Goðasteinn - 01.03.1972, Page 40
Hólsá. Þær jusu alla leiðina. Ég spurði aðeins: „Hver verður til
þess að ausa?“ Báturinn sökk út á miðri á, en það varð til bjargar,
að hann var ekki kominn í aðalálinn. Ég dró hann að broti, hellti
og jós úr honum og komst með naumindum út yfir. Það varð hans
síðasta ferð, og þar með endaði ferjumennskan sem betur fór,
mikið erfiði, oft hætta og lítil laun.
VIÐ SJÓ OG VÖTN
Austur á Tanga var það einu sinni í stórbrimi og sunnanátt, að
ég var staddur þar á hesti, sem hét Blettur, uppáhaldshestur og
sá síðasti hjá mér að ég tel. Ég er búinn að festa staur aftan í
hestinn, setti band yfir hnakkinn og bönd sitt hvorum megin við
hestinn. Þá var brimið það mikið, að ég var stígvélafullur og var
þó á klofháum stígvélum og munaði minnstu, að allt færi í ána
(Hólsá). Tanginn var mjór og mátti ekki útaf bera. Ekki fór ég
nema þcssa ferð. Tveir menn fóru seinna um daginn á traktor og
náðu í þrjá staura, sem ég varð að fara frá. Lægð var í Tanganum
vestan við þá staura. Þá var farið að lækka í sjó, en þó gróf
sjórinn undan hjólunum. Það voru hættuferðir að fara austur á
Tanga í veltubrimi, og gerðu það ekki nema verstu flón eins og
ég, en rekasælt var þar.
Einu sinni fann ég 14 fiska sama morguninn. Daginn áður voru
Eyjabátar útfrá. Þá var á sunnanátt.
Eitt sinn skeði það, að ég var á fjörum kringum 1930 og var
kominn austarlega á Austurþæjarfjöru. Hesturinn, sem ég reið,
hét Neisti, úrvalsgripur, þægur og traustur. Hundur var með mér,
sem hét Kolur, stór og fallegur og mikið tryggur. Veit ég ckki
fyrr til en hesturinn stoppar og helzt ekki hægt að koma honum
úr sporunum. Ég er að reyna að sveigja hann sitt á hvað en hann
að sperra eyrun og frísa og ólmast. Hundurinn var alveg topp-
vitlaus, hentist sitt á hvað við hestinn, stundum undir kviðinn á
hestinum, geltandi og urrandi með alls konar óhljóðum og með
uppsettan kambinn. Hvorki fyrr né síðar hef ég séð hund láta
svona. Þó fór svo, að ég komst leiðar minnar. Seinna kom ég á
þennan sama stað. Þá sá ég þar bein, sem ég kannaðist ekki við.
Oft urðu vatnsflóð á veturna, áður en hlaðið var í Djúpós,
38
Godastehm