Saga - 2022, Blaðsíða 247
Í fyrirliggjandi útgáfu fylgir Guðrún Ása Grímsdóttir útgáfu Kålunds í
grundvallaratriðum og byggir á henni. Texti Króksfjarðarbókar er aðaltexti,
leiðréttur eftir því sem við á með texta Reykjarfjarðarbókar og yngri upp-
skriftum. Þar sem texta Króksfjarðarbókar sleppir er texta Reykjarfjarðar -
bókar fylgt svo langt sem leifar bókarinnar duga en annars er byggt á yngri
uppskriftum. Lesbrigði og textamunur sem máli skipta eru hvarvetna sýnd
neðan máls nema þar sem báðum gerðum vindur fram um sama efni með
svo ólíkum hætti að birta þarf texta beggja að fullu, eins og í Guðmundar
sögu dýra og Svínfellinga sögu ― þar er textinn prentaður á tveimur
hæðum, Króks fjarðar bókar ofan striks en Reykjarfjarðarbókar neðan striks.
Guðrún Ása lítur svo á, eins og sammæli mun vera um á meðal fræði-
manna, að Sturlunga saga sé varðveitt í tveimur gerðum. Af því leiðir að
við frágang textans til útgáfu þarf að gæta þess að svipur sögunnar sem
samsteypu haldi sér, enda er hún þannig varðveitt í handritum, en jafn -
framt komi glögglega fram ólík einkenni og efnismunur gerðanna tveggja.
Á spássíu hverrar síðu eru því hand ritamörk, aðalhandrit vinstra megin
skálínu en önnur handrit sem stuðst er við hægra megin, en neðanmáls eru
bendingar um hvenær farið er úr einni sögu til annarrar (eftir því sem
mörk einstakra sagna verða greind). Þessir leiðarvísar koma í stað þess að
prenta texta gerðanna með misstóru letri en á móti þarf ögn vökulla auga
við lesturinn en í útgáfu Kålunds.
Þessi nýja útgáfa er velkomin viðbót við fyrri útgáfur og mun ábyggi -
lega vinna sér sess sem grundvallarútgáfa sögunnar í rannsóknum og
fræðilegum skrifum á Íslandi og víðar. Norrænir frændur okkar hafa haldið
tryggð við útgáfu Kålunds alla tíð, ekki einungis vegna þess hversu traust
hún er textafræðilega heldur einnig vegna þess að Kålund þýddi útgáfutext-
ann á dönsku þegar árið 1904 þegar frumtextinn var enn í handriti ― er það
mikil léttistöng þeim sem ekki eru fluglæsir á forníslensku og vilja geta
flögrað á milli. Á síðari áratugum hafa Íslendingar hins vegar nær ein-
vörðungu stuðst við útgáfu Jóns Jóhannessonar, Kristjáns Eldjárns og Magn -
úsar Finnbogasonar frá 1946 í fræðilegum skrifum og rannsóknum, enda
byggir hún á útgáfutexta Kålunds og hefur afbragðsgóða nafna- og atriðis -
orðaskrá, kort og ættartöflur. Ein ástæða þess að 1946-útgáfan tók við af
Kålund er einfaldlega sú að síðar nefnda útgáfan hefur aldrei verið endur -
útgefin í ljósprenti. Hún hefur því lengi einungis verið fáanleg annað slagið
í fornbókabúðum og góð eintök dýr. Almennir lesendur hafa að öðrum kosti
getað keypt og lesið Sturlungu í lesútgáfum. Björn Bjarnason og Benedikt
Sveinsson gáfu Sturlungu út í fjór um bindum 1908–1915 og byggðu á
Kålund. Guðni Jónsson gaf söguna sömuleiðis út í vasabókarbroti 1948 sem
hluta fornsagnaútgáfu sinnar fyrir almenning. Hún er tekin eftir 1946-útgáf-
unni og því annar ættliður út af Kålund. Í þessum útgáfum er samræmd
stafsetning forn, sem kölluð er. Lesútgáfa Svarts á hvítu frá 1988 í þremur
bindum byggir að mestu á Kålund en er með nútímastafsetningu.
ritdómar 245