Saga - 2022, Blaðsíða 204
páll björnsson
Þessa umfjöllun mína um doktorsritgerðina Vald og vanmáttur ætla ég að
hefja með því að ræða almennt um þróun vestrænna sagnfræðirannsókna.
Óhætt er að segja að á liðnum tveimur öldum hafi orðið miklar sviptingar í
sagnarituninni. Þýsk-bandaríski sagnfræðingurinn Georg G. Iggers er einn
þeirra sem hafa gert hvað ítarlegasta grein fyrir þessum breytingum. Hann
hefur minnt okkur á að um leið og sagnfræðin varð að háskólagrein á nítj-
ándu öld hafi auknar kröfur verið gerðar til hennar varðandi vinnubrögð,
einkum þó hvað snerti meðferð heimilda þar sem megináherslan skyldi nú
lögð á gögn úr opinberum skjalasöfnum. Þetta leiddi til þess, eins og Iggers
hefur rakið, að afurðirnar eða sagnaritunin varð einþráða, gjarnan stjórn-
málasaga og oftast saga þeirra karla sem stóðu við stjórnvölinn hverju sinni.1
Nýir straumar og stefnur á tuttugustu öld, svo farið sé hratt yfir sögu,
gerðu sagnaritunina fjölþættari, til dæmis með aðferðum sem við kennum
við félagsvísindalega sögu. Nýir samfélagshópar fóru á síðustu áratugum
aldarinnar að fá sína sögu. Þetta gerðist til að mynda fyrir tilstilli nýrra undir -
greina sögunnar, eins og kvennasögu og verkalýðssögu, svo tvö dæmi séu
tekin. Þessar nýju áherslur breikkuðu sagnfræðina og gerðu söguna fjöl -
þráða þó að áfram væri megináherslan gjarnan á framlag svokallaðra leið -
toga, hvort sem var á sviði verkalýðs- eða kvennabaráttu.
Síðan kom að því að fræðafólk fór að beina sjónum sínum að almenningi
eða alþýðunni í æ ríkara mæli, jafnvel að jaðarhópum. Hér kvað aftur við
nýjan tón. Einstaklingar, hópar eða samfélög sem á ofanverðri nítjándu öld
hefðu ekki átt möguleika á því að komast á spjöld sögunnar, urðu nú að
viðfangsefnum fræðimanna. Nýjar aðferðir voru innleiddar en hér verður
látið nægja að nefna einungis tvær þeirra, það er hversdagssögu (þ. All tags -
geschichte) og einsögu (e. microhistory). Með því að einfalda hlutina mætti
segja að margþættari samfélög hafi kallað á margþráða sögu.
Sé litið yfir viðfangsefni þeirra doktorsritgerða í sagnfræði við Háskóla
Íslands sem lokið hefur verið við frá síðustu aldamótum þá sýna þau svo
sannarlega þróun í þessa sömu átt. Efni eða hópar fólks sem áður rötuðu
ekki á spjöld sögunnar hafa í sífellt meira mæli orðið að viðfangsefnum
doktorsefnanna. Jaðarhópar, smá samfélög og einstaklingar úr hópi alþýðu,
svo ekki sé minnst á helming mannkynsins, hafa þannig orðið að rannsóknar -
efnum. Eins og komið hefur fram er sú ritgerð sem hér er til umræðu rituð
undir formerkjum einsögunnar. Óhætt er að segja að forkólfar hennar hér á
landi hafi lagt sitt af mörkum til þess að mjaka sagnarituninni í þá átt sem
áður var lýst.
andmæli202
1 Georg G. Iggers, Sagnfræði á 20. öld. Frá vísindalegri hlutlægni til póstmódernískrar
gagnrýni. Ritsafn Sagnfræðistofnunar 37 (Reykjavík: Háskólaútgáfan, 2004).