Heima er bezt


Heima er bezt - 01.01.2005, Blaðsíða 38

Heima er bezt - 01.01.2005, Blaðsíða 38
um. Á jörðu niðri voru þeir fremur seinfærir sakir óvana, enda kiðfættir og klunnalegir í hreyfingum. Konur og börn fluttu þeir með sér á vögnum sem og matföng, tjöld og búslóð. Sífellt fóru Húnar fram með ófriði og ránsskap. I slóð þeirra stóðu jafnan eftir eyðilögð verðmæti og rjúkandi rústir. í bardögum voru þeir skæðir og harðsnúnir og sættu lagi til að koma andstæðingum sínum á óvart með því að beita óvenjulegum bardagaaðferðum. Alltaf börð- ust þeir á hestbaki og gerðu leiftursnögg áhlaup með ópum og óhljóðum. Bogamenn voru þeir snjallir og skutu örvum sínum hraðar en auga á festi. í orrustum gerðu þeir árásir og hörfuðu svo á víxl. Þannig tókst þeim oft að lama viðnám andstæðinganna með óhefðbundnum til- tækjum. Árið 434 komu tveir bræður til valda hjá Húnum og hétu þeir Atli og Bleda. Atli var snemma illvígari og ruddi því bróður sínum brátt úr vegi og gerðist einvaldur. Þar með hafði Húnaríkið fengið foringja, sem var stað- ráðinn í að láta að sér kveða. Hann var dulur maður, þög- ull og fáskiptinn. Tilgerðarlaus var hann með öllu og kaus að snæða kjöt sitt af trédiski, meðan hirðmenn hans notuðu diska úr gulli og silfri. En Atli hafði taumlausan metnað og gældi við hugmyndina um sjálfan sig sem svipu Guðs, eins og hann var stundum nefndur. Hann dreymdi stóra drauma um að efla ríki sitt, leggja undir sig löndin í kring og stofna heimsveldi Húna. Leið ekki á löngu að hann gerði alvöru úr draumsýnum sínum, því að árið 451 réðst hann með óvígan her vestur yfir Rín og inn í Gallíu, sem þá enn átti að heita rómverskt skattland. Var í fyrstu fátt um varnir, því að heimamenn voru ekki við- búnir þessari árás, en Húnar beittu að venju leifturstríðs- hernaði og komu fram af skeíjalausri grimmd. Fólk var skelfingu lostið yfir illsku þessara villimanna og taldi að heimsendir væri í nánd. Margar furðusögur komust á kreik og meðal annars var fullyrt að þar sprytti ekki fram- ar gras sem hestur Atla hefði stigið niður fæti. En þegar menn höfðu jafnað sig nokkuð eftir áhlaupið, tóku rómverskar og germanskar þjóðir í Gallíu höndum saman og bjuggust til varnar. Tókst þeim að draga saman mikið lið og var síðan haldið á vettvang gegn Húnum. Mættust flokkarnir á hinum svokölluðu karalánsku völl- um við Marne-fljótið. Fyrir orrustuna brýndi Atli menn sína til dáða og lauk máli sínu með því að segja: „Horfið til mín. Ég mun fara fremstur. Hver sem ekki fylgir mér, skal deyja.“ Bardaginn stóð síðan frá sólarupprás til sól- arlags. Mannfall var óskaplegt á báða bóga, svo að lækir lituðust blóði og bólgnuðu upp eins og í vorleysingum. Sagt var að 200 þúsund manns hefðu legið í valnum um kvöldið, þegar bardaganum slotaði vegna myrkurs. Atli var að vísu ósigraður, en mjög hafði herstyrkur hans látið á sjá. Næsta morgun bjuggust vestanmenn við nýjum á- hlaupum, en þá gerðist það óvænta. Húnar hættu við allt saman og Atli lét undan síga og dró her sinn austur yfir Rín. Þessi misheppnaða herfor inn í Gallíu var raunar fyrsti ósigur Húna. Fólk á Vesturlöndum andaði léttar og lofaði guð hástöfum. En Atli var þó ekki af baki dottinn, því að næsta vor réðst hann suður yfir Alpa og tók að herja á Ítalíu. íbúar Pósléttunnar urðu mjög hart úti vegna þess- ara árása og margir björguðu sér með því að flýja út á eyjar og óshólma við strönd Adríahafsins. Var sú byggð, sem þeir stofnuðu til á þeim slóðum, upphafið að hinni víðfrægu Feneyjaborg. Páfinn í Róm fór til móts við Atla og var sagt að hann hefði fengið hann til að snúa frá og halda heim með fortölum og fégjöfum. Og hvað sem því líður, þá hætti Atli við herferð sína til Italíu og hélt brott. Fornar sögur herma að hann hafi verið að forðast drep- sótt, sem þá gekk á Ítalíu fremur en að hann hefði tekið mark á orðum páfa. Árið 453 hugðist Atli heija á keisarann í Konstant- ínópel af því að hann hefði ekki fyllilega staðið í skilum með hinn árlega skatt. En áður en hann lagði upp var haldið konunglegt brúðkaup hjá Húnum og gekk Atli að eiga konungsdóttur eina frá Búrgund, hina fögru Hildig- unni. Var af því tilefni efnt til mikillar veislu og fast drukkið. Síðla nætur gekk Atli til rekkju með brúði sinni. Segir ekki meira af því, nema hvað konungur féll í djúp- an og þungan svefn og vaknaði ekki framar. Þegar hirð- menn vitjuðu herra síns næsta morgun, sat hinn unga drottning á hvílunni við hlið manns síns sem lá þar dauð- ur. Sumar sögur herma að hún hafi ráðið honum bana, en aðrar segja að hann hafi dáið úr hjartaslagi. Húnar gerðu útför herra síns veglega. Hann var íyrst lagður í gullkistu, þar utan um kom kista úr silfri og loks járnkista. Þessi margfalda kista var svo látin síga niður í djúpa gröf ásamt demantsskreyttum reiðtygjum, vopnum, gulli og gersemum. Athöfnin fór fram um myrka nótt. Höfðingjar Húna drukku kveðjuskál, rifu hár sitt og ristu skurði í andlit sér, því slíkan konung sem Atla skyldu menn ekki syrgja með tárum, heldur blóði. Þegar dagur rann hafði verið sléttað yfir gröfina og þrælamir drepnir sem unnu verkið, svo að sem fæstir væm til frásagnar um hinsta hvílustað Húnakonungsins, enda hefur hann aldrei fundist. Margir synir Atla skiptu hinu víðlenda ríki hans milli sín og lágu síðan í stöðugum ófriði hverjir við aðra. Und- irokaðar þjóðir hófu þá uppreisn og hristu af sér yfirráð þessara harðstjóra. Voru Húnar að lokum sigraðir og hraktir burt úr Evrópu. Leituðu margir þeirra til íyrri heimkynna í Mongólíu. Stórveldi þeirra hafði þá staðið hátt í heila öld, þegar það hvarf svo að segja sporlaust. En minningin um þennan grimma þjóðflokk frá Asíu lifði á- fram í ljóðum og sögum. Má benda á Atlakviðu í Sæ- mundareddu sem og Völsungasögu og fleira í því sam- bandi. Þá lifir nafn þessarar flökkuþjóðar áfram í lands- heitinu Húngaría, sem merkir Húnaland, og við köllum Ungverjaland, þar sem aðalstöðvar Atla Húnakonungs voru forðum daga. 3 8 Heima er bezt

x

Heima er bezt

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Heima er bezt
https://timarit.is/publication/380

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.