Árbók Reykjavíkurborgar - 01.08.1975, Síða 117
107
ATVINNUGREINAR 0G TEKJUR
Inngangur
íslenzk stjórnvöld hafa um langt skeið látið það sitja í fyrirrúmi að
halda fullri atvinnu um land allt og í staðinn hafa þau verið reiðubúin
að taka afleiðingum jafnvægisleysis í efnahagsmálum. Slíkt jafnvægisleysi
kynni þó, ef illa tækist til, að valda alvarlegu atvinnuleysi sem
upphaflega var reynt að forðast, þótt gæfan virðist hafa reynzt lands-
mönnum hliðholl til þessa. Harkalegar umræður fara fram um atvinnumál
á Vesturlöndum um þessar mundir, og greinir menn meðal annars mjög á
um það, hve miklu skuli hætt til við að draga úr atvinnuleysi, sem þar
er víða mikið. Einnig er alvarlegur ágreiningur um orsakir þessa
atvinnuleysis, en skoðanir manna á því móta að sjálfsögðu afstöðu þeirra
til lausnar vandanum. Hér er ekki vettvangur tiI þess að gera skil þeim
atriðum, sem til álita koma við stefnumörkun í atvinnumálum en sem
sýnishorn má nefna hugmyndir manna um takmörk auðlinda og verkaskiptingu
fólks. Þessi atriði hafa einmitt verið mjög til umræðu hér á landi um
skeið í sambandi við útfærslu fiskveiðilögsögunnar.
Verkaskipting fólks hefur verið rædd með ýmsum hætti og oft óvarlega að
því leyti, að reynt hefur verið að hefja eina starfsstétt til vegs á
kostnað annarrar, Má í því sambandi nefna hinn villandi samanburð, sem
oft kemur fram í ræðu og riti á svonefndum framleiðslustéttum og
þjónustustéttum, en slíkum samanburði fylgja oft furðulegar staðhæfingar
um gildi starfa í hvorum flokki. Flokkun fólks í atvinnugreinar er raunar
ýmsum vandkvæðum bundin, en í þeim töflum, sem hér fylgja, er fylgt
alþjóðavenjum. Því fer fjarri, að allir séu á eitt sáttir um þessa flokkun,
en mestu máli skiptir, að menn geri sér grein fyrir því, að í henni felst
ekkert mat á einstök störf, atvinnugreinar, eða flokka atvinnugreina.
Tölur um fjölda vinnandi fólks eru ekki sem nákvæmastar, en þær eru
byggðar á tölum um svonefndar slysatryggðar vinnuvikur, sem birtast
meðal annars í Hagtíðindum. Með því að deila með 52 í vinnuviknafjöldann,
fæst sá fjöldi vinnandi fólks, sem þurft hefði til að skila sama fjölda
mannára, ef hver einstakur, maður eða kona, hefði unnið samfellt í ár.