Saga - 2022, Page 149
Ævar sem Svala og Óskar náðu saman en Svala lék í stuttmynd
hans, Töfraflöskunni (Óskar Gíslason, 1951), sem var sýnd sem auka-
mynd með Reykjavíkurævintýri Bakkabræðra. Töfraflöskunni svip ar á
margan hátt til Ágirndar þar sem þær voru báðar teknar á sviði á
afar minimalískan máta en stílbrögðin í Ágirnd voru mun ágengari
og gengu inn á slóðir expressjónismans í lýsingu og sviðsetningu,
eins og komið verður nánar að hér á eftir. Eftir leik sinn í Töfra -
flöskunni lék Svala í leikriti hjá Leikfélagi Reykjavíkur og hvarf svo
nánast alfarið af sjónarsviðinu.6
Hér á eftir verður þessi fyrsta leikna mynd sem kona leikstýrði
á Íslandi skoðuð og farið ofan í saumana á henni sem listrænni
mynd, þeirri fyrstu sem gerð var á Íslandi. Þá verður farið ítarlega í
viðbrögð fólks og fjölmiðla við myndinni, en hún hlaut harkalega
útreið á síðum blaðanna eftir frumsýningu, og einnig fyrir hana ef
því er að skipta. Kallað var eftir banni á myndinni, meðal annars
vegna þess að hún sýndi embættismenn stunda lögbrot og var hún
úthrópuð sem argasta þvæla áður en ró færðist í umræðuna og farið
var að fjalla um myndina fyrir þá listrænu framsetningu sem í henni
er að finna. Að lokum verða skoðuð áhrif myndarinnar á líf Svölu
og arfleifðin sem hún skildi eftir sig í formi Ágirndar.
Kvikmynd um ágirnd
Ágirnd byrjar á titilspjaldi þar sem titill myndarinnar er letraður í
skakkri og mjög stílfærðri leturgerð ásamt táknrænni grímu með
kuldalegu glotti. Tónlistin undir er hart og ágengt píanóspil, samið
af Knúti Magnússyni, sem táknar það glæpaspil sem koma skal án
þess að nokkuð sé dregið af. Næst kemur textaspjald með leikend -
um og er þar Svala Hannesdóttir sjálf efst á blaði, tvö spjöld fylgja
siðleysi í formi kvikmyndalistar 147
hafði áður gert og efnistökin sömuleiðis. Stærsta breytan í því samhengi er Svala
Hannesdóttir í stóli leikstjóra myndarinnar. Hér er ekki ætlunin að rýra framlag
Óskars Gíslasonar í myndinni enda stendur hann að gerð hennar, en hans arf-
leifð varðandi Ágirnd liggur í því að veita fyrsta kvenleikstjóra leikinnar myndar
á Íslandi brautargengi við kvikmyndagerð og vinna að myndinni sem fram-
leiðandi, stjórnandi kvikmyndatöku og dreifingaraðili.
6 Vísir, 27. desember 1951, 4. Árið 2021 var BA-ritgerð um stöðu Svölu Hann -
esdóttur í íslenskri kvikmyndasögu skrifuð við Háskóla Íslands. Sjá: Lbs. — Hbs.
(Landsbókasafn Íslands — Háskólabókasafn) Arína Vala Þórðardóttir, „Huldu -
kona íslenskra kvikmynda. Svala Hannesdóttir og staða hennar í íslenskri kvik-
myndasögu“. BA-ritgerð í kvikmyndafræði við Háskóla Íslands 2021.