Árbók Reykjavíkurborgar - 01.08.1975, Page 169
159
gjaldskrármAl borgarsjóðs og fyrirtækja
Inngangur
Gildandi reglur og venjur um ákvörðun gjaldskrár eru allbreytilegar.
Gjaldskrár eru ýmist gefnar út sérstaklega eða sem hluti af reglugerðum, og
í sumum tilvikum þarf að leita staðfestingar ráðherra, en í öðrum ekki. Tillögur
um nýjar gjaldskrár, eða breytingar á gjaldskrám, berast borgarráði að jafnaði
frá forráðamönnum hlutaðeigandi fyrirtækja eða stofnana, eða stjérnum þeirra.
Ef í reglugerð er ákvæði um það, að leita þurfi staðfestingar ráðherra á nýrri
gjaldskrá, sendir borgarráð tillögurnar, ásamt hugsanlegum breytingum, áfram
til borgarstjórnar þar sem endanleg ákvörðun er tekin að loknum tveimur umræðum.
Þá loks er unnt að senda hina nýju gjaldskrá til staðfestingar í hlutaðeigandi
ráðuneyti. Á hinn bóginn getur borgarráð tekið endanlega ákvörðun um gjaldskrá
með samhljóða afgreiðslu, ef ekki er í reglugerð kveðið á um það, að leita
þurfi staðfestingar ráðherra. Verði borgarráð ekki samhljóða um afgreiðslu,
fer málið til einnar umræðu og endanlegrar ákvörðunar í borgarstjórn.
í tveimur síðustu árbókum er gerð grein fyrir gjaldskrárákvörðunum ýmissa helztu
fyrirtækja og stofnana borgarinnar, og þykir ekki þörf á að endurtaka þær
skýringar hér. Hinsvegar hafa sífelldar verðstöðvunarráðstafanir leikið ýmis
fyrirtæki borgarinnar svo grátt á síðustu árum, að brýna nauðsyn ber til að
endurskoða gildandi reglur um gjaldskrárákvarðanir. Einkum á þetta við um þau
fyrirtæki, sem til skamms tíma gátu með eigin tekjum, samkvæmt gjaldskrá, staðið
undir rekstri og venjubundnum framkvæmdum. I því sambandi virðist vel koma til
greina að miða tekjur samkvæmt gjaldskrá við rekstur og eðlilegt framkvæmdamagn
ár hvert, án tengsla við almenna verðlagsþróun, en lán yrðu síðan tekin til þess
að standa straum af kostnaði við sérstakar framkvæmdir. Með þessum hætti greiddu
notendur kostnaðarverð á hverjum tíma og sneitt væri hjá ágreiningi um verðlags-
þróun liðins tíma.