Póllinn - apr. 2024, Side 48
Fyrir okkur á Íslandi þá getur það hljómað undarlega og jafnvel út í hött að þú gætir hlotið sekt,
fangelsisvist eða jafnvel látið líf þitt vegna klæða þinna. Auðvitað gerist það að maður kalli fram
undarleg svipbrigði hjá fólki ef því finnst fatnaðurinn þinn undarlegur á einhvern hátt. Fyrir okkur
eru þetta sjálfsögð réttindi að fá að klæðast því sem við viljum og að fá að tjá okkur með fatastíl á
þann máta sem okkur sýnist. Þetta er þó ekki raunin alls staðar og er fólki neitað um þessi réttindi
víða. Eitt dæmi um þetta eru réttindin til þess að bera höfuðslæðu eða hijab, hér verður farið yfir
tvo póla þessarar umræðu, annars vegar þann sem vill alfarið banna konum að klæðast hijab og
hins vegar sá sem vill neyða konur til að klæðast hijab.
Árið 1958 kom út ritgerð sem bar heitið Two Concepts of Liberty eftir Isaiah Berlin. Ritgerðin gerði
grein fyrir því sem Berlin kallaði jákvætt og neikvætt frelsi en hann lýsti því sem frelsi til og frelsi
frá. Jákvætt frelsi var í rauninni frelsi til athafna en neikvætt frelsi, frelsi frá einhverju. Hugmyndin
um neikvætt frelsi var svolítið eins og ferskur andblær inn í stjórnmálaheimspeki þar sem að áður
fyrr hafði alltaf verið fjallað um jákvætt frelsi. Það liggur þó í augum uppi að það sé takmarkað frelsi
í því að lenda í því að það sé brotið á manni en því er það mikilvægt að einstaklingar hafi frelsi frá
því að það sé brotið á þeim eða neikvætt frelsi.
Í Frakklandi er mjög rík áhersla á aðskilnað ríkis og kirkju eða eins og það er kallað þar, laicité. Þann
15. mars 2004 samþykktu frönsk stjórnvöld frumvarp 228 sem kvað á um það að nemendur í
opinberum grunn- og menntaskólum, væri óheimilað að bera klæði eða tákn sem á áberandi hátt
væru trúartákn. Þetta mál fór síðan fyrir Conseil d'Etat (hæstiréttur Frakklands sem snýr að
stjórnsýslu málum), 8. október 2004 sem staðfesti að þó að lögin brytu á bága við 6.grein
hugsunar-, samvisku- og trúfrelsi þá vægi hagur almennings meira. Áður en úrskurður kom í málinu
var sett saman rannsóknarnefnd sem kannaði þörfina fyrir lagasetninguna. Nefndin komst að þeirri
niðurstöðu að sýnileg trúartákn hefðu truflandi áhrif í skólum. Það kom einnig fram að hijab væri
tákn samfélagshyggju og væri því ógn við hugmyndir Frakka um einstaklingshyggju. Þetta bann
hafði ekki sömu áhrif á öll kyn og trúarbrögð. Þetta hafði lang mest áhrif á konur sem eru múslimar.
Dauði Mahsa Amini, 22 ára gamallar kúrdískrar konu, í varðhaldi siðgæðislögreglunnar í Teheran
varð kveikjan að stórum mótmælum í Íran og samstöðumótmælum víða um heim. Hún var stöðvuð
af lögreglunni fyrir að virða ekki reglur um klæðaburð, en hún bar ekki slæðu sem samkvæmt
írönskum lögum er ólöglegt. Í mótmælaskyni hafa konur t.d. brennt höfuðklúta og klippt hár sitt.
Samkvæmt skýrslu Amnesty International hefur löggæsla skotið á mótmælendur auk þess að berja
og káfa á kvenkyns mótmælendum. En stuttu eftir írönsku byltinguna árið 1979 setti þáverandi
æðsti leiðtogi Ruhollah Khomeini þau lög að hijab væri skylda.
Umræðan á Vesturlöndum um hijab hefur einkennst af fordómum og er oft vísað í þá staðalímynd
að múslimar séu að kúga konur til þess að réttlæta bannið á hijab ásamt því að vísa í staðalímyndina
að múslimar séu hryðjuverkamenn og að það geti auðveldað fólki að fremja slíkan ógnað ef að það
fær að hylja sig. Umræðan hefur einnig einkennst af hugleiðingum um kvenréttindi og í þeirri
umræðu hefur hijab verið tengt við kúgun karla. Umræðan er vissulega um kvenréttindi í því
samhengi að líkami kvenna og réttur þeirra til þess að taka sjálfstæðar ákvarðanrnir hafa verið tekin
af þeim. Það er afar skrítið að stilla þessum tveimur dæmum hlið við hlið þar sem annað snýst um
réttinn að þurfa að nota hijab og að fá ekki að hafa hann. Það sem Frakkland og Íran eru að gera eru í
rauninni hið sama. Þar eru ríkin að skipta sér af ákvörðunar og sjálfstjórnarrétti kvenna og nota til
þess föt. Umræðan og baráttan í kringum þetta í heild sinni snýst um það að raddir kvenna fái að
heyrast og þær fái að taka ákvörðun um eigin fatnað, eigin líkama og eigin hagsmuni án þess að
utanaðkomandi aðilar skipti sér af. Fyrir konurnar í Íran er þetta spurning um neikvætt frelsi, frelsi
frá því að þurfa að klæðast hijab en fyrir konurnar í Frakklandi er þetta spurning um jákvætt frelsi,
frelsi til þess að klæðast hijab. Þetta er eins og hefur komið fram tvær hliðar á sama pening.
FATARÉTTINDI
Íris Björk Ágústsdóttir
Margrét B W Waage Reynisdóttir
47