Saga - 2022, Blaðsíða 70
Guðmund. Væri allt að fara úr böndum gat hann kannski gripið inn
í eða veitt góð ráð og hjálp.
Rök fyrir því að Guðmundur hafi viljað veita fátæklingum meira
en venja biskupa hafði verið eru nokkur. Í Guðmundarsögu Arn -
gríms Brandssonar frá um 1345 segir að Guðmundur hafi tekið
„staðarins góss þurföndum til næringar“. Arngrímur segir líka að
Guðmundur hafi talið „erfð hins krossfesta Jesú fátækra manna
fé“.66 Hversu góða vitneskju hafði Arngrímur um afstöðu Guð -
mundar um 1345, nærri 108 árum eftir dauða hans? Gunnar F.
Guðmundsson lítur svo á að Guðmundur hafi tekið undir skoðanir
þeirra sem töldu að prestar ættu að taka sér postulana til fyrirmynd-
ar um fábreytt líf og kirkjan ætti ekki fyrst og fremst að safna auði
heldur styrkja fátæka með framlögum. Slíkar skoðanir áttu hljóm-
grunn erlendis um 1200 en voru umdeildar.67 Gunnar mun hafa rétt
fyrir sér um að Guðmundur hafi aðhyllst slíkar hugmyndir og þetta
álitamál hefur verið vel þekkt í tíð Arngríms.68
Aðalspurningin er hversu langt Guðmundur vildi ganga í gjöfum
við fátæka. Hvað merkir það að hann hafi gefið „taumlaust“, eins og
sagt hefur verið?69 Það sem er haft eftir Kolbeini, Sigurði Ormssyni
og Arnóri Tumasyni, sem varð foringi Ásbirninga að Kolbeini
látnum, er ekki að Guðmundur hafi eytt fé Hóla gegndarlaust heldur
hitt að þeim fannst hann of örlátur og óttuðust að illa gæti farið. Hér
skal líka rifjað upp að Guðmundur hafði sem prestur sjö ómaga á
framfæri sínu og það blessaðist, að sögn. Hann hafði með öðrum
orðum ekki einhvern ótiltekinn fjölda á framfæri. Og frásagnir um
að hann vildi gefa fátækum tvímælt, tvær máltíðir á dag, eru bestu
heimildir sem við höfum um hugmyndir Guð mundar um hvað væri
við hæfi að þessu leyti og benda ekki til takmarkalausra matgjafa.
helgi þorláksson68
66 Byskupa sögur III (1953), 240.
67 Marlene Ciklamini skrifar um skoðanir sem gætti um 1200 á réttindum fátækra
og ölmusugjöfum og hvort auður stóls skyldi vera undirstaða valda og vitni
um þau eða „as a means to alleviate the suffering of the poor“, „Sainthood in
the making. The arduous path of Guðmundr the Good, Iceland’s uncanonized
saint,“ Alvíssmál 11 (2004): 55–74, sjá 64‒69, tilvitnun á 69.
68 Gunnar F. Guðmundsson, „Guðmundur Arason. Biskup fátækra?,“ Merki
krossins 2 (2001): 20‒26. Um sama ágreiningsmál í tíð Arngríms á fjórtándu öld
sjá: Helgi Þorláksson, „Guðmundur góði og klaustrið í Saurbæ,“ 31‒33, 39‒41.
69 Benjamín Kristjánsson skáletrar orðið „taumlaust“ til áherslu, sbr. „Guð mundur
biskup góði Arason,“ Kirkjuritið 3 (1937): 346‒371, sjá 365; Orri Vésteinsson, The
Christianization of Iceland, 175 („giving … everything he had“).