Goðasteinn - 01.09.1966, Side 21
Jökullinn féll aftur að skógarbrekkunni skömmu eftir skógar-
ferðina, svo þangað varð ófært á komandi tímum.
Nú leið fram á vetur, og var búið að taka alla gripi á gjöf. Mig
minnir það vera á þorra. Þá veiktust allir hestarnir, sem farið var
með í téða skógarferð. Aðrir hestar vóru ekki á fóðrum hjá okkur
þann vetur, nema folaldið skjótta, en það veiktist ekki. Ekki get
ég nákvæmlegt lýst því, hvernig veikin hagaði sér í hestunum. Ég
var hræddur, þá 8 eða 9 ára, og þorði ekki að koma mikið til
hestanna, eftir að þeir vóru orðnir veikir, en ég man það, að veikin
hagaði sér líkt og krampi eða mænuveiki. Þeir reigðust aftur á bak
og slöngruðu og skullu aftur yfir sig, og síðan hættu þeir að geta
staðið, og þessi veiki endaði með því, að hrossin þrjú, sem skóg-
urinn var fluttur á, drápust öll, eftir sem næst viku veikindi, en
brúnu hryssunni, sem riðið var fyrir skógarlestinni, batnaði til
frambúðar.
Eftir þetta áfelli var pabbi minn hestlaus að kalla, en það
hefir aldrei hentað að búa hestlaus á Viðborði. Hrossaeignin, sem
eftir var, taldist aðeins brúna hryssan hennar ömmu minnar og
skjótta folaldið. Það varð síðar bráðviljugur og duglegur hestur,
sem naut þess heiðurs að lokum að vera kallaður Gamli-Skjóni.
Nú var það á vorhreppaþingi, næsta vor eftir þetta hrossatap hjá
föður mínum, að Jón Jónsson, sem þá var hjá foreldrum sínum á
Hólmi á Mýrum en nú býr í Skógum í Vopnafirði, kom með til-
lögu um það, að hafin yrðu samskot handa pabba til að kaupa
hesta fyrir. Þá var það einn efnaðasti bóndinn í sveitinni, sem sagði,
að sér fyndist ástæðulaust að borga Benedikt á Viðborði fyrir það
að drepa hestana sína á fergini. Þessi umsögn varð til þess, að
ekkert varð úr samskotunum, en hinn fyrrnefndi Jón í Hólmi kom
nokkru síðar með rauðan hest, ljómandi fallegan en nokkuð við
aldur, og færði pabba hann að gjöf frá pabba sínum. Sannaðist þar
hið fornkveðna: „Sá er vinur, sem í raun reynist“.
Pabbi minn keypti sér svo tvær hryssur, báðar rauðar. Önnur
var frá Stóra-Bóli, kölluð Bólsa, hin frá Slindurholti, kölluð Slindra.
Þessar hryssur kostuðu, önnur 45 krónur, hin 40 krónur. Þá mun
lambið hafa verið tæplega þriggja króna virði, og hefði því þurft
30 lömb fyrir báðar hryssurnar.
Goðasteinn
19