Bændablaðið - 23.03.2023, Page 33
33Bændablaðið | Fimmtudagur 23. mars 2023
„hat-trick“ í úrslitaleiknum, og Martin Peters,
sem skoraði fjórða markið í 4-2 sigri á
V-Þjóðverjum.
Ég taldi því að West Ham hlyti að vera
langbesta liðið í Englandi, þó annað hafi svo
komið á daginn, og hef haldið með þeim allar
götur síðan.“
Gott að vinna fyrir bændur
Gylfi segir að þegar litið sé yfir farinn veg
telji hann sig hafa notið mikillar gæfu að fá
að vinna fyrir bændur og eiga samstarf við
allt það góða fólk sem hann hafi kynnst í
tengslum við starfið.
Eðli málsins samkvæmt hefur hann
einnig upplifað miklar breytingar í starfsemi
samtakanna. Skipulag félagskerfisins hefur
alltaf verið bændum mjög hugleikið og
ávallt hefur þar verið mikil barátta um völd
og deilur um skiptingu fulltrúa á milli hinna
ýmsu hagsmunaaðila eftir landshlutum,
búgreinum og jafnvel stjórnmálaflokkum.
„Þegar ég hóf störf hjá SB þá voru
allir fulltrúar inn á aðalfundina kosnir af
búnaðarsamböndunum, en með tilkomu
búgreinafélaganna fengu þau jafnframt
beina aðild að sambandinu og síðan eftir
stofnun BÍ þá skiptist fulltrúavalið á
Búnaðarþing í fyrstu nokkuð jafnt á milli
þeirra og búnaðarsambandanna.
Með nýjustu breytingunum á samþykktum
BÍ fer fulltrúavalið á Búnaðarþing nú
hins vegar að mestu leyti fram í gegnum
búgreinadeildirnar.
Í áranna rás hef ég þannig kynnst ótal
bændum alls staðar af á landinu sem
voru fulltrúar á fundum SB og síðan
Búnaðarþingi, einkum þó þeim sem tóku
síðan sæti í stjórnum, nefndum og ráðum á
starfstíma mínum hjá SB og BÍ.
Minnisstæðir eru aðalfundir SB, en
sú hefð komst á að þeir voru haldnir til
skiptis annað hvert ár á Hvanneyri á móti
öðrum stöðum á landinu eins og til dæmis
Laugarvatni, Reykjaskóla í Hrútafirði,
Laugum í Reykjadal, Eiðum, Akureyri og
Flúðum. Makar margra fulltrúanna fylgdu
þeim gjarnan á fundina þannig að þetta voru
jafnan yfir eitt hundrað manna samkomur
og í lok þeirra var síðan efnt til hátíðardag-
skrár þar sem árangur fundarstarfanna var
meðal annars iðulega yfirfarinn og metinn
í bundnu máli.“
Nýtt upphafa Bændasamtakanna
„Óumflýjanleg sala á Bændahöllinni í kjölfar
gjaldþrots Hótel Sögu ehf. var þungbær öllum
bændum jafnt sem starfsfólki samtaka þeirra.
Árin fyrir Covid var lagt í metnaðarfullar og
kostnaðarsamar breytingar á hótelinu, en í
kjölfarið fylgdi síðan algjört tekjuhrun í tvö
ár og því reyndist það einfaldlega óvinnandi
vegur að halda rekstrinum áfram.
Flutningur starfseminnar í Borgartún 25
markar hins vegar vonandi nýtt upphaf hjá
sterkari og samstilltari Bændasamtökum.“
Gylfi segir að til allrar hamingju virðast
bændur hafa áttað sig á því að hjaðningavíg og
flokkadrættir gera ekkert annað en að skemma
fyrir heildinni í stéttarbaráttunni og telur hann
það hafa vera mikið gæfuspor þegar samstaða
náðist loks um það á árinu 2021 að sameina
kraftana á ný með því að búgreinafélögin
gengju inn í Bændasamtökin sem sérstakar
búgreinadeildir. Þetta samrunaferli hefur
Vigdís, framkvæmdastjóri BÍ, leitt af mikilli
elju og dugnaði og niðurstaðan verður án alls
vafa sterkari og samstilltari Bændasamtök í
bráð og lengd.“
Mannauðurinn
Að mínu mati hafa samtök bænda notið þess
að hafa gott starfsfólk innan sinna vébanda,
en á sama hátt er ljóst að starfsfólkinu hefur
þótt gott að vinna hjá bændum, enda hafa
margir fleiri en ég náð þar
löbgum starfsaldri.
Það væri til að æra
óstöðugan að ætla sér hér
að nefna alla þá fjölmörgu
samstarfsmen sem ég hef
borið gæfu til að vinna
með hjá samtökum bænda
í gegnum tíðina. Slík
upptalning býður jafnframt
þeirri hættu heim að
einhver nöfn gleymist þar
óverðskuldað. Ég get hins
vegar ekki látið hjá líða
að minnast hér á nokkra
starfsmenn sem voru mínir
nánustu samstarfsmenn
á skrifstofusviðinu í
gegnum tíðina. Yfirmenn
mínir á starfsferlinum,
formennirnir og fram-
kvæmdastjórarnir, eru
tilgreindir í sér dálki hér
til hliðar, en samstarf mitt
við þá alla og gagnkvæmt
traust var ávallt nær
hnökralaust svo aldrei bar
þar á nokkurn skugga.
Halldóra Ólafsdóttir
kom til starfa sem ritari
hjá SB og Framleiðsluráði
landbúnaðarins árið 1979
eins og ég, en við áttum
síðan nána samleið hjá SB
og BÍ næstu 40 árin. Þeir
sem eldri eru í bændastétt
í dag litu gjarnan á hana
sem andlit samtakanna
út á við og húsmóðurina
í Bændahöll. Var hún
jafnframt lífið og sálin í
félagslífi starfsfólksins á
þriðju hæðinni um áratuga
skeið. Auk Halldóru
og Hákonar starfaði
Guðmundur Stefánsson þá
hjá SB sem hagfræðingur
og var hann afburða
fagmaður, en umfram allt
einstaklega skemmtilegur
vinnufélagi.
Eftir stofnun Bænda-
samtaka Íslands 1995
bættist síðan starfsfólk
Búnaðarfélagsins í hóp
náinna samstarfsmanna
minna á skrifstofunni, þær
Þorbjörg Oddgeirsdóttir
gjaldkeri og síðar systir hennar, Auður, sem
sá um símsvörun og gestamóttöku, Ásdís
Kristinsdóttir, ritari og fulltrúi, og síðast en
ekki síst Sigríður Þorkelsdóttir, bókari BÍ, og
Jóhanna Lúðvíksdóttir, „reikningastjóri“ BÍ
með meiru, en báðar eru þær enn við störf
hjá samtökunum.
Frá Búnaðarfélaginu urðu líka nánir sam-
starfsmenn mínir þeir Matthías Eggertsson,
ritstjóri Freys, og Eiríkur Helgason, sem
tók við sem fyrsti auglýsingastjóri Bænda-
blaðsins, en samstarf okkar tveggja náði
reyndar út fyrir veggi Bændahallarinnar
því við vorum líka samherjar hjá Fram og
í fótbolta dómgæslunni. Þá er mér bæði
ljúft og skylt að nefna hér ræstitæknana,
þær Sigríði Sigurðardóttur og Ingibjörgu
Jónsdóttur, en báðar slógu þær mér við í
starfsaldri hjá samtökum bænda. Er FL var
síðan innlimað í Bændasamtökin árið 2000
bættust síðan í góðan hópinn á skrifstofunni
þau Erna Bjarnadóttir, Ómar S. Jónsson og
Guðrún Sigríður Sigurjónsdóttir.
Öllu þessu fólki, sem og öllum öðrum
vinnufélögum á ferli mínum hjá samtökum
bænda, vil ég færa mínar bestu þakkir fyrir
frábært samstarf og einstaklega skemmtileg
kynni. Sama gildir um þá sem nýrri eru í
starfsmannahópi Bændasamtakanna og eru
þar enn við störf.“
Gylfi Þór alvarlegur á svip fyrir Evrópuleik Hollands og Möltu 2004. Við hlið hans á myndinni standa aðstoðardómararnir
Pjetur Sigurðsson og Egill Már Markússon.
Í sumarferð Bændasamtakanna á Jaðri í Borgarfirði Mynd / Eiríkur Blöndal.