Póllinn - apr. 2024, Blaðsíða 37
Upplýsingin
Bæði þær hugmyndir sem birtust vestanhafs og í Evrópu um eðli mannsins og samskipti valdhafa
við þegna má síðan rekja til þess sem kallað er ,,Upplýsingin“. Gróflega má segja að það tímabil
standi í um 200 ár, frá um 1600 til 1800.
Í sem stystu máli má segja að Upplýsingin feli það í sér að skynsemi (e. ,,reason“) taki yfir hugsun
mannsins og það sem kallast ,,veraldarhyggja“ ryðji sér til rúms. Í henni felst til dæmi að draga úr
vægi trúar og trúarbragða á stjórnun samfélagsins.
Með Upplýsingunni komu fram nýjar hugmyndir um réttindi fólks og almennings og áðurnefnd
samskipti valdhafa og þegna. Á þessu tímabili komu fram hugsuðir sem höfðu gríðarleg áhrif á
hugmyndir um réttindi almennings, um stjórnskipun og stýringu á samfélaginu. Nægir að nefna
menn á borð við John Locke, Jeremy Bentham, Charles Montesquieu, Voltaire, Jean-Jacques
Rousseau og Thomas Jefferson.
Mikið af því sem birtist í skrifum þessara manna og annarra fulltrúa Upplýsingarinnar sneru að
almennum réttindum almennings, til dæmis til þess að tjá sig og hafa skoðanir og að spyrna gegn
allskyns kúgun og valdníðslu.
Kúgun og valdníðsla
Enda var það svo að bæði bandarísk byltingin og sú franska voru til komnar vegna kúgunar,
valdníðslu og yfirgangs ríkjandi yfirvalda þess tíma. Til að mynda ríkti mikið hungur vegna
uppskerubrests í Frakklandi í undanfara byltingarinnar þar, sem sumir segja að rekja megi til
loftslagsbreytinga vegna Skaftárelda (sem leiddu til Móðuharðindanna) á árunum 1783-1785. Þetta
er að minnsta kosti tilgáta.
Þessi tvö umræddu skjöl, Sjálfstæðisyfirlýsing Bandaríkjanna og Mannréttindayfirlýsing frönsku
byltingarinnar eru því (að öðrum skrifum ólöstuðum) sennilega mikilvægustu skjölin í sögu
mannréttinda.
Ekki er um að ræða löng, eða ítarleg skjöl, hið fyrra er um 1450 orð með undirskriftum þeirra 56 sem
skrifuðu undir hana. Reyndar var ein kona í þessum hópi, Mary Katherine Goddard, sem vann sem
prentari á þeim tíma fyrir þing íbúa nýlendanna (e. Continental Congress).
Franska skjalið, sem hægt er að lesa í enskri þýðingu á vefsvæði franska forsetaembættisins, er
aðeins um 650 orð. Samanlagt er því um að ræða um 2000 orð, eða um fimm A4 blöð ef við
myndum skella þessu upp á tölvum samtímans.
Í þeim 17 greinum sem mannréttindayfirlýsingin franska inniheldur er farið í ýmsa þætti eins
einstaklingsfrelsi, tjáningarfrelsi, lög, eignarrétt, rétt til andspyrnu gegn kúgun, ólögmætar
handtökur, aðgreiningu ríkisvalds fleira slíkt. Allt í raun hlutir sem eiga við enn í dag og skipta
lykilmáli í því sem við köllum vestrænt lýðræði og vestrænt réttarfar.
En hvernig er staða mannréttindamála í dag í heiminum, sem telur á áttunda milljarð manna. Eru
mannréttindi, frelsi og lýðræði þau leiðarstef sem ráða för?
Það er leitt frá því að segja að nú er staðan sú, þegar þessi orð eru skrifuð, að um helmingur
þjóðríkja heimsins teljast ekki vera lýðræðisríki, heldu ríki þar sem ríkir einræði, valdboðshyggja og
þá því miður ríki þar sem mannréttindi eru fótum troðin, í mismiklum mæli þó.
36