til
staðbundinnar notkunar. Í Svíþjóð er styrkja- eða niðurgreiðslukerfi til að styðja við endurnýjanlega orku
en í öðrum löndum (t.d. Danmörku og Finnlandi) er notað kerfi sem byggir á kaupum endurnýjanlegrar
orku inn á dreifikerfið sem byggir á hagkvæmasta vali hverju sinni (sjá samantektir á reglugerðum á
http://www.res-legal.eu). Umhverfislega (og kostnaðarlega) er ekki heppilegt að þurfa að nota rafgeyma
til að geyma orku og því áhugaverðari lausn að smáframleiðandinn noti eigin orku þegar hún er í boði en
kaupi öðrum kosti orku af dreifineti. Erlendis er þá boðið upp á að umframorka sé seld út á netið til
jöfnunar við orku sem þarf að kaupa þaðan. Þessu fylgja vissulega vandkvæði s.s. að staðbundna orkan
verður ekki endilega til þegar orkuþurrð er á dreifinetinu og tryggja þarf að orkan sé rétt riðluð fyrir
tenginetið. Þrátt fyrir þetta er áhugi á þessum aðferðum þar sem dreifð orkuframleiðsla muni gagnast
dreifinetinu og umræðan snýst m.a. um hvernig þetta geti gagnast til að draga úr þörf á að styrkja
dreifinet í borgum. Þrátt fyrir góðan aðgang hérlendis að öðrum valkostum í orkuframleiðslu, þá er
áhugavert að skoða hvaða tækifæri felast í dreifðri orkuframleiðslu, hvort sem um er að ræða vind- eða
sólarorku.