Bændablaðið - 07.09.2023, Blaðsíða 16
16 Bændablaðið | Fimmtudagur 7. september 2023
NYTJAR HAFSINS
Auðlindin þeirra – atvinnurógur
í boði matvælaráðherra
Lokaskýrsla „Auðlindarinnar
okkar“ var kynnt fyrir almenningi
með pomp og prakt 29. ágúst
síðastliðinn. Sextán mánaða
vinnu einnar stærstu og dýrustu
nefndar í sögu íslenskrar stjórn-
sýslu var þar með lokið.
Nefnd þessi samanstóð af fjórum
starfshópum sem fengu það verkefni
að „greina áskoranir og tækifæri í
sjávarútvegi og tengdum greinum“
og samráðsnefnd hvers verkefni var
að hafa „yfirsýn yfir starf starfshópa
og aðra þætti verkefnisins“.
Í kjölfar fundarins sagði
Strandveiðifélag Íslands – ásamt
Landssambandi smábátaeigenda
og Samtökum fiskframleiðenda og
útflytjenda – sig úr samráðsnefnd
verkefnisins. Við gátum ekki
ljáð skýrslunni lögmæti með því
að leggja nöfn okkar við hana.
Ástæðan var tvíþætt – vinnulag og
niðurstöður – og ætla ég að reifa
ástæður þess hér.
Vinnulagið: skortur á aðferða-
fræði, samráði og gagnsæi
Skýrslan ber öll einkenni þess að
vera skrifuð af einstaklingum sem
telja sig búa yfir yfirburðaþekkingu
á málaflokknum, hafa þegar fundið
bestu lausnina í þessu máli og þurfi
því hvorki að hlusta á kóng né prest.
Þetta viðhorf formanna starfs-
hópanna kom skýrt fram í bráðabirgða-
niðurstöðum þeirra í janúar og
áhugaleysinu sem þau sýndu
sjónarhorni smábátasjómanna.
Þrátt fyrir síendurteknar stað-
hæfingar um „opið og gagnsætt
ferli“ hefur reynst þrautinni þyngra
að fá haldbærar upplýsingar um
vinnulag ferlisins.
Í kjölfarið á bráða birgða niður-
stöðunum sendi Strand veiðifélag
Íslands starfshópunum opið bréf
þar sem þeir voru beðnir um að gera
grein fyrir aðferðafræðilegri nálgun
þessarar vinnu.
Ekki fengum við svar en vorum
þó boðuð á fund þar sem við bárum
spurninguna upp aftur: hvaða
aðferðafræði var stuðst við til þess
að safna gögnum, greina gögn,
og draga ályktanir út frá þeim?
Skemmst er frá því að segja að við
þetta snöggreiddust formennirnir
og hótuðu að slíta fundi.
Hafa ber í huga að Strandveiði-
félagið átti sæti í þeirri samráðsnefnd
sem átti að hafa „yfirsýn yfir starf
starfshópa“. Þetta eru bæði óeðlileg
og ófagleg viðbrögð við eðlilegri
og faglegri grundvallarspurningu.
Enn hafa engin svör borist um
aðferðafræði og engar vísbendingar
er að finna um hana í skýrslunni.
Kynning lokaskýrslunnar var
algjörlega eftir bókinni. Það virtist
happa og glappa hvort samráðs-
nefndarmenn fengu skýrsluna fyrir-
fram til yfirlestrar eður ei.
Sjálfur fékk ég hana senda
kvöldið fyrir fund. Það geta varla
talist eðlileg vinnubrögð að veita
samráðsnefnd hálfan sólarhring
til þess að rýna í 464 blaðsíðna
skýrslu. Það kom þó ekki að sök
því ekki var gefið færi á að spyrja
formennina nokkurra spurninga
að kynningu lokaskýrslunnar
lokinni, enda vissu þau mæta vel
að þeim spurningum gætu þau ekki
svarað. Það eina sem er gagnsætt
er slagsíðan kvótakerfinu í hag og
tilraunir starfshópanna að draga
smábátaútgerðir niður í svaðið.
Niðurstöður: slagsíða,
mótsagnir og rangfærslur
Niðurstaðan var sú að ekkert var
hlustað á smábátasjómenn í ferlinu
og engar af okkar athugasemdum
eða tillögum rötuðu í lokaskýrsluna.
Kaflinn um strandveiðar ber merki
þess. Smábátar standa fremstir
meðal jafningja hvað varðar um-
hverfisvernd, byggðasjónarmið,
gæði og verðmæti afla, og rétt
almennings til atvinnufrelsis og rétt
til að velja sér búsetu. Engu að síður
skín fyrirlitning starfshópanna á
smábátum í gegnum hverja blaðsíðu.
Skýrsla sem unnin var sérstaklega
fyrir verkefnið bendir ótvírætt
á að strandveiðar „fá jákvæða
einkunn fyrir löndunarhlutfall í
heimahöfn, verð á markaði, vægi
fyrir viðkvæmar hafnir og fjölda
sem tengjast kerfinu“.
Sama skýrsla bendir á „að
töluverð endurnýjun/nýliðun eigi
sér stað í kerfinu og að það fólk
sem komi nýtt inn í greinina sé
ekkert síðri aflaklær en þeir sem
voru fyrir“. Starfshóparnir tóku
ekki einu sinni mark á skýrslu sem
þeir höfðu sjálfir pantað.
Horft var framhjá rökum,
staðreyndum og sönnunargögnum
með einbeittum brotavilja.
Starfshóparnir fullyrtu að
strandveiðikerfið hafi ekki mætt
markmiðum sínum og að réttast
„væri að minnka vægi strandveiða
í ljósi þess efnahagslega óhagræðis
sem af þeim leiðir“ án þess að vísa
í nokkrar staðreyndir máli sínu til
stuðnings.
Þegar hagrænt gildi strandveiða
var rætt, var eingöngu einblínt
á afkomu fyrir útgerðirnar
sjálfar, sem sagt hversu hátt
hlutfall aflaverðmætis ratar í
vasa útgerðaraðilans. Það kemur
mér ekki á óvart að afkoma
strandveiðiflotans sé lakari en
hjá stórútgerðinni, þó ekki hafi
verið „mikill munur á framlegð
(EBITDA) sem hlutfalli af tekjum
á milli kerfa“.
Við höfum ekki yfir að ráða
her endurskoðenda hvers eini
tilgangur er að finna leiðir til að
snuða starfsfólk og ríkissjóð. Þar
að auki dreifast útgjaldaliðirnir
okkar ekki á aflandsfélög heldur
fiskmarkaði, fiskvinnslur, hafnir,
vélvirkja, löndunarfyrirtæki,
flutningsfyrirtæki og skattinn
Það sem strandveiðar hafa sýnt
og sannað síðan 2009 er að það
er vel hægt að stunda hagkvæmar
fiskveiðar á umhverfisvænan og
félagslega ábyrgan hátt. Þess vegna
völdu starfshóparnir að nota gróða
útgerða frekar en þjóðhagslega
hagkvæmni sem mælistiku á
efnahagslegt gildi.
Að lokum er áhugavert að skoða
það sem starfshóparnir sögðu ekki.
Hvergi var minnst á þá augljósu og
óyggjandi staðreynd að smábátar
stunda umhverfisvænstu veiðarnar.
Í furðulegri og stuttaralegri
upptalningu á kostum strandveiða
var algjörlega litið framhjá þessu.
Hvernig getur það verið þegar
fyrsta skrefið í átt að sjálfbærum
sjávarútvegi er „umhverfið í
öndvegi“?
Lokaniðurstaðan um félagslega
kerfið var sú að finna skal leiðir til
að grafa undan aðgengi almennings
að auðlindinni okkar. Starfshóparnir
hafa gert sitt besta til að búa þannig
um hnútana að leiguheimildirnar
í „innviðaleiðinni“ renni óskiptar
í stórútgerðina. Nú fer lobbídeild
SFS í yfirsnúning að sjá til þess
að skilyrðin útiloki smábáta.
Það á einfaldlega að smygla 5,3%
pottinum inn í kvótakerfið gegnum
bakdyrnar. Því skal engan undra
að SFS hafi verið eins og köttur í
rjómaskál og fullyrt að
„Ráðstöfun ríkisins á 5,3%
aflaheimilda í ýmiss konar verkefni,
líkt og strandveiðar, byggðapotta
og ívilnanir er í öllum verulegum
atriðum, samkvæmt umfjöllun
skýrslunnar, án ásættanlegs
árangurs eða efnahagslegs ábata“.
Með birtingu þessarar skýrslu
er ríkisstjórn Íslands orðin bakhjarl
atvinnurógs sægreifanna.
Skrefin fram undan
Eina ljóstíran í þessu örlagaklúðri
er að strandveiðikerfið lifði þessa
aftökutilraun af. Greinilegt er að
starfshóparnir höfðu okkur í sigtinu
en hörð viðbrögð smábátaflotans
við bráðabirgðaniðurstöðunum
og stuðningur þjóðarinnar við
trillukarla og -konur gerði það að
verkum að þau þorðu ekki að taka
í gikkinn. Eins lifum við í voninni
að matvælaráðherra sjái í gegnum
tilraunir þeirra til að smygla
félagslega kerfinu inn í kvótakerfið.
Enn og aftur eru það SFS sem
gefa okkur tilefni til bjartsýni: „Í
opinni kynningu ráðherra í dag
skaut skökku við að ráðherra hyggst
leggja fram frumvörp sem í tveimur
tilvikum eru ekki í samræmi við efni
og niðurstöður skýrslunnar. Annars
vegar hyggst ráðherra leggja til
hækkun á veiðigjaldi og hins vegar
hyggst hún gera tilraunir með
uppboð aflaheimilda.“
Leigupotturinn er einmitt
áhugaverðasta tillagan í skýrslunni.
Þessar tillögur voru settar fram
með vísvitandi óræðum hætti,
væntanlega í þeirri von að leigu-
potturinn renni óskiptur til
kvótaeigenda. Við treystum því
að matvælaráðherra beri gæfa til
þess að túlka þessar tillögur með
hag smábáta í huga. Potturinn ætti
eingöngu að vera fyrir kvótalausar/
kvótalitlar útgerðir og einskorðaður
við vistvænar veiðar.
Þeir sem eiga kvóta fyrir
þyrftu að klára sinn kvóta fyrst.
Óheimilt væri að leigja frá sér
kvóta og ókláruðum heimildum
yrði skilað aftur í pottinn. Tekjur
ríkisins af leigunni yrðu svo nýttar
í uppbyggingu á landsbyggðinni.
Svo virðist sem örlagastundin sé
runnin upp. Þetta er síðasta tækifæri
Svandísar til að sýna það í verki
að hún standi með smábátum gegn
ofríki sægreifanna.
Kjartan Páll Sveinsson,
formaður Strandveiðifélags Íslands
Kjartan Páll Sveinsson
kjartan.sveinsson@gmail.com
Svandís Svavarsdóttir skipaði Eggert Benedikt Guðmundsson, fyrrum forstjóra HB Granda, formann starfshóps
Auðlindarinnar okkar. Mynd / Sigurjón Ragnar - matvælaráðuneytið
Niðurstaðan var
sú að ekkert var
hlustað á smábáta-
sjómenn í ferlinu
og engar af okkar
athugasemdum eða
tillögum rötuðu í
lokaskýrsluna...“