Saga - 2022, Side 256
er áhugaverður aflestrar. Hver var þessi torkennilegi sjúkdómur sem fram
kom í Vesturamti sumarið 1791 og lagði að velli 116 manns? Ég tel að misl-
ingakenningin sem þarna er fjallað um sé allrar athygli verð, en þó fremur
ótrúverðug. Það eru nokkrar ástæður til þess. Í fyrsta lagi er greint frá að
sjúkdómurinn hafi líklega komið með Skarfen, sem lét úr höfn í Kaup manna -
höfn 21. maí 1791 en mun hafa komið til Reykjavíkur 9. júlí. Að jafnaði líða
10–14 dagar frá því að næmur einstaklingur tekur í sig veirusmit þar til
útbrot koma fram, en mislingasjúklingar eru smitandi í allt að fjóra daga
áður en útbrot koma fram og í fjóra daga eftir að þau birtast (þ.e. í nálægt
átta daga alls). Þetta þýðir að til að jafnsmitandi sjúkdómur og mislingar
geti borist með skipi sem er sjö vikur í hafi eins og hér er gert ráð fyrir, þyrfti
umtalsverðan fjölda ónæmra skipverja til að halda smitkeðjunni órofinni
nægjanlega lengi til að einhver um borð væri ennþá smitandi við komuna
til landsins. Ef til einföldunar er gert ráð fyrir að meðaltími milli smita sé 12
dagar þarf þannig að lágmarki fjóra slíka einstaklinga („hlekki“ svo haldið
sé áfram með myndmálið) til að viðhalda keðjunni milli áfangastaða. Það
verður að teljast harla ólíklegt. Þó er hugsanlegt að önnur skip sem voru
fljótari í förum hafi getað borið smit, eða að áð hafi verið á leiðinni og smit
borist þaðan. Í öðru lagi er fátt í lýsingum á veikinni sem vekur sérstakan
grun um mislinga, til að mynda voru útbrot sjaldan nefnd sem hluti sjúk-
dómsmyndarinnar. Í þriðja lagi létust færri börn af þessum torkennilega
sjúkdómi en hefði mátt ætla, en mislingar koma jafnan harðast niður á
barnshafandi konum og ungum börnum. Í fjórða og síðasta lagi náði hinn
dularfulli sjúkdómur ekki að breiðast út um landið, sem verður að teljast
fremur ólíklegt ef um mislinga var að ræða. Höfundur gerir mjög vel í að
finna nöfn, aldur, kyn og búsetu þeirra sem létust af veikinni 1791 og setur
upp í töflu. Hvaða sjúkdómur var þá á ferðinni? Um það má deila áfram, en
sá sem hér heldur á penna telur líklegra að um hafi verið að ræða iðraveiru -
sýkingu (Coxsackie eða aðrar skyldar iðraveirur), eða jafnvel inflúensu, enda
virðist slík sjúkdómsmynd passa nokkuð vel við lýsingar samtímaheimilda,
til dæmis taksótt (hiti ásamt verk og bólgu í fleiðruholi). Höf undur greinir
næst frá (62) að mislingar hafi líklega borist til landsins á árinu 1797 og
styður það með bréfi Guðlaugs Bergþórssonar bónda til Sveins Pálssonar
héraðslæknis, þar sem lýst er banvænum sjúkdómi meðal sjö barna í suður-
héraði Vesturamtsins. Getið er um „mis lynga sótt með rauðum flekkjum“
á einum stað og „kverkabólgu“ á öðrum. Þessar takmörkuðu lýsingar minna
undirritaðan meira á barnaveiki (diphtheria) en mislinga, en ljóst er að enn
er talsvert svigrúm til túlkana á þessum heimildum.
Næstu kaflar bókarinnar fjalla um hina mannskæðu faraldra nítjándu
aldar hérlendis, sér í lagi árin 1846 og 1882. Bæði þessi ár voru hörmungarár
í sögu þjóðarinnar og mannfall mun meira en af völdum spænsku veikinnar
1918, en sú staðreynd er fáum kunn utan fræðasamfélagsins. Betur er þekkt
— og á alþjóðavísu — að afar mannskæður mislingafaraldur geisaði í
ritdómar254