Mímir - 01.06.2023, Page 10
8
Fyrir utan þessa 100 nýnema í stofu 201 voru þar Eiríkur
Rögnvaldsson og Matthías Viðar Sæmundsson heitinn sem
léku á als oddi eins og eðlilegt var – þetta er aðeins flóknara
fyrir þá sem nú halda slíka fundi fyrir fámennari hópa. Ekki
veit ég hvort það var aðeins ég en tilfinningin var sterk fyrir
því að þetta nám yrði mun strembnara en menntaskólinn.
Ekki dró úr þessari tilfinningu í fyrsta námskeiðinu þegar
Bergljót Kristjánsdóttir skeiðaði inn í stofuna og byrjaði að
kenna á göngunni inn. Á dagskrá hjá henni voru tvær bækur
á norsku en einnig Das sprachliche Kunstwerk eftir Wolfgang
Kayser, tæplega 500 blaðsíður á þýsku með afar smáu letri. Ég
fór strax á bókasafnið sem þá var í kjallara Aðalbyggingar og
minnti einna helst á frystiklefa í sláturhúsi. Ég á til að taka
allt bókstaflega sem sagt er og það var ekki fyrr en eftir jól
sem ég komst að því að engum öðrum nýnema en mér
hafði dottið í hug að lesa þessa bók enda samnemendur
mínir margir rígfullorðnir og veraldarvanir.
Fæstir þorðu að tjá sig í tímum enda hófust
allar spurningar stúdenta á orðunum „Sagði ekki
Voltaire árið 1732 að …“ eða einhverju svipuðu. Í
ýmsum námskeiðum voru eldri nemendur sem höfðu
kynnst öllum skáldunum persónulega. Í öðrum var
fólk sem hafði þáskildagatíð á hraðbergi. Verkefnum
var skilað nánast í hverri viku. Á mitt heimili hafði
verið keypt tölva í tilefni háskólanáms okkar. Á þá tölvu
skrifaði ég eina af mínum fyrstu ritgerðum sem fjallaði um
skáldsöguna Þel eftir Álfrúnu Gunnlaugsdóttur. Mér fannst ég
ekkert botna í henni en komst þó klakklaust gegnum verkefnið.
Sennilega hafa kennarar í Árnagarði aldrei verið hressari
en upp úr 1990. Þeir sóttu flestir kaffistofu stúdenta fremur
en þá á 4. hæð, fóru í allar Mímisferðir án þess að vera boðið
sérstaklega. Margir fóru með stúdentum í kaffi í hvert sinn
enda voru kaffitímar þá 15 mínútur en ekki 10 (hinir stuttu
kaffitímar eru hugmynd raunvísindamanna). Drjúgur hluti
kennslunnar fór fram utan kennslutíma og meðal þess sem
þar var á dagskrá voru Skjónukvæði, Lambið hinsta og sögur
af Jóni Helgasyni, Bjarna Guðnasyni og Birni Karel. Á þessum