Heima er bezt


Heima er bezt - 01.11.2008, Blaðsíða 27

Heima er bezt - 01.11.2008, Blaðsíða 27
Ég varð að taka þann kost að halda til í móa milli tveggja þúfna, en engin leið var að hækka neitt í kringum mig, því engir steinar voru nærtækir og óráðlegt að vera að neinu rápi, heldur vera sem kyrrastur og taka vel eftir öllu. Væri læðan úti, gat hún komið úr hvaða átt sem var og ef hún hefði nú verið inni mátti búast við henni út á hverju augnabliki. Staðsetti ég mig þvert við vindi frá greninu, þar sem var hæfilegt færi á grenið og sneri þannig, að mér væri sem hægast að sjá á grenið, og eins undan vindi frá því og bjóst ég helst við henni úr þeirri átt. Gjörðist nú lífið fremur tilbreytingarlaust og vildi setja að mér hroll þó veðrið væri blítt, því ekki þorði ég með neinu móti að yfirgefa grenið til að sækja loðnu skinnfötin, sem ég skildi eftir æðilangt í burtu fyrr um kvöldið, en oft varð mér hugsað til þeirra um nóttina. Klukkan var langt gengin 4 um morguninn þegar ég hef grun um að lóa hafi bíað bak við mig. Ég sný mér við á rassinum og horfi og hlusta vandlega, en heyri ekkert meir, og get ekki séð neitt heldur og hygg því, að þetta hafi verið vitleysa í mér, lít heim á grenið og svo undan vindlínu frá því, og áminni mig harðlega að hafa vakandi auga á þessum tveimur þýðingarmiklu stöðum, en gleyma mér ekki við að glápa of lengi þar sem ekkert er. En þegar ég er mitt í þessu eintali við sjálfan mig heyrði ég hvínandi gleðikall fyrir aftan og á hlið við mig og mér verður á að snarsnúa mér við, en vegna þess hve ég var illa varinn kom hún strax auga á mig við hreyfinguna, en áður en mér gæfíst tími til að lyfta byssunni, er hún komin á slíkan rjúkandi sprett og beint heim á grenið, að ég taldi ekki líkur á að mér tækist að fella hana. Allt gengur nú fljótar fyrir sig en hægt er að segja frá, ég leita eins og brjálaður í hugskoti mínu með hverju ég eigi að stöðva hana og þegar hún er að komast á grenið arga ég eins og yrðlingur, sem er sárt kvalinn. Hún snarstansar og lítur við en nú er ég viðbúinn og skotið ríður af og þar með er hún horfín mér. í annað sinn hleyp ég að greninu tautandi ómunnbært orðbragð, er ég virkilega búinn að missa bæði dýrin inn? Og lái mér hver sem vill, en ég varð svo glaður þegar ég sá að hún hafði henst steindauð ofan í sporið, að ég hefði gjarnan kysst á minn eigin rass ef ég hefði getað. Þegar ég hafði Ijarlægt læðuna, reyndi ég að kalla á yrðlingana og líkti eftir matargaggi móðurinnar. Sá ég þá þrjá fyrir víst, en ekki gat ég lokkað þá út. Hugsaði ég mér nú að byrgja grenið, en það átti að vera mjög auðvelt, þar sem þetta var klappargreni, aðeins að gæta þess vel að skilja enga smugu eftir óbyrgða, en eftir að hafa rannsakað mjög vel allt um kring, var alls ekki nema um tvær holur að ræða. Að þessu búnu hélt ég heim, en ákvað að vitja grenisins eftir þrjá sólarhringa, taldi þá víst, að farið mundi að sneiðast um snarl í greninu. Eftir tilsettan tíma kom ég á grenið og reyndist mér þá auðvelt að ná yrðlingunum, en þá voru þeir reyndar ijórir. Nú lét ég það boð út ganga til oddvita, og sagði hverjum sem hafa vildi, að ég væri búinn að vinna grenið, og gerði oddviti engar athugasemdir við það, en hreppstjórinn, Guðmundur Jósepsson, stakk því að mér, að venjan væri sú, að sýna að minnsta kosti skottin af dýrunum í byggð, og sagði að mér kæmi vel að oddviti væri ekki tortrygginn. Þó ég léti ekki á því bera þá sámaði mér þetta nokkuð, þótt ég fyndi að þetta var gullsatt, og ákvað að reyna að ná refnum þó að það kostaði mig að rífa og sprengja allt grenið í loft upp. Velti ég nú fyrir mér hvemig bezt væri að ná refnum með auðveldu móti áður en ég réðist í nokkur stórræði. Maron sonur minn var þá 9 ára, ótrauður og íyrirtektasamur. Spyr ég hann hvort hann myndi þora að skríða inn í hellinn og freista þess að fínna refínn. Ekki stóð á svarinu og var það jákvætt. Eftir mikil heilabrot um hvaða tæki myndu heppilegust við tiltæki þetta, afréð ég að hafa með okkur lipra en sterka kaðalhönk, blað af barnaskóflu, efni í bátssvigaband ca. 9 feta langt og stutt en gilt sterínkerti ásamt eldstokk. Seinni part dags í indælisveðri lögðum við af stað ljögur, Maron, ég, dóttir mín og tengdadóttir. Þegar upp að greni kom tók ég til við að binda skóflublaðið á reijuna örugglega, beygði því næst blaðið í vinkil eða vel það, lagðist því næst á magann framan við munnann og tók til að skafa rás í sandbunguna sem næst því er refurinn hvarf. Þegar ég hafði unnið að þessu sem mér líkaði, bræddi ég kertið fast á enda reijunnar, kveikti á því og ýtti henni inn svo langt sem hægt var, utan við rásina sem ég gróf. Því næst lagðist Maron niður við munnann og brá ég kaðlinum um fætur hans og hnýtti rækilega að. Nú las ég honum textann. Skríða inn eftir rásinni sem flatastur og taka vel eftir öllu þegar hallaði niður, og umfram allt að snúa sér ekki við hvemig sem á stæði, því þá gæti farið svo að hann yrði fastur. Skríður nú piltur inn, en ég gef eftir kaðalinn og tökum við eina æfingu áður en hann hefur lengra farið og gengur það prýðilega. Heldur hann nú lengra áfram, en ég gerist ofsaspenntur og kalla von bráðar hvort hann sjái nokkuð, en hann svarar neitandi. Eftir stutta stund kallar hann: „Hér er hann, pabbi,“ ég kalla á móti hvort hann haldi að refurinn sé lifandi, en hann kveðst ekki vita það, hann horfí á sig. Held ég nú kaðlinum föstum og hugsa málið. Ekki var útilokað að refurinn væri tórandi og bezt að fara að öllu með gát, en hvemig átti ég að fá fullvissu. Þá dettur mér kertaljósið í hug og kalla til Marons að taka um stöngina, sem ljósið væri á, færa hana varlega að refnum og bera kertið undir trýnið á honum og taka vel eftir hvort hann hreyfði höfuðið, og segja mér hvað gerðist. Gerir hann þetta en kallar að vörmu spori, „rebbi hreyfí sig ekki“. Kalla ég þá feginn á móti og segi honum að taka óhræddur í hann, og þannig var það að ég dró strákinn öfugan en hann dró refínn. Þegar heim var komið sýndi ég refínn tveimur mönnum og sagði þeim hversu til hefði tekist og taldi nú fúllsannað að hann hefði verið helskotinn, eins og ég hafði skýrt frá. Heb 1962. Heima er bezt 507

x

Heima er bezt

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Heima er bezt
https://timarit.is/publication/380

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.