Póllinn - apr. 2024, Síða 38
Úkraínustríðið
Um þessar mundir eru um 100 milljónir manna á flótta víðs vegar um heiminn og það þýðir
einfaldlega að þessi hópur nýtur ekki almennra mannréttinda. Mikið er um konur og börn. Mesta
stríð sem geisað hefur í Evrópu frá lokum seinni heimsstyrjaldar er nú í gangi á milli Úkraínu og
Rússlands, eftir að Rússar réðust inn í Úkraínu í lok febrúar árið 2022, í þeim tilgangi að því er
virðist að gereyða Úkraínu og öllu því sem úkraínskt er. Í þessum átökum hafa mögulega nokkur
hundruð þúsund manns fallið og særst, bæði hermenn og almennir borgarar. Flóttamenn frá
Úkraínu eru um sex milljónir eða rúmlega allir íbúar Danmerkur.
Gaza logar
Í Mið-Austurlöndum kom til skelfilegra átaka í byrjun október 2023 eftir að Hamas-samtökin, sem
njóta stuðning Írana, gerðu hryðjuverkaárás frá Gaza (sem Hamas stjórnar) inn í Ísrael, drápu þar
um 1200 manns og tóku fjölda í gíslingu. Svar Ísraels hefur verið á þá leið að láta sprengjum rigna
yfir Gaza og þegar þetta er skrifað um miðjan janúar 2023, hafa Ísraelsmenn drepið um 25.000
manns í aðgerðum sínum, eða meira en tuttugufalt það sem Hamas-liðar drápu. Talið er að allt að
meira en helmingur alls húsnæðis á Gaza sé ónýtt, en þar bjuggu um 2 milljónir manna.
Mesta mannréttindabrotið
Talið er að tugir átaka víðs vegar um heim séu nú í gangi og öll þessi átök þýða einfaldlega að
mannréttindi eru brotin. Allt brýtur þetta í bága við Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna,
sem samþykkt var árið 1948, þegar heimurinn var eitt flakandi sár eftir seinni heimsstyrjöldina, en í
þeim hildarleik var jú eitt mesta mannréttindabrot, fyrr og sennilega síðar framkvæmt, sem kallast
Helförin.
Þá voru meðal annars sex milljónir Gyðinga myrtar með skipulegum hætti, sem og milljónir annarra,
meðal annars sovéskir stríðsfangar, Rómafólk og einstaklingar úr fleiri jaðarhópum. Rauntala
Helfararinnar er því hærri en oft hefur verið rætt um.
Í fyrra voru 75 ár liðin frá tilurð samþykktarinnar, en þriðju grein hennar segir: ,,Allir eiga rétt til lífs,
frelsis og mannhelgi.“ Ljóst er að einungis þessi grein er þverbrotin í þeim átökum sem eiga sér stað
í dag um víða veröld.
Það er einnig ljóst að það er stórt og mikið verkefni stjórnmálanna að reyna að koma í veg fyrir
mannréttindabrot og efla virðingu fyrir mannréttindum. Þetta er áskorun sem sennilega mun fylgja
,,homo sapiens“ eins lengi og hann dvelur á þessari jörð. Hér þarf margt að koma til, meðal annars
skólakerfi og lýðræðiskennsla.
Hvað getum við gert?
Og hvað geta einstaklingar gert? Jú, þeir geta til dæmis stutt baráttu samtaka á borð við Amnesty
International og Human Rights Watch, en vitað er að starf þessara samtaka hefur skilað árangri og
til dæmis frelsað samviskufanga víða um heim. Það er meðal annars gert með allskyns þrýstingi á
stjórnvöld sem brjóta mannréttindi.
Í ársskýrslu Amnesty fyrir árið 2023 segir að árið 2022 hafi verið ár umskipta í alþjóðamálum og þá
er meðal annars verið að vísa í innrásina í Úkraínu. En samtökin taka það einnig fram að árið 2022
hafi ekki verið verið ár umskipta í mannréttindamálum og að frekar hafi hallað undan fæti. Það er
sorgleg staðreynd og brýnt að taka á því vandamáli. Mannréttindi, ekki mannréttindabrot, eiga að
ráða för.
37
Höfundur er M.A.í stjórnmálafræði frá Uppsalaháskóla, A-Evrópudeild.