Læknablaðið

Árgangur

Læknablaðið - 01.11.2022, Blaðsíða 14

Læknablaðið - 01.11.2022, Blaðsíða 14
490 L ÆKNABL AÐIÐ 2022/108 R A N N S Ó K N og eru líffæragjafir Íslendinga nú jafnmargar eða fleiri en að með- altali í löndum Scandiatransplant. Umræða Þessi afturskyggna rannsókn sýnir að árangur hjartaígræðslu á Ís- lendingum er sambærilegur við þann árangur sem lýst hefur verið á stærri sjúkrahúsum nágrannalandanna. Aldursstaðlað nýgengi jókst úr 2,7 á milljón íbúa á ári á öllu tímabilinu í 4,6 ígræðslur á milljón íbúa á ári í lok tímabilsins. Engu að síður er ljóst að nýgengi meðferðarinnar er mun lægra en að meðaltali í löndum Scandia- transplant 18 en þar voru gerðar á bilinu 5-6 ígræðslur /1.000.000 íbúa/ári (mynd 2).17 Ástæður fyrir þessum mun á milli Íslands og hinna Norðurlandanna eru ekki augljósar. Þótt hjartaígræðslurn- ar séu ekki framkvæmdar hérlendis teljum við ólíklegt að síður sé litið til hjartaígræðslu sem meðferðarkosts. Sömuleiðis virðist ekkert benda til þess að hjartabilun sé síður algeng hér á landi en í nágrannalöndum okkar, og tíðni hennar eykst með hækkandi meðalaldri.1 Sé horft til lifunar er árangur hjartaígræðslu á Íslendingum vel sambærilegur og jafnvel betri en það sem þekkist í erlendum rann- sóknum.5,19,20 Lifun íslensku sjúklinganna var 91% og 86% einu og 5 árum frá aðgerð, borið saman við 86% og 76% á heimsvísu.5,14 Lifun eftir hjartaígræðslu hefur víðast hvar batnað með árunum og má ekki síst þakka það framförum í ónæmisbælandi meðferð.14 Flestir íslensku sjúklinganna gengust undir aðgerðina á síðastliðn- um áratug og er það mögulega einn þáttur í góðri lifun íslenskra hjartaþega í samanburði við erlendar rannsóknir. Meðalaldur íslenskra hjartaþega er lægri en gengur og gerist erlendis, sem er annar þáttur sem gæti skýrt góða lifun íslenskra hjartaþega. Einnig er hugsanlegt að val sjúklinga til þessarar meðferðar hér- lendis hafi verið þrengra en erlendis, sérstaklega í ljósi þess hversu fáir sjúklingar fengu hjartaígræði vegna blóðþurrðar. Eftirlit á ígræðslugöngudeild Landspítala fylgir að mestu þeirri forskrift sem ígræðslusjúkrahúsin ráðleggja, en þar er leitast við að tryggja gott aðgengi. Slíkt stuðlar að virku eftirliti þessara sjúk- linga, sem er lykilatriði til að ná góðum árangri, en langvinn höfn- un, krabbamein og sýkingar eru helstu dánarorsakir hjartaþega.5 Algengasta ábendingin fyrir ígræðslu var ofþensluhjartavöðva- kvilli (n=10) og þar á eftir meðfæddir hjartagallar (n=4). Athygli vekur að hjartavöðvakvilli vegna blóðþurrðar reyndist mun sjald- gæfari ábending hérlendis, eða innan við 10% borið saman við að minnsta kosti 30% á heimsvísu.5 Skýringin á þessu er ekki ljós en dánartíðni Íslendinga af völdum kransæðasjúkdóma hefur lækkað umtalsvert á síðastliðnum árum.21 Einnig er hugsanlegt að hjarta- ígræðslu sé síður velt upp sem meðferðarkosti hjá þessum undir- hópi sjúklinga, en þeir eru oft eldri og með fleiri undirliggjandi sjúkdóma en til að mynda sjúklingar með ofþensluhjartavöðva- kvilla. Með þessar upplýsingar að leiðarljósi er þó mikilvægt að ís- lenskum sjúklingum með endastigshjartabilun vegna blóðþurrðar sé boðinn þessi meðferðarkostur. Konur reyndust um fimmtungur (21%) íslenskra hjartaþega, sem er sambærilegt hlutfall og á alþjóðavísu.5 Meðalaldur hjarta- þega var hins vegar aðeins 38 ár (bil 4-65) sem er mun lægri en meðalaldur hjartaþega á heimsvísu, sem er í kringum 55 ár.5 Þessi aldursmunur gæti að hluta skýrst af tiltölulega háu hlutfalli ís- lenskra hjartaþega með ofþensluhjartavöðvakvilla og meðfædda hjartagalla en einnig lágu hlutfalli sjúklinga með hjartavöðva- kvilla vegna blóðþurrðar.5 Íslensku hjartaþegarnir fengu hjálparhjarta (LVAD) fyrir ígræðslu í rúmlega fimmtungi (21%) tilfella, sem er helmingi lægra hlutfall en á heimsvísu.5 Þarna gæti skipt máli að hjálparhjörtu eru ekki grædd í sjúklinga hér á landi, heldur aðeins á ígræðslu- sjúkrahúsum erlendis. Slík meðferð gæti því verið síður aðgengi- leg fyrir íslenska hjartaþega. Miðgildi legudaga erlendis eftir ígræðslu voru 36 dagar (með- Mynd 3. Heildarlifun (Kaplan Meier-graf) íslenskra hjartaþega 1988-2019 með 95% vikmörkum.

x

Læknablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Læknablaðið
https://timarit.is/publication/986

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.