Goðasteinn - 01.03.1972, Side 37
fjallmönnum. Þegar inn að Tungná kom, var okkur sagt, að við
hefðum átt að fara degi fyrr með þeim, sem fóru á Þóristungur,
en láðst hafði að láta okkur vita um það. Úr því sem komið var,
var annaðhvort að fara heim að bæ eða inn yfir Tungná og síðan
yfir Köldukvísl, og það gerðum við, vorum ekki á því að snúa
til baka.
Eg var á hesti, sem Skolur hét, stólpagrip miklum. Ég fór fyrst
að reyna ána. í bakaleiðinni tapaði Solur botni og þeyttist til
en krakaði aftur. Ekki var á að lítast. Út í þetta fórum við þó
með tvo hesta undir farangri okkar, timbri og öðru. Þegar upp úr
Köldukvísl kom, hélt Nikulás um hálsinn á hestinum, og allt, sem
okkur við kom, var vindandi blaut. Ég hafði eldstokk í kaffidós
og annan í brjóstvasa. Þeir blotnuðu ekki. Um svefn var ekki að
ræða um nóttina fyrir kulda. Við vorum að dreypa á lampaspritti,
sem vani var að hafa með til að bera á hesta ef þeir meiddust.
Nú hlýjaði þetta okkur.
Vestangarri var kominn um nóttina og kólnandi veður. Kvíslin
var því aðeins rúmlega í kvið á hesti, er við fórum til baka, en
straumhörð að venju. Ég tel, að í þetta skipti hafi hún verið versta
vatnsfall, sem ég hef farið yfir á hesti, en Skolur reyndist vel,
annars hefði verr farið.
1 annan tíma skeði það, er við vorum á fjalli og vorum að
byrja að ferma féð yfir Tungná, að báturinn sökk af leka. Það
varð okkur til lífs, að við vorum ekki komnir út í aðalstrenginn.
Við vorum 4 á bátnum með 10 sauði. Fjallkóngur var Guðmund-
ur Jónsson á Ægisíðu. Ég man eftir, að hann sagði: „Hvað eigum
við að gera?“ Ég sagði ekki annað vænna en hella úr bátnum,
ausa hann, troða í rifurnar og fara austar út í ána. Það var gert
og allt gekk þá að óskum.
Það mun hafa verið í þessari fjallferð, sem um lengri tíma hafði
verið sunnanrok og stórrigningar. Yfirmaður á austurafrétti var
þá Einar Gíslason frá Flúsum. Ég var búinn að fara með hestana
suður í Byrgistorfu og var lagður af stað í leit. Sagði Einar mér þá,
að hann væri búinn að fara 30 sinnum á fjall og væri þetta í
fyrsta sinn, sem yrði að hætta leit tvisvar sinnum sama daginn.
Hafði ég þá mætt féiögum mínum nema Einari, sem beið á þeim
Godasteinn
35