Skinfaxi

Árgangur

Skinfaxi - 01.03.2017, Blaðsíða 31

Skinfaxi - 01.03.2017, Blaðsíða 31
 SKINFAXI tímarit Ungmennafélags Íslands 31 Þ að er nóg annað að skoða en keppni margs konar og alla viðburðina í tengslum við Unglingalandsmót UMFÍ. Þeir eru margir athyglisverðir staðirnir sem hægt er að skoða á Fljótsdalshéraði. Við hvetjum gesti jafnt sem heimamenn til að fara út fyrir bæinn og skoða héraðið. Hér er brot af því sem gaman er að skoða. Eiðastaður var áður höfuðból og kirkju- setur. Þar var stofnaður bændaskóli árið 1883 sem varð héraðsskóli 1918. Í dag er staður- inn í einkaeign og er unnið að uppbyggingu alþjóðlegs mennta- og menningarseturs. Margar skemmtilegar gönguleiðir eru um kjarri vaxna ása. Skriðuklaustur er í Fljótsdal. Þar er stór- fenglegt hús rithöfundarins Gunnars Gunn- arssonar. Húsið er safn í dag, menningar- og fræðasetur. Á Skriðuklaustri hafa verið grafn- ar upp rústir munkaklausturs. Þar dvöldu munkar af Ágústínusarreglu á árunum 1493 til 1552. Klaustrið er talið það síðasta sem stofnað var á Íslandi í kaþólskum sið. Skriðu- klaustur er um 30 kílómetra frá Egilsstöðum. Þar er safn um Gunnar og sýning um forn- leifauppgröftinn og kaffihúsið Klausturkaffi sem er opið alla daga kl. 10–18. Atlavík er frægur áningarstaður ferðamanna. Þar er tjaldsvæði og bátaleiga og hægt er að taka Lagarfljótsorminn þ.e. ferjuna, þar og sigla á fljótinu á sumrin. Þarna hélt UÍA lengi útihátíð um verslunarmannahelgi. Frægasta hátíðin er án nokkurs efa sú árið 1984 þegar Bítillinn Ringo Starr kom og spilaði með Stuð- mönnum. Kárahnjúkastífla og Hálslón: Kára- hnjúkar eru móbergshnjúkar austan við Jökulsá á Brú. Jökulsá eða Jökla fellur í miklu gljúfri, Hafrahvammagljúfri, sem er eitt dýpsta og hrikalegasta gljúfur landsins. Kárahnjúka- stífla er 198 m há og 700 m breið og meðal stærstu slíkra mannvirkja í heimi. Hálslón, ofan stíflunnar, er 57 km2 að stærð. Virkjunin hefur verið umdeild en hún sér Fjarðaáli, álveri Alcoa í Reyðarfirði, fyrir orku. Margur ferðamaðurinn lagði leið sína upp að Kára- hnjúkum til þess að taka þátt í þjóðmálaum- ræðunni meðan framkvæmdirnar stóðu yfir. Hallormsstaðaskógur er stærsti skógur á landinu og liggur meðfram Leginum. Byrjað var þar með tilraunir á trjáplöntum árið 1903. Elsti lerkilundurinn er frá 1938, kenndur við Guttorm Pálsson skógarvörð og heitir lundur- inn Guttormslundur. Bæði er hægt að tína ber og fara í sveppatínslu þarna á haustin. Á Hallormsstað var stofnaður húsmæðraskóli árið 1930. Hann starfar enn í dag og heitir nú Hússtjórnarskólinn á Hallormsstað. Áður fyrr sóttu þangað aðeins konur en nú geta bæði kynin sótt um skólavist og þykir hann henta nemendum sem stefna á framhaldsnám á sviði matreiðslu og hannyrða. Kjarvalshvammur er í landi Ketilsstaða í Hjaltastaðaþinghá. Jóhannes S. Kjarval list- málari dvaldi í þessum hvammi í tjaldi í tvö ár í kringum 1948. Bóndinn á Hjaltastað gaf honum skika og byggði kofa í hvamminum. Þarna dvaldi Kjarval oft og málaði margar af frægustu myndum sínum. Þetta er eina fast- eignin sem Kjarval eignaðist um ævina. Þarna er líka bátaskýli fyrir bát sem Kjarval á að hafa farið á niður Selfljót og til sjávar. Gálgaás er rétt austan við Egilsstaðakirkju í Egilsstaðabæ. Á honum er Gálgaklettur. Stað- urinn þekktur fyrir að Valtýr á grænni treyju, sem svo var nefndur og var bóndi á Eyjólfs- stöðum á Völlum, var tekinn af lífi fyrir þjófn- að og morð á vinnumanni. Hann neitaði þó alltaf sök. Fjórtán árum seinna fannst rétti morð- inginn sem einnig hét Valtýr og var hengdur. Bein þeirra beggja lágu undir klettinum en síðar var reistur skjöldur sem stendur enn. Áhugaverðir staðir á Fljótsdalshéraði Vallanes er kirkjustaður á Völlum. Þekktasti prestur sem þar hefur þjónað var séra Stefán Ólafsson skáld á 17. öld. Félagsheimilið Iða- vellir stendur í landi Vallaness. Nú er stunduð þar lífræn ræktun og framleiðsla á snyrtivör- um undir nafninu Móðir jörð. Klaustursel er bær á efra Jökuldal. Þar er vísir að dýragarði. Hreindýr, refir, gæsir, álftir og fleiri íslensk dýr má finna þar. Þarna er einnig gallerí þar sem eru sýndar og seldar ýmsar vörur, m.a. unnar úr hreindýraleðri. Brúin yfir Jökulsá, á veginum heim að bænum, er elsta brú landsins sem enn er í notkun. Aðalból er bær efst í Hrafnkelsdal. Þar bjó Hrafnkell Freysgoði Hallfreðarson sem segir frá í sögu hans. Þar má sjá haug Hrafnkels. Í nágrenni hafa fundist fornir gripir sem hafa styrkt sannleiksgildi sögunnar. Á Aðalbóli er rekin ferðamannaþjónusta.

x

Skinfaxi

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Skinfaxi
https://timarit.is/publication/334

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.