Bændablaðið - 15.12.2022, Qupperneq 12
12 Bændablaðið | Fimmtudagur 15. desember 2022
FRÉTTIR
Fuglaflensa:
Breiðist út eins og
eldur í sinu
Bráðsmitandi afbrigði fuglaflensu,
H5N1, breiðist hratt út um heiminn
og hefur valdið dauða hundruð
þúsunda villtra fugla og hundruð
milljóna alifugla. Skortur á eggjum
og alifuglakjöti er fyrirsjáanlegur
um jólin og eftir áramót. Fugla-
flensa hefur ekki greinst í alifuglum
á Íslandi.
Tilfelli fuglaflensu í alifuglum hafa
aldrei verið fleiri á Bretlandseyjum en
á árinu sem senn er á enda. Stjórnvöld
á Bretlandseyjum hafa þrátt fyrir það
gefið út yfirlýsingu þar sem varað er
við að tilfellunum eigi enn eftir að
fjölga þar sem eftir er vetrar.
Um 100 milljón alifuglum lógað
Það sem af er þessu ári hefur rúmlega
hundrað milljón alifuglum verið
lógað og fargað í heiminum vegna
fuglaflensu og þar af tæpleg fjórum
milljónum á Bretlandseyjum. Fyrstu
vikuna í nóvember síðastliðinn voru
sett lög þar sem bændum og öðrum
sem stunda alifuglaeldi var gert skylt
að halda fuglanna innandyra þar til
annað verður tilkynnt. Á sama tíma
var slakað á heilbrigðisreglum um
sölu á frosnum alifuglaafurðum.
Stjórnvöld á Bretlandseyjum
hafa einnig látið vinna kort sem er
aðgengilegt á netinu og sýnir bú þar
sem fuglaflensa hefur komið upp og
vaktsvæði kringum þau. Á kortinu er
einnig að finna upplýsingar um býli
sem eru undir sérstöku eftirliti vegna
hættu á að flensan geti borist þangað.
Samkvæmt kortinu er fuglaflensa
algengust á alifuglabúum um mitt
England og á austurströnd þess.
Svipaða sögu er að segja frá
meginlandi Evrópu þar sem útbreiðsla
fuglaflensu hefur aldrei verið meiri
en á þessu ári. Flensan hefur fundist
á alifuglabúum í 37 löndum og um 48
milljón fuglum verið lógað í kjölfarið.
Þrátt fyrir að fuglaflensa hafi
greinst í villtum fuglum á Íslandi
hefur hún ekki greinst í alifuglum hér.
Skortur á kalkúni
Mikil útbreiðsla flensunnar hefur
orðið til þess að skortur er á kalkúni
á Bretlandseyjum og víða í Evrópu
þar sem kalkúnn er hefðbundinn
jólamatur margra fjölskyldna. Á
sama tíma hefur kalkúnakjöt hækkað
talsvert í verði.
Samkvæmt tölum frá Banda ríkjum
Norður-Ameríku hefur fuglaflensa
komið upp í öllum ríkjum álfunnar
og rúmlega 50 milljón alifuglum
verið lógað á þessu ári. Auk þess sem
tugþúsundir villtra fugla hafa drepist
vegna flensunnar.
Aðgerðir í Bandaríkjunum til að
halda flensunni niðri hafa leitt til þess
að verð á alifuglakjöti, sérstaklega
kalkún, og eggjum hefur hækkað um
allt að 21%.
Pelíkanar drepast í Perú
Í nýlegri frétt frá Perú segir að
ríflega 13 þúsund fuglar, þar af
5.500 pelíkanar, hafi fundist dauðir
við strendur landsins á nokkrum
vikum og er dauði þeirra rakinn til
fuglaflensu.
Yfirvöld í Ekvador hafa lýst því
yfir að þar í landi verði að minnsta
kosti 180 þúsund alifuglum lógað
á næstunni til að reyna að hefta
útbreiðslu flensunnar.
Frá Asíu berast þær fréttir að
fuglaflensa hafi undanfarið breiðst
hratt út í Japan, Suður-Kóreu og
löndum í Suðaustur-Asíu. Tilfellum
í Ástralíu hefur einnig verið að fjölga.
868 smit í mönnum
Þrátt fyrir að fuglaflensa sé enn
sem komið er ekki talin alvarleg
ógnun við heilsu manna hvetur
Alþjóðaheilbrigðisstofnunin, WHO,
til þess að farið verði með gát í
kringum smitaða fugla og að þeim
verði fargað svo fljótt sem hægt er.
Samkvæmt tölum WHO eru 868
staðfest tilfelli um að smit í fuglum
hafi borist í menn frá 2003 þar til 3.
nóvember 2022. Af þeim létust 456.
Viðvaranir WHO
Þrátt fyrir að tiltölulega fáir menn
hafi látist af völdum fuglaflensu
hafa margir vísindamenn áhyggjur
af því að vírusinn sem henni veldur
geti stökkbreyst og valdið sýkingum
í fólki. Sumir segja að um tifandi
tímasprengju sé að ræða. Í dag á
veiran erfitt með að berast milli manna
þar sem hún smitast með snertingu.
Stökkbreytist veira þannig að hún
geti borist með andrúmslofti aukast
líkurnar verulega á að hún berist í
menn og stökkbreytist mögulega í
þeim í hættulegan stofn sem gæti
valdið heimsfaraldri.
Sérfræðingar Alþjóðaheilbrigðis-
stofnunarinnar, WHO, segja að
afleiðingar þess ef veiran stökkbreytist
og verði smitandi með lofti geti
afleiðingarnar orðið skelfilegar og
að dánartíðin á heimsvísu gæti legið á
milli 5 til 150 milljón manns. Fari allt á
versta veg og svart sýnustu spár ganga
eftir er líklega best að lýsa mögulegu
ástandi með fleygri setningu Ólafs
Ragnars Grímssonar, fyrrverandi
forseta: „You ain't seen nothing yet“.
Alþjóðadýraheilbrigðisstofnunin
telur að hröð útbreiðsla fuglaflensu
í heiminum sé afleiðing alþjóðlegra
viðskipta, búskaparhátta og fars villtra
farfugla milli varps- og vetrarstöðva
sinna. /VH
STIGA
ST5266 P
40 ár
á Íslandi
Hágæða
snjóblásarar
Fjölbreytt úrval
Askalind 4 | Kópavogi | Sími 564 1864 | vetrarsol.is
VETRARSÓL er umboðsaðili
Gulltryggð gæði
Vegna mikillar útbreiðslu fuglaflensu er víða hætta á skorti á kalkúni til jólanna og öðru alifuglakjöti og eggjum eftir
áramót. Mynd / usu.edu
Verð á eggjum hefur víða hækkað.
Minnsta ríki BNA leyfir sölu
Rhode Island, minnsta ríki
Bandaríkja Norður-Ameríku,
hefur stigið það skref, líkt og mörg
önnur ríki í ríkjabandalaginu,
að leyfa neyslu á kannabis í
afþreyingarskyni.
Sala á efninu var leyfð undir
ákveðnu eftirliti frá og með 1.
desember síðastliðinn.
Í ríkinu eru sex sölustaðir með
leyfi til að selja kannabis og fyrstu
vikuna frá 1. til 7. desember nam
salan 1,6 milljónum bandaríkjadala,
eð rúmlega 228 milljónum
íslenskra króna. Samkvæmt
fulltrúa eftirlitsaðila var tæplega
helmingurinn seldur til afþreyingar
en ríflega helmingurinn til þeirra
sem nota kannabis í lækningaskyni.
Samkvæmt lögum í Rhode Island
var ræktun á kannabis leyfð fyrir
21 árs og eldri í maí síðastliðinn.
Um síðustu mánaðamót var sala
þess leyfð að ákveðnum skilyrðum
uppfylltum. Í lögunum er gert
ráð fyrir að búið verði að náða
þá sem dæmdir hafa verið fyrir
kannabisneyslu fyrir 1. júlí 2024.
/VH
Landbúnaður í Evrópu:
Mælaborð fæðuöryggis
Framkvæmdastjórn Evrópu-
sambandsins hefur hleypt af
stokkunum nýju mælaborði þar
sem farið er yfir stöðu fæðuöryggis
í aðildarríkjunum. Þar koma
ekki fram vísbendingar um að
framboð af matvælum muni
skerðast. Hins vegar hefur dregið
úr aðgengi borgaranna að fæðu á
viðráðanlegu verði.
Nú verður með auðveldum
hætti hægt að fylgjast
með stöðu fæðuöryggis á
mælaborðinu á heimasíðu
framkvæmdastjórnarinnar. Þar verða
dregin saman áhrif mismunandi
þátta, eins og veðurfars og þurrka,
flutnings- og orkukostnaðar,
dýrasjúkdóma og hugsanlegra
viðskiptatakmarkana. Einnig
verður tekið sérstakt tillit til hversu
sjálfbært sambandið er þegar kemur
að hrávöru fyrir landbúnaðinn, eins
og stöðu innflutnings á tilbúnum
áburði.
Í fréttatilkynningu frá
framkvæmdastjórninni kemur
fram að þökk sé sameiginlegu
landbúnaðarstefnunni (CAP) sé
sambandið að mestu sjálfbært þegar
kemur að landbúnaðarafurðum,
því sé framboði af fæðu ekki
ógnað. Helsta áskorunin sé hins
vegar hækkað matvælaverð innan
ESB. Því mun mælaborðið sýna
þróun verðbólgu á mismunandi
fæðutegundum í aðildarríkjunum
og skoða hversu hátt hlutfall
ráðstöfunartekna borgaranna fer í
matvælakaup.
Með þessu er vonast til að ná
fram auknu gagnsæi um stöðu
matvælaöryggis og framboðs af
matvælum. Því verður hægt að
bregðast skjótar við ef stefnir í óefni.
Upplýsingarnar verða uppfærðar
með reglulegu millibili og er stefnt
að frekari þróun mælaborðsins
á árinu 2023 með því að auka
myndræna framsetningu. /ÁL
Á heimasíðu framkvæmdastjórnar
Evrópusambandsins verður hægt
að nálgast mælaborð fæðuöryggis.
Mynd / Guillaume Périgois