Veiðimaðurinn - 01.12.1989, Side 60

Veiðimaðurinn - 01.12.1989, Side 60
Björgvin Skúli Sigurðsson Klárir í bátinn Stórir og þungir regndropar falla án afláts á regnkápuna mína, renna niður eftir henni, niður á vöðlurnar og þaðan niður í grasið og hverfa. Hér er hrollkalt, enda hitastig lágt. Til allrar guðslukku er ekki mikill vindur. Þess vegna getur þetta talist sæmilegasta veiðiveður. Og á veiðum erum við pabbi og mamma og Kári bróðir minn, sem er 13 ára og tveim árum yngri en ég. Mamma hefur brugðið sér upp í bíl til þess að hressa sig á kaffisopa og ná úr sér hrollinum. Við bræðurnir sitjum undir kletti og reynum að skýla okkur fyrir rign- ingunni. Veiðistaðurinn heitir Stekkjarvik og er í Presthvammslandi, sem er efsta veiðisvæð- ið í Laxá í Aðaldal að austan og nær upp að Laxárvirkjun. A svæðinu, sem er nokkuð stórt, eru merktir nokkrir veiðistaðir og leyft að veiða á eina stöng, sem er hæfilegt. Við feðgarnir byrjuðum veiðar klukkan 8,30 um morguninn og höfum skipst á að kasta með þessari einu stöng. Það er komið að pabba að spreyta sig. Hann stendur á dálitlum tanga, sem skagar þarna út í ána, skammt frá þeim stað þar sem við Kári sitjum. I viki rétt fyrir innan tangann vaggar bátur, sem er til afnota fyrir þá veiðimenn, sem fýsir að róa á dýpri mið. Og það er einmitt á þau mið, sem við Kári viljum róa. En pabbi heldur því fram, að veiðivonin sé alveg jafnmikil frá landi. Klukkan er langt gengin í tólf. Nokkrir urriðar í hvítum plastpoka liggja í grasinu. Þeir eru að vísu ekki mjög stórir, en þeir eru til vitnis um það, að við erum ekki með öngulinn í rassinum. En við viljum fá stærri físk, helst lax. Veiðibókin sýnir, að það ætti að vera mögulegt. Allt í einu snýr pabbi sér að okkur og kallar: „Klárir í bátinn.“ Þetta var einmitt það, sem við vorum að bíða eftir. Við stökkvum í hvelli um borð. Kári sest fram í, en ég aftur í. Aður en pabbi ýtir frá landi réttir hann mér stöngina og segir, að nú sé komið að mér að veiða. A girnistauminn hefur hann hnýtt straumflugu, Black Ghost nr. 4, sem hann segir að urriðinn taki mjög vel. Pabbi rær bátnum örlítið út á ána, snýr síðan stefni upp í strauminn og lætur berast hægt niður ána. Hann stjómar hrað- anum með því að róa á móti straumnum, ýmist hratt eða hægt. Nokkuð langt úti í ánni er stór steinn, sem vatnsflaumurinn skellur á af krafti. Pabbi segir, að þarna geti legið lax og ég skuli vanda mig. En ekkert gerist. Eg kasta og kasta, stutt og löng köst og allt þar á milli. Og áfram siglir báturinn niður ána. 58 VEIÐIMAÐURINN

x

Veiðimaðurinn

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Veiðimaðurinn
https://timarit.is/publication/1774

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.