Íslenska leiðin - 01.05.2022, Page 45
45ÍSLENSKA LEIÐIN TÍMARIT STJÓRNMÁLAFRÆÐINEMA
ÍSLENSKA LEIÐIN
Stefán Örvar
Sigmundsson,
stjórnmálafræðinemi
að menn færu heim að hvíla sig eftir talningu. Má
túlka orð hans svo að lögbrot væru venjubundin á
starfstíð hans í yfirkjörstjórn.
Álit meirihluta kjörbréfanefndar
Við mat sitt á lögmæti kosninganna studdist
meirihluti kjörbréfanefndar einna helst við
XXII. kafla laga nr. 24/2000 um kosningar
til Alþingis, þá sérstaklega 3. mgr. 120. gr. Sú
málsgrein kveður í meginatriðum á um að hafna
beri kosningu þingmanns eða framboðslista ef
gallar eru á kosningu sem ætla má að hafi áhrif
á úrslitin. Ályktaði meirihluti kjörbréfanefndar
svo að ekki væru augljós ummerki þess að
úrslitum kosningarinnar hafi verið breytt þó
svo að annmarkar hafi verið á framkvæmd
talninganna og sumir þeirra jafnvel alvarlegir.
Tók meirihlutinn svör yfirkjörstjórnar og
hótelstarfsfólksins góð og gild þó svo að ekki
væri hægt að sannreyna þau með neinum
sjálfstæðum hætti. Var því álit meirihlutans að
seinni talningin skyldi standa.
Álit minnihluta kjörbréfanefndar
Björn Leví Gunnarsson (P), Svandís Svavarsdóttir
(V) og Þórunn Sveinbjarnardóttir (S) skiluðu öll
eigin áliti en rauði þráðurinn er sá að kosninguna
beri að ógilda þó svo ekki sjáist beinar
vísbendingar um að átt hafi verið við úrslitin.
Meginrökin eru að ekki er hægt að tryggja, miðað
við alla þá annmarka sem voru á framkvæmdinni,
að úrslitin endurspegli vilja kjósenda. Seinni
úrslitin eru ekki áreiðanlegri en þau fyrri og ef
talið yrði í þriðja sinn myndu þau úrslit ekki vera
áreiðanlegri heldur vegna alls þess sem á undan
er gengið. Lög voru brotin, alvarlegir annmarkar
komu í ljós og traust almennings á ferlinu er
laskað. Minnihlutinn mat það svo að ekki væri
nóg að leiða líkur að því að úrslitin væru rétt
heldur þyrfti að vera hægt að sannreyna það.
Stjórnlagaþingið 2010
Áhugavert er að bera saman framkvæmdina
í Norðvesturkjördæmi og kosninguna til
stjórnlagaþings árið 2010. Í þeirri kosningu
var fyrst og fremst um að ræða formgalla á
hönnun kjörseðla, kjörkassa og kjörklefa. Sérlög
giltu að vísu um þá kosningu og kom það í hlut
Hæstaréttar Íslands að skera úr um gildi hennar
en ekki Alþingis eins og í tilfelli alþingiskosninga.
Niðurstaða Hæstaréttar var sú að formgallarnir
gætu hafa haft áhrif á úrslit kosningarinnar og
því bæri að ógilda hana þó svo að ekki verði sýnt
með ótvíræðum hætti að slíkt hafi gerst. Fékk því
trúverðugleiki kosningarinnar að njóta vafans.
Nýja stjórnarskráin
Núverandi fyrirkomulag gerir ráð fyrir því að
þeir frambjóðendur sem landskjörstjórn veitir
kjörbréf taki sjálfir þátt í að úrskurða um gildi
þeirra. Það verður að teljast tímaskekkja að
menn séu dómarar í eigin máli. Stjórnarskrá
Íslands frá 1944 var hugsuð til bráðabirgða uns
lýðveldið væri komið í fastar skorður. Sú vinna
sem hófst 2011 við endurskoðun hennar leiddi af
sér frumvarp til stjórnskipunarlaga sem hefði,
meðal annarra réttarbóta, fært úrskurðarvaldið
frá kjörbréfshöfum til óháðra aðila. Það er löngu
orðið tímabært að við segjum skilið við fúsk
fortíðarinnar og tökum upp stjórnskipan sem
sæmir 21. öldinni.