Saga - 2022, Blaðsíða 254
viðhorfum til fólks með þroskahömlun í gegnum textann sem hún skrifar.
Það gerir hún meðal annars með því að beina spurningum og góðum ráðum
til ófatlaðs fólks, sér í lagi foreldra bæði fatlaðra og ófatlaðra barna.
Inngangur Guðrúnar veitir þannig fyrirtaks samhengi fyrir lesandann
til að koma auga á hvernig fötlun Bíbíar mótar hennar líf, sem og að bera
kennsl á jaðarsetningu, stimplun og ofbeldi þegar slíkt birtist í sjálfsævisög-
unni. Ofbeldi er rauður þráður í lífi Bíbíar, bæði stofnanalegt ofbeldi þegar
hún dvelur á sjúkrastofnunum sem og ofbeldið sem hún verður fyrir af
hendi skyldmenna og nágranna. Við fáum mjög sterka tilfinningu fyrir því
andlega ofbeldi sem hún er beitt af föður sínum en það birtist ekki síst í reiði
sem kraumar alltaf undir niðri og brýst upp á yfirborðið þegar síst varir.
Þessari stöðugu ógn nær Bíbí að koma svo vel til skila með því að grípa til
veðursamlíkinga. Skapofsaköstin í föður hennar eru norðangarður, norðan-
rok, þrumuveður, fellibylur eða óveður (jafnvel rabbabaraóveður) og það
ríkir stöðug óvissa um veðurspána. Það er alltaf allra veðra von.
Gildi bókarinnar felst þó ekki eingöngu í þeirri innsýn sem lesandinn
fær í líf jaðarsettrar manneskju heldur er í bókinni að finna ýmiss konar
upplýsingar um daglegt líf sveitafólks um miðja tuttugustu öld. Bíbí skrifar
um dýr, búskap og hefðir um jól og áramót en þar lærum við meðal annars
hvenær mátti og mátti ekki spila á spil. Hún segir einnig frá klæðnaði og
barnaleikjum, úti- og innileikföngum. Þar fáum við til dæmis að vita að gul-
ur bangsi, sem í dag er leikfang allra leikfanga, var framandi í augum Bíbíar
svo hún kærði sig frekar um að leika með horn og leggi.
Þetta áhugaverða sjónarhorn bókarinnar má væntanlega rekja til þess að
saga Bíbíar fór ekki í gegnum hefðbundið útgáfuferli sem hefði að öllum lík-
indum fjarlægt allt það sem ekki telst til verðugrar eða viðeigandi þekkingar
í útgefinni bók. Þar má nefna kaflann „Harðlífi og niðurgangur“ (102),
umfjöllun um tannheilsu (160, 256–257) sem inniheldur sjaldséðar lýsingar
á því hvað tannlaust fólk borðaði, sem og kafla um tíðir sem sýnir hvað
aðstæður fólks sem fer á túr geta verið flóknar, sérstaklega ef það er jaðarsett
á heimili sínu (156).
Guðrúnu er tíðrætt um það í upphafi bókarinnar að ævisaga Bíbíar sé
heimild í sérflokki, það er „einstakt efni sem varla [á] sér hliðstæðu, hvorki
hér á landi né í alþjóðlegu tilliti“ (13). En er það svo? Til allrar hamingju hafa
aðstandendur rannsóknarverkefnisins um Bíbí í Berlín sjálfir fundið aðrar
sambærilegar heimildir, eða dagbækur eftir Bíbí. Getur því verið að fleiri
heimildir af þessu tagi komi fram í dagsljósið um leið og sjálfssöguskrif
fatlaðs fólks öðlast viðurkenningu og gildi? Sú sem þetta skrifar krossleggur
að minnsta kosti fingur og vonar að svo megi verða.
Íris Ellenberger
ritdómar252